Fréttir

Alþjóðadagur neytenda

Þann 15. mars 1962 var John F. Kennedy Bandaríkjaforseti fyrstur þjóðarleiðtoga til að lýsa formlega yfir að neytendur hefðu grundvallarréttindi. „Við erum öll neytendur,“ sagði Kennedy. „Neytendur er sá hópur sem hefur hvað víðtækustu áhrif á nánast allar efnahagsstærðir og nánast allar ákvarðanir í opinbera og einkageiranum hafa áhrif á neytendur. Samt sem áður eru þeir oft og tíðum sá hópur sem minnst er hlustað á.“

Þessi yfirlýsing Kennedys leiddi til þess að árið 1985 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sérstakar leiðbeiningar um neytendavernd. Þar segir m.a. að allur almenningur, án tillits til tekna eða félagslegrar stöðu, hafi ákveðin lágmarksréttindi sem neytendur.

15. mars er alþjóðadagur neytenda og þá er við hæfi að vekja athygli á grunnkröfum neytenda. Þesar kröfur eru leiðarvísir og grunnur að öllu starfi Neytendasamtakanna:

1. Réttur til að fá grunnþörfum mætt

Að hafa aðgang að nauðsynjavörum og þjónustu, en þar falla undir t.d. matvæli, fatnaður, húsnæði, heilbrigðisþjónusta, menntun, vatn og hreinlæti.

2. Réttur til öryggis

Að njóta verndar gagnvart vörum, framleiðsluháttum og þjónustu sem ógna öryggi og lífi neytenda.

3. Réttur til upplýsinga

Að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun og njóta verndar gegn misvísandi og röngum upplýsingum.

4. Réttur til að velja

Að geta valið milli fjölbreytts varnings og þjónustu á samkeppnishæfu verði og af fullnægjandi gæðum.

5. Réttur til áheyrnar

Að hagsmuna neytenda sé gætt við ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum og við þróun á vörum og þjónustu.

6. Réttur til úrlausnar

Að eiga rétt á sanngjarnri úrlausn á réttmætum kröfum, sem og bótakröfum í tengslum við kaup á ófullnægjandi vörum og þjónustu.

7. Réttur til neytendafræðslu

Að eiga rétt á þekkingu og færni til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um val á vörum og þjónustu auk þess að hafa þekkingu á grundvallarréttindum og skyldum neytenda.

8. Réttur til heilbrigðs umhverfis

Að lifa og starfa í umhverfi sem ógnar ekki velferð núlifandi né komandi kynslóða.

Þá bæta Neytendasamtökin við níundu grunnkröfunni í samræmi við kröfur norrænna systursamtaka:

9. Réttur til stafrænnar neytendaverndar

Að jafnt aðgengi allra sé tryggt, að öryggi og heiðarleiki ráði ferð í stafrænum vörum og þjónustu, og að neytendur geti gert sér fulla grein fyrir öllum skilmálum.

Fréttir í sama dúr

Smálánabaráttan

Framboð til stjórnar og formanns

Nýtt símkerfi

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.