Fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar 15.mars

Alþjóðadagur neytendaréttar 15.mars
átta grunnkröfur neytenda eru snjallræði

Þann 15. mars 1962 var John F. Kennedy Bandaríkjaforseti fyrstur þjóðarleiðtoga til að lýsa formlega yfir að neytendur hefðu grundvallarréttindi. Síðan þá hefur dagurinn markað sess hjá baráttufólki fyrir bættum neytendarétti um heim allan og hann verið notaður til að vekja stjórnvöld og almenning til umhugsunar um rétt sinn, mátt og megin í neytendamálum. „Við erum öll neytendur,“ sagði Kennedy. „Neytendur er sá hópur sem hefur hvað víðtækustu áhrif á nánast allar efnahagsstærðir og nánast allar ákvarðanir í opinbera og einkageiranum hafa áhrif á neytendur. Samt sem áður eru þeir oft og tíðum sá hópur sem minnst er hlustað á.“
Þessi yfirlýsing Kennedys leiddi til þess að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 1985 sérstakar leiðbeiningar um neytendavernd. Þar segir m.a. að allur almenningur, án tillits til tekna eða félagslegrar stöðu, hafi ákveðin lágmarksréttindi sem neytendur.
Þær átta lágmarkskröfur Sameinuðu þjóðanna sem mynda grunninn að vinnu neytendasamtaka um allan heim eru:

Réttur til að fá grunnþörfum mætt
Að hafa aðgang að nauðsynjavörum og þjónustu, en þar falla undir t.d. matvæli, fatnaður, húsnæði, heilbrigðisþjónusta, menntun, vatn og hreinlæti.

Réttur til öryggis 
Að njóta verndar gagnvart vörum, framleiðsluháttum og þjónustu sem ógna öryggi og lífi neytenda.

Réttur til upplýsinga 
Að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun og njóta verndar gegn misvísandi og röngum upplýsingum.

Réttur til að velja 
Að geta valið milli fjölbreytts varnings og þjónustu á samkeppnishæfu verði og af fullnægjandi gæðum.

Réttur til áheyrnar 
Að hagsmuna neytenda sé gætt við ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum og við þróun á vörum og þjónustu.

Réttur til úrlausnar 
Að eiga rétt á sanngjarnri úrlausn á réttmætum kröfum, sem og bótakröfum í tengslum við kaup á ófullnægjandi vörum og þjónustu.

Réttur til neytendafræðslu 
Að eiga rétt á þekkingu og færni til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um val á vörum og þjónustu auk þess að hafa þekkingu á grundvallarréttindum og skyldum neytenda.

Réttur til heilbrigðs umhverfis 
Að lifa og starfa í umhverfi sem ógnar ekki velferð núlifandi né komandi kynslóða.

Í ár ber alþjóðadagur neytendaréttar yfirskriftina „Snjallöryggi“ (e. Trusted smart products) og beina neytendasamtök um heim allan sjónum sínum að öryggi snjalltækja og snjallþjónustu. Við erum sífellt að nýta okkur snjallari tækni, allt frá snjallsímum til alhliða snjallúra sem fylgjast með heilsufari og æfingum. Sjónvörp eru einnig mörg hver orðin „snjöll“ og heimili þar sem ýmsu má stýra með mannsröddinni eru ekki svo óalgeng lengur. Þá eru mörg kunnugleg heimilistæki að verða nettengd, ef þau eru það þá ekki þegar. Á alþjóðadegi neytenda er sjónum beint að mikilvægi þess að vilji neytenda sé þungamiðjan í þróun snjalltækninnar.
Snjalltæki eru nettengd og taka á móti, safna og senda upplýsingar. Á heimsvísu eru 23,1 milljarðar snjalltækja, eða rúmlega þrisvar sinnum fleiri en íbúar jarðarinnar. Snjalltækni hefur þegar breytt samskiptavenjum okkar og því hvernig við neytum vara og þjónustu. Tilkoma snjalltækni býður upp á marga möguleika fyrir neytendur; nýjar þjónustuleiðir, gagnvirkar vörur, meiri þægindi og aukið val. Þó eru nokkur áhyggjuefni þegar kemur að öryggi, persónuvernd og raunverulegu vali á því hvernig við notum tæknina, og eins er oft óskýrt hver ber ábyrgðina fari eitthvað úrskeiðis. Þá er aðgengi að snjalltækni afar misskipt þar sem innviðir eru mislangt á veg komnir og víða um heim má segja að verðlag hindri aðgengi fólks að tækni sem flestum þykir sjálfsögð.

Öryggi snjalltækja hefur hingað til ekki verið nógu mikið í deiglunni. En þótt snjalltæknin létti okkur lífið í langflestum tilvikum og auðveldi okkur samskipti þá má ekki gleyma að með notkun þeirra getum við boðið hættunni heim. Það er því mikilvægt að setja snjallöryggið á oddinn. Það væri sannkallað snjallræði.

Fréttir í sama dúr

Smálánabaráttan

Framboð til stjórnar og formanns

Nýtt símkerfi

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.