Fréttir

Almenn innheimta braut innheimtulög

Eigandinn áminntur

Smálánafyrirtækin hafa komist upp með skipulagða brotastarfsemi hér á landi um langt árabil. Ein ástæðan er sú að innheimtufyrirtæki á þeirra vegum, Almenn innheimta, starfar án eftirlits og innheimtuleyfis. Nú hefur verið staðfest, í máli lántakanda sem fór fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, að Almenn innheimta hefur brotið innheimtulög. Engin leið er þó til þess að stöðva innheimtuna.

Eftirlitslaus innheimtustarfsemi

Svo undarlega sem það hljómar þá er hægt að stunda innheimtu án eftirlits á Íslandi og það hafa smálánafyrirtækin nýtt sér. Almenn innheimta virðist hafa þann eina starfa að innheimta smálán – í flestum tilfellum ólögmæt – fyrir smálánafyrirtækin. Þar sem fyrirtækið er í eigu lögmanns fellur það ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og þarf ekki innheimtuleyfi. Um er að ræða undanþágu í innheimtulögum sem Neytendasamtökin fá ekki séð að hægt sé að réttlæta með nokkru móti.

Neytendasamtökin hafa orðið þess vör í vinnu sinni fyrir neytendur að Almenn innheimta beitir ólöglegum aðferðum við innheimtu smálána. Fyrirtækið gengur hart fram í innheimtu á ólögmætum kröfum og það hefur einnig haldið lögbundnum upplýsingum frá lántökum. Lántakar hafa verið settir á vanskilaskrá þrátt fyrir að um óréttmætar kröfur sé að ræða og löginnheimta dregst svo mánuðum og árum skiptir með tilheyrandi kostnaði fyrir lántakendur.

Ekkert eftirlit er með starfseminni eins og áður segir og ekki virðist hægt að stöðva hana þótt augljóst sé að hún standist ekki lög. Eina leiðin er að einstaklingur sem telur á sér brotið sendi kæru fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og kvarti undan eiganda stofunnar persónulega. Í gær lá niðurstaða nefndarinnar fyrir í slíku máli, rúmum fimm mánuðum eftir að kæran var send.

Flestum álitaefnum vísað frá

Nefndin vísaði frá kröfum kvartanda sem sneru að því að innheimta yrði tafarlaust stöðvuð og að oftekinn innheimtukostnaður væri endurgreiddur. Úrskurðarnefndin taldi það aftur á móti innan síns valdsviðs að fjalla um þann kröfulið sem snýr að agabrotum eigandans. Nefndin kemst í einföldu máli að því að sú háttsemi að klæða innheimtuna í lögheimtu sé aðfinnsluverð þar sem ljóst var að innheimtan var ekki undanfari réttarfarsaðgerða, svo sem dómsmáls. Þar af leiðandi heyrir innheimtan (frum- og milliinnheimta) undir innheimtulög og þá gilda reglur um hámarkskostnað innheimtu sem Almenn innheimta braut. Telur nefndin, með hliðsjón af alvarleika brotanna, rétt að veita lögmanninum áminningu.

Neytendavernd í skötulíki

Neytendasamtökin telja augljóst að það er engin neytendavernd fólgin í því að ákveðin innheimtufyrirtæki geti komið sér hjá eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Eðlilegt er að allir sem stunda innheimtustarfsemi þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði og sæti eftirliti. Ef grunur leikur á brotum þarf að vera til staðar eftirlitsaðili sem getur að eigin frumkvæði rannsakað mál. Hver og einn neytandi á ekki að þurfa að senda kæru í eigin nafni og á eigin reikning fyrir úrskurðarnefnd sem hefur síðan ekki valdheimildir til að taka á málum. Vissulega er það markverð niðurstaða að Almenn innheimta hafi stundað ólögmæta löginnheimtu og að lögmaður sé áminntur en hún bætir þó í engu tjón neytandans.

Skráning á vanskilaskra Creditinfo aðfinnsluverð

Í öðru máli, sem nefndin tók fyrir samhliða, gerir úrskurðarnefndin athugasemdir við starfshætti Almennrar innheimtu hvað varðar skráningu á vanskilaskrá Creditinfo. Lántaki hafði farið fram á að fá skýrt yfirlit og sundurliðun yfir kröfurnar en Almenn innheimta gaf sér allt að 90 daga til að skila þeim gögnum. Í millitíðinni var lántaka hótað með vanskilaskráningu en jafnframt boðið að greiða helming kröfunnar og teldist þá skuldin greitt. Lántakandi hafði ofgreitt ólöglega vexti svo nam hundruðum þúsunda og taldi sig þvert á móti eiga inni kröfu á smálánafyrirtækið og gekk ekki að þessum „samningi“. Telur úrskurðarnefndin þá háttsemi að hóta vanskilaskráningu, án þess að viðkomandi hafi fengið tilskilin gögn í hendur, aðfinnsluverða. Þáttur Creditinfo í innheimtu ólögmætra smálána undanfarin ár er að mati Neytendasamtakanna óásættanleg og þarf að skoðast nánar.

Niðurstaðan í þessum tveimur málum sýnir svo ekki verður um villst að innheimtustarfsemi þrífst án raunverulegs eftirlits og viðurlaga. Það eitt og sér er gróft brot á neytandarétti og hafa Neytendasamtökin ítrekað bent á þessar brotalamir í lögum. Nú þarf löggjafinn að hysja upp um sig buxurnar.

Fréttir í sama dúr

Frumvarpi um samkeppnisundanþágu afurðastöðva mótmælt

Allt uppi á borðum

Áttu rétt á bótum? – sæktu þær án kostnaðar

Grænþvegnir grísir

Tjón vegna samráðs metið á 62 milljarða króna

Einbeittur síbrotavilji CC bílaleigu ehf.

Bílaleiga lykill bílhurð

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.