Áherslur Neytendasamtakanna

Efnahagsaðgerðir fyrir neytendur

Stjórn Neytendasamtakanna kallar eftir því að hagsmunir neytenda séu í forgrunni í efnahagsaðgerðum stjórnvalda. Aðgerðir stjórnvalda hafa hingað til aðallega snúist um að aðstoða fyrirtæki í erfiðleikum, jafnvel með því að grafa undan réttindum neytenda. Neytendum hefur verið boðið að nýta sinn eigin lífeyrissparnað til fasteignakaupa en ljóst er að sú leið gagnast aðeins fáum og síst þeim sem minnst hafa milli handanna. Neytendasamtökunum hafa borist fyrirspurnir frá fjölmörgum lántakendum sem óttast að geta ekki staðið í skilum vegna tekjumissis. Skuldavandi einstaklinga getur dýpkað kreppuna og gert afleiðingar hennar langvinnari.

Neytendasamtökin skora á íslensk stjórnvöld og lánastofnanir að gera eftirfarandi ráðstafanir, í samræmi við tillögur Evrópsku neytendasamtakanna (BEUC):

  • Lántakendur í fjárhagsvanda eigi skýlausan rétt á greiðslufresti í að minnsta kosti sex mánuði.
  • Réttur til greiðslufrests nái til allra tegunda neytendalána veðtryggðra og óveðtryggðra, þar á meðal húsnæðislána, bílalána, neyslulána, yfirdráttar og greiðslukortalána.
  • Greiðslufrestur nái bæði til afborgana höfuðstóls og vaxta.
  • Á meðan greiðsluhléi stendur berI lán ekki vexti.
  • Skilyrði fyrir greiðslufresti séu ekki of þröng, til að útiloka ekki að neytendur í viðkvæmri stöðu nýti sér þennan rétt. Neytendasamtökin komi að útfærslu skilyrða.
  • Greiðslufrestunarferlið sé hraðvirkt, vandkvæðalaust og ókeypis.
  • Greiðslufrestun hafi ekki neikvæð áhrif á lánshæfismat til framtíðar.
  • Bann sé lagt við framsali krafna til þriðja aðila (innheimtumanna skulda) sem og við nauðungarsölum á meðan COVID-19 kreppan gengur yfir.

Stjórn Neytendasamtakanna óskar eftir samtali Neytendasamtakanna, stjórnvalda, aðilda vinnumarkaðarins og annarra sem hagsmuna eiga að gæta um leiðir til að minnka áhrif kreppunnar á almenning.

Ályktun vegna efnahagsaðgerða stjórnvalda

Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir því harðlega að velta eigi lausafjárvanda fyrirtækja á herðar neytendum eins og gert er ráð fyrir í efnahagsaðgerðum stjórnvalda, en þar segir meðal annars: „Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.“

Það er ekki í boði að heimilin axli byrðar lausafjárvanda fyrirtækja og inneignarnótur í gjaldþrota fyrirtækjum eru einskis virði. Fjölmargir hafa misst viðurværi sitt og gera ráð fyrir að fá endurgreiðslu eins og lög kveða á um.

Stjórn Neytendasamtakanna minnir á að neytendur eiga skýlausan rétt á endurgreiðslum og með þessu er áhættunni velt yfir á neytendur. Þá er ekki ólíklegt að með því að breyta lögum afturvirkt geti ríkið skapað sér bótaskyldu. Neytendasamtökin hafa margsinnis bent á leiðir sem kæmu bæði fyrirtækjum og neytendum vel og furða sig á að ekki sé á þau hlustað.

Líklega hefur sjaldan verið eins mikilvægt að standa vörð um neytendavernd og telja Neytendasamtökin nær að stjórnvöld tryggðu réttindi neytenda í stað þess að leggja af réttindi sem þeir eiga.

Stjórn Neytendasamtakanna sendir frá sér tvær ályktanir eftir stjórnarfund 2. apríl 2020.

Stjórnvöld verða að tryggja varnir neytenda í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Aðgerðir stjórnvalda mega aldrei verða til þess að veikja varnir neytenda né réttindi.
Stjórn Neytendasamtakanna gera þá kröfu um að aðgerðir stjórnvalda í þágu fyrirtækja gangi að fullu áfram til neytenda. Neytendasamtökin krefjast þess sérstaklega að tilslakanir stjórnvalda í garð banka og fjármálastofnana skili sér að fullu til viðskiptavina þeirra í formi þóknana- og vaxtalækkana, og eins að leigjendur fái að njóta tilslakana sem leigusalar kunna að fá. Samtökin hvetja stjórnvöld til að fylgjast sérstaklega með því og fylgja því hart eftir.
Stjórn Neytendasamtakanna vilja sérstaklega vara við gamalkunnum óvildargestum, gengissigi og verðbólgu sem glittir í við sjónarrönd og hvetja stjórnvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stugga við þeim. Eitt af því sem hlýtur að vera skoðað við þær aðstæður er hvort setja eigi þak á verðtryggingu.
Ekki er í boði að neytendur verði einir látnir bera þær klyfjar sem óneitanlega munu fylgja því sem fram undan er.

Stjórn Neytendasamtakanna hvetur Strætó BS til endurskoða ákvörðun sína um að fækka ferðum almenningsvagna. Hin skerta þjónusta Strætó kemur hart niður á notendum, meðal annars þeim sem vinna samfélagslega mikilvæg störf og nýta sér almenningssamgöngur í og úr vinnu. Mætti leiða að því rökum að með fækkun ferða ferðist fleiri með hverjum vagni með aukinni smithættu, þvert á rök Strætó um aðgerðir vegna Covid-19.
Aðgengi að góðum almenningssamgöngum eru afar mikilvægar og á meðan þess er ekki beinlíns krafist af heilbrigðisyfirvöldum er óþarfi að fækka þeim.