Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir því harðlega að velta eigi lausafjárvanda fyrirtækja á herðar neytendum eins og gert er ráð fyrir í efnahagsaðgerðum stjórnvalda, en þar segir meðal annars: „Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.“
Það er ekki í boði að heimilin axli byrðar lausafjárvanda fyrirtækja og inneignarnótur í gjaldþrota fyrirtækjum eru einskis virði. Fjölmargir hafa misst viðurværi sitt og gera ráð fyrir að fá endurgreiðslu eins og lög kveða á um.
Stjórn Neytendasamtakanna minnir á að neytendur eiga skýlausan rétt á endurgreiðslum og með þessu er áhættunni velt yfir á neytendur. Þá er ekki ólíklegt að með því að breyta lögum afturvirkt geti ríkið skapað sér bótaskyldu. Neytendasamtökin hafa margsinnis bent á leiðir sem kæmu bæði fyrirtækjum og neytendum vel og furða sig á að ekki sé á þau hlustað.
Líklega hefur sjaldan verið eins mikilvægt að standa vörð um neytendavernd og telja Neytendasamtökin nær að stjórnvöld tryggðu réttindi neytenda í stað þess að leggja af réttindi sem þeir eiga.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.