Fréttir

Áskorun til Almennrar innheimtu ehf. – Stöðvið innheimtu á ólöglegum lánum

Neytendasamtökin skora á Almenna innheimtu ehf. að stöðva tafarlaust innheimtu á smálánaskuldum sem byggja á ólögmætum lánum. Fyrir liggur að vextir á smálánum eru margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það eru lántakendur krafðir um endurgreiðslu á ólöglegum vöxtum og ekkert virðist fá stöðvað innheimtufyrirtækið sem hefur tekið að sér að innheimta þessi ólöglegu lán.

Fyrirtækinu virðist fyrirmunað að senda lántakendum skýra sundurliðin á kröfum skipt niður í lánsupphæð, vaxtakostnað og innheimtukostnað þrátt fyrir fjölda beiðna þess efnis. Fyrirtækið gefur sér allt að þrjá mánuði til að veita þessar upplýsingar sem lánveitendur eiga þó skýlausan rétt á. Það vekur furðu að fyrirtækið hafi ekki tiltæka sundurliðun á kröfum sem það telur sér þó fært að innheimta. Þá telja Neytendasamtökin í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vanskilakostnað á kröfur sem byggja á ólögmætum lánveitingum. Slíkt geti ekki verið löglegt.

Neytendasamtökin hafa  undir höndum gögn sem sýna að heildarendurgreiðslur lántakenda eru mun hærri en lög leyfa, jafnvel þó miðað sé við hæstu löglegu vexti. Þrátt fyrir það heldur fyrirtækið áfram innheimtu sinni og hótunum um skráningu á vanskilaskrá Creditinfo. Neytendasamtökin ítreka þau tilmæli sín til lántakenda, sem greitt hafa hærri upphæð til baka en sem nemur lánsupphæð, að fara fram á skýra sundurliðun frá Almennri innheimtu ehf. Neytendasamtökin hafa komið þessu ítrekað á framfæri við Almenna innheimtu, en engin viðbrögð fengið. Samtökin telja að þar sem eigendum, stjórn og starfsmönnum Almennrar innheimtu megi vera ljóst að kröfutilbúningurinn standist ekki lög, séu jafnvel líkur á að bótaábyrgð hafi skapast, ekki síst í þeim tilfellum þar sem lántakendur hafa verið settir á vanskilaskrá að ósekju.

Fréttir í sama dúr

Smálánabaráttan

Framboð til stjórnar og formanns

Nýtt símkerfi

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.