Í kjölfar frétta um niðurfellingu flugferða vilja Neytendasamtökin ítreka hver réttindi farþega eru þegar flugi er aflýst, sérstaklega þar sem borið hefur á því að flugfélög upplýsi farþega ekki að fullu um réttindi þeirra. Eftirfarandi gildir jafnt um innanlandsflug sem og flug til eða frá landi evrópska efnahagssvæðisins.
Þegar flugfélag aflýsir flugi ber því að bjóða farþegum að velja á milli þess að fá endurgreiðslu sem nemur fullu verði miðans, eða að koma farþega á lokaáfangastað við fyrsta hentugleika farþegans.
Velji farþegi seinni kostinn, að flugrekandi komi honum á lokaáfangastað, getur fallið til kostnaður sem farþegi á rétt á að fá bættan, svo sem máltíðir, gisting, flutningskostnaður til og frá flugvelli ef við á og svo framvegis. Þegar flugi er aflýst í heimalandi farþega er þó oft hægt að takmarka kostnaðinn s.s. með því að gista heima hjá sér.
Ef flugi er aflýst með minna en tveggja vikna fyrirvara á farþegi jafnframt rétt á að fá skaðabætur sem nema 250-600 evrum (upphæðin fer eftir lengd flugs). Flugfélag þarf þó ekki að greiða skaðabætur ef sýnt þyki að aflýsing hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir jafnvel þótt allar nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið viðhafðar. Það á þó einungis við um ef slæm veðurskilyrði, styrjaldir, hryðjuverk alvarlegar náttúruhamfarir eða svipaðar aðstæður hamla flugumferð, eða ef flugumferðarstjórn stöðvar flug. Aflýsing flugs vegna algengra tæknilegra vandamála eða verkfalla leysir flugfélög almennt ekki undan skaðabótaskyldu.
Flugi seinkað
Þegar flugi er seinkað geta farþegar átt rétt á bótum. Það skiptir þó máli hversu löng seinkunin er, hversu langt flugið er og hvert er verið að fljúga.
Hér má finna ítarlegri upplýsingar um réttindi farþega þegar flugi seinkar eða því er aflýst og skaðabótareiknivél.
Neytendasamtökin aðstoða félagsmenn sína við að ná fram réttindum sínum, meðal annars endurgreiðslur og skaðabætur. Hér er hægt að gerast félagsmaður.
Hér er eyðublað Samgöngustofu vegna skaðabóta og/eða aðstoð til farþega vegna neitunar á fari, tilfærslu yfir á lægra farrými, mikla seinkun eða niðurfellingu flugferðar.