Fréttir

Arðsemisþak á raforku til heimila

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum sem meðal annars á að tryggja afhendingaröryggi rafmagns til heimila. Neytendasamtökin sendu inn umsögn um frumvarpið þar sem þau fagna því að setja eigi viðmið um fullnægjandi raforkuöryggi, en telja að því verði aldrei náð nema að setja arðsemisþak á raforkusölu til heimila. Samkeppni heimila við stórfyrirtæki um raforkuverð mun leiða til mikillar hækkunar raforkukostnaðar til heimila eins og dæmin hafa sýnt erlendis.

Heimilin nota einungis um 5% þeirrar raforku sem framleidd er hér á landi. Lög um vatnsveitur leggja þær skyldur á sveitarfélög að þau tryggi öllum heimilum sveitarfélagsins kalt vatn og af því megi reikna sér 2% arðsemi. Svipað á við um heitt vatn þar sem arðsemin má vera 7%. Arðsemisþak á flutningi rafmagns er 5%. Hið sama telja Neytendasamtökin eigi að eiga við um um raforku til heimila. Þak ætti að vera á arðsemi rafmagns sem selt er til heimila.

Neytendasamtökin telja að leggja megi þær skyldur á stóra framleiðendur að veita 5% framleiddrar orku sinnar inn á „heimilismarkað“ hvar afar hóflegrar arðsemi er gætt. Telja samtökin fyrirkomulagið til þess fallið að stuðla að þjóðarsátt um þær virkjanir sem nauðsynlegt sé að ráðast í, þar sem líta mætti á framlag til heimilismarkaðarins sem nokkurskonar afgjald fyrir notkun á náttúruauðlindum sem eru í eigu okkar allra.

Stjórn Neytendasamtakanna samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 12. desember 2023:

„Núverandi áform stjórnvalda og háværar kröfur einstakra markaðsaðila um breytingar á lögum um raforku fela í sér verulega hættu á verðhækkunum til heimila. Lög skylda sveitarfélög til að afhenda heimilum landsins vatn á viðráðanlegu verði og með afar hóflegri arðsemi. Hið sama á að gilda um raforku. Ríkið hefur þegar skuldbundið sig til þess, sbr. Evróputilskipun 2009/72/ESB.
Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að þingmenn tryggi að þak verði sett á arðsemi raforku til heimila.“

Ljóst er að gera þarf breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings og smærri fyrirtækja. En jafnframt þarf að verja almenning fyrir hækkunum á raforkuverði sem eru óhjákvæmilegar, verði ekkert að gert.

Fréttir í sama dúr

Neytendur upplýstir um vöruskerðingu- ný lög í Frakklandi

Ósanngjarnar kröfur Isavia vegna Base Parking

Bannað að auglýsa dýr lán

Þetta þarftu að vita um Temu

Tímamótadómur EFTA-dómstólsins

Neytendablaðið komið út

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.