Litlar líkur á að næla í Mbappe
Til að sýna fram á hversu litlar líkur eru á því að vinna bestu leikmennina útbjó Forbrukerrådet tilbúið dæmi út frá upplýsingum frá EA ásamt eigin tilgátum, til að hægt væri að reikna dæmið.
Spilari sem reyndi að næla sér í Team of the Year spjald (TOTY-spjald) af forsíðustjörnu leiksins, Kylian Mbappe, hafði minna en tvær vikur til stefnu því að þeim tíma liðnum var spjaldið ekki lengur til sölu. Það er hægt að fá 11 mismunandi leikmenn í TOTY, en spjaldið sem um ræðir var ítrekað auglýst í valmynd og þegar leikurinn var að hlaðast. Pakkinn sem veitti mestu líkurnar á Mbappe spjaldi var svokallaður „Jumbo Rare Player Pack (JRPP)“ sem gaf 1.3% líkur og kostaði 2.000 FIFA punkta – ígildi 20 evra. Spilari sem freistar þess að fá TOTY spjald þarf að opna 77 JRPP pakka, sem myndi kosta 150.000 FIFA punkta, eða um 1.400 evrur.
Þar sem það eru 11 leikmenn í TOTY, og með því að dreifa líkunum jafnt á milli þessara 11 leikmanna, eru líkurnar á að fá TOTY Mbappe úr slíkum pakka 0.11%.
Þetta þýðir að spilari þarf að meðaltali að kaupa samtals 847 JRPP pakka til að fá eitt tiltekið TOTY spjald. Til að kaupa slíkt magn þyrfti spilarinn að eyða 1.7 milljón FIFA punktum, eða um 13.500 evrum (rétt undir 2 milljónum íslenskra króna). Rétt er að taka fram að þetta dæmi sem Forbrukerrådet tekur er byggt á jöfnum líkum og hlutlausri dreifingu. Til þess að það væri betur tryggt að leikmaður myndi fá Mbappe spjaldið gæti hann þurft að kaupa nokkur þúsund JRPP pakka.
Þetta tilbúna dæmi verður þó enn flóknara. Annars vegar eru takmörk sett á það hversu marga JRPP pakka er hægt að kaupa, eða 12 pakka á sólarhring. Spilari þyrfti því að grípa til þess ráðs að kaupa aðra pakka með minni líkum, svo sem Prime Gold Player Pack, sem gefur minna en 1% líkur á að fá TOTY spjald. Hinsvegar eru engin gögn sem sýna að það sé jafn líklegt að fá Mbappe spjald og aðra leikmenn sem ekki eru jafn eftirsóttir.
Það mat Forbrukerrådet að 13.500 evrur fyrir þetta tiltekna spjald sé líklegast nokkuð hógvært og raunverulegar líkur séu mun minni. Þannig er í raun ógerningur fyrir spilara að átta sig á því hversu líklegt er að hreppa TOTY Mbappe spjaldið. Hjálpar þá lítið þótt spilari sé sérfræðingur í líkindareikningi.