Fréttir

Alvarlegar athugasemdir við starfsleyfi Creditinfo

Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands gera alvarlegar athugasemdir í umsögn sinni til Persónuverndar um starfsleyfi Creditinfo.
Creditinfo heldur einu eiginlegu vanskilaskrá yfir einstaklinga á Íslandi, skrá sem flestallar innlendar lánastofnanir nýta sér í tengslum við afgreiðslu erinda, hvort heldur sem er við upphaf viðskipta eða fyrirgreiðslu. Skráningin er gerð með starfsleyfi frá Persónuvernd.

Samtökin telja að svona umfangsmikil skráning viðkvæmra persónuupplýsinga væri betur farið á höndum hins opinbera. Ef stjórnvöld, hins vegar, fela einkafyrirtæki slíka skráningu telja samtökin bæði rétt og eðlilegt að ríkar skyldur séu lagðar á fyrirtækið og að óheimil vinnsla þess á persónuupplýsingum skuli teljast brot á starfsleyfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum um persónuvernd. Telja samtökin mikilvægt að eftirlit með starfseminni sé virkt og tryggt að brot gegn starfsleyfi fái ekki að viðgangast í margar vikur, mánuði eða jafnvel ár án þess að brugðist sé við. Af heimasíðu Persónuverndar má ráða að allir úrskurðir Persónuverndar varðandi Creditinfo eru tilkomnir vegna kvartana þriðja aðila sem telur á sér brotið eða ábendinga utanaðkomandi aðila.

Þá telja samtökin mikilvægt að viðskiptagrundvöllur Creditinfo verði skoðaður í tengslum við endurskoðun starfsleyfisins. Er þar sérstaklega horft til þess að tryggt verði að fyrirtækið hafi ekki beina verulega hagsmuni, s.s. fjárhagslega, af skráningu eða viðskiptum við innheimtufyrirtæki sem nýta sér heimild til skráningar á vanskilaskráningar. Kann að vera nauðsynlegt að setja slíkri starfsemi og tengslum frekari skorður. Í það minnsta telja samtökin brýnt að afturköllun starfsleyfisins og beiting viðurlaga, s.s. sekta, verði í reynd virk úrræði til þess verja hagsmuni almennings.

Samtökin telja fullreynt að fyrirtækið taki sjálft frumkvæði að því að verja hagmuni þeirra sem skráðir eru á vanskilaskrá og því sé nauðsynlegt að endurskoða starfsleyfi Creditinfo með tillit til almannahagsmuna.

Hér eru nokkur þeirra atriða sem gerðar var athugasemdir við:

• Samtökin gera athugasemdir við að heimildir í starfsleyfinu vísi í brottfallin lög 77/2000. Sæti það furðu að Persónuvernd geti veitt starfsleyfi með vísan í lög sem ekki eru í gildi.

• Samkvæmt starfsleyfinu er heimilt að skrá á vanskilaskrá skuld sem nemur að lágmarki 50.000 kr. höfuðstól. Upphæðin hefur ekki breyst í áraraðir og þarf að hækka hana verulega, sér í lagi í ljósi verulegra íþyngjandi áhrifa sem skráning á vanskilaskrá hefur í för með sér.

• Samtökin telja með öllu óásættanlegt, stórfurðulegt og öfugsnúið, að Creditinfo hafi hugsanlega hag af brotum áskrifenda sinna, en brjóti áskrifandi hjá Creditinfo gegn skilmálum starfsleyfisins hækkar áskriftargjald til Creditinfo. Sektin ætti að renna til þess sem brotið er á eða í ríkissjóð.

• Samtökin telja eðlilegt og í raun mjög mikilvægt að gerð verði sú krafa að starfsleyfishafa sé skylt að veita stjórnvöldum tölfræðilegar upplýsingar um hvaðeina sem óskað er eftir, og ekki er persónugreinanlegt. Þar með talið, en ekki einskorðað við; upplýsingar um fjölda skráninga, tegundir lána, aldur lántaka, búsetu ofl. Slíkar upplýsingar eru mjög mikilvægar í samfélagslegu tilliti. Má nefna að enginn hefur t.a.m. aðgang að upplýsingum um umfang vanskila vegna smálána. En Creditinfo hefur sem dæmi margítrekað hafnað að veita yfirvöldum og félagasamtökum upplýsingar um umfang smálánastarfseminnar á Íslandi.

• Herða þarf á virku eftirliti og raunverulegum viðurlögum við brotum frá því sem nú er enda sýnir sagan að Creditinfo grípur seint og illa til aðgerða gagnvart viðskiptavinum sínum sem brjóta innheimtulög og Persónuvernd bregst ekki við brotum nema að skuldari kvarti undan starfsháttum Creditinfo. Þá virðist sem brot félagsins á starfsleyfi hafi ekki neina eftirmála.

• Creditinfo er heimilt að geyma viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar í fjögur ár og stundum mun lengur. Samtökin telja þetta afar íþyngjandi fyrir skráningarþola og telja t.a.m. óréttlátt að allar kröfur að upphæð 50.000 kr. og hærri megi geyma svo lengi.

• Samtökin telja að sú tilhögun að meintur skuldari þurfi að færa sönnur á skuldleysi sitt feli í sér öfuga sönnunarbyrði sem brýtur í bága við meginstefnu neytendaréttar. Tilhöguninni þarf að breyta á þann hátt að starfsleyfishafi þurfi á hverjum tíma að geta fært sönnur á réttmæti kröfu sem skráð er í vanskilaskrá hans.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.