Fréttir

Ályktanir aðalfundar Neytendasamtakanna 30. október 2021

Ályktun vegna dýrtíðarhættu

Aðalfundur Neytendasamtakanna beinir því til fyrirtækja og forsvarsmanna hagsmunasamtaka atvinnulífsins að hækka ekki vöruverð til neytenda í þeim aðstæðum sem nú ríkja. Við tímabundnum hækkunum hrávöruverðs og flutningstruflana af völdum kórónuveirufaraldursins, verði fyrirtæki þess í stað að hagræða, lækka álögur og draga úr arðsemiskröfum. Þá beinir aðalfundur því til stjórnvalda að afnema alla tolla til að stemma stigu við verðhækkunum. 

Aðalfundur Neytendasamtakanna tekur undir áskorun Samkeppniseftirlitsins nýverið til neytenda um að vera á varðbergi og tilkynna þegar þeir verða varir við óeðlilegar verðhækkanir eða grunar að fyrirtæki fari á svið við samkeppnislög.

Fundurinn bendir sérstaklega á þá áminningu Samkeppniseftirlitsins að það sé ekki hlutverk hagsmunasamtaka fyrirtækja að gefa undir fótinn með verðhækkun í einstökum vöruflokkum og afsaka þær fyrirfram, svo sem vegna kórónufaraldursins og afleiðinga hans í flutningum. Það eru ekki sanngjörn eða skynsamleg viðbrögð, heldur ættu fyrirtækjasamtökin þvert á móti að vinna að leiðum sem tryggja lágt og stöðugt vöruverð.

Ályktun um valfrelsi og styðjandi stuðning við bændur 

Neytendasamtökin telja mikilvægt fyrir neytendur að stundaður sé öflugur landbúnaður á Íslandi og vekja athygli á því að neytendur velja gjarna innlenda framleiðslu fram yfir erlenda að öðru jöfnu. Valfrelsi er á hinn bóginn grundvallaratriði.

Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur hafa sýnt að þeim er almennt vel treystandi til að framleiða holl og góð matvæli. Matvælaframleiðendur verða að treysta eigin framleiðslu, og treysta íslenskum neytendum til að velja, en leggja til hliðar hamlandi stuðning tollmúra og neyslustýringar. Tollar og verndarmúrar mynda úr sér gengið kerfi hamlandi aðstoðar við landbúnaðarframleiðsluna, og á því tapa bæði neytendur og bændur. Það þarf að leggja af hið fyrsta og leggja í staðinn áherslu á styðjandi aðstoð, stuðning við nýsköpun og beinan stuðning við bændur.

Ályktun um að bann við njósnaauglýsingum

Aðalfundur Neytendasamtakanna hvetur íslensk stjórnvöld til að tryggja stafræn réttindi neytenda á veraldarvefnum og beita sér á alþjóðavettvangi fyrir banni við netauglýsingum sem byggja á persónusniði og eftirliti með notendum. Nú tröllríða slíkar auglýsingar og annað efni sem byggir á eftirliti með einstaklingum netheimum og veldur neytendum margvíslegum skaða – og stofna í verstu tilfellum lýðræðinu í hættu.

Í grunnstefnu Neytendasamtakanna eru settar fram níu grunnkröfur neytenda. Meðal þeirra er krafan um rétt til stafrænnar neytendaverndar. Í henni felst að jafnt aðgengi allra sé tryggt, að öryggi og heiðarleiki ráði ferð í stafrænum vörum og þjónustu og að neytendur geti gert sér fulla grein fyrir öllum skilmálum. Það er ekki raunin á netinu.

Ályktun um neytendamál og lífskjör

Aðalfundur Neytendasamtakanna hvetur Alþingi og ríkisstjórn Íslands til að gera neytendamálum hátt undir höfði á kjörtímabilinu sem er að hefjast, enda liggja fyrir mörg brýn neytendamál sem varða almenn lífskjör. Meðal annars þarf að:

  • Stórefla neytendavernd með því að eyða óvissu um stjórnskipan neytendamála og eflingu eftirlits á sviði neytendamála.
  • Gera neytendum auðvelt að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota.
  • Skýra lög og heimildir fyrir almannaheillasamtök að efna til hópmálsókna.
  • Stemma stigu við óhóflegum innheimtukostnaði, svo sem með því að setja hámark á innheimtukostnað. Allt eftirlit með innheimtustarfsemi á að vera á einni hendi, óháð sérstökum hagsmunaaðilum.

Aðalfundur Neytendasamtakanna minnir á að við erum öll neytendur og barátta fyrir bættum rétti neytenda er barátta fyrir bættum lífskjörum alls almennings.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.