Fréttir

Áttu rétt á bótum? – sæktu þær án kostnaðar

Af gefnu tilefni minna Neytendasamtökin á að í langflestum tilfellum er mjög auðvelt fyrir neytendur að sækja bætur vegna seinkunar eða aflýsingar á flugi. Mörg dæmi eru þó um að neytendur leiti aðstoðar lögmanna til að sækja bætur en þóknun fyrir viðvikið nemur að jafnaði 20-25% af bótaupphæð auk virðisaukaskatts eða alls 31% af þeirri fjárhæð sem greidd er út. Virðist sem fólk átti sig oft ekki á því hversu auðvelt er að sækja slíkar bætur án þess að greiða þóknun fyrir.

Flest flugfélög bjóða upp á mjög einföld form á netinu þar sem farþegi fyllir út nauðsynlegar upplýsingar. Það er síst minni fyrirhöfn fyrir farþega að koma upplýsingunum beint til flugfélags en að koma þeim til fyrirtækis sem síðan tekur þóknun fyrir að koma þessum sömu upplýsingum áfram til flugfélagsins.

Ókeypis aðstoð

Ef neytandi telur sig eiga rétt á bótum ætti því alltaf að byrja á því að gera kröfu á flugfélagið. Oftast ganga samskiptin vel fyrir sig og neytandinn fær úrbætur með lítilli fyrirhöfn. Hér geta farþegar séð hvort og þá hversu miklar bætur þeir eiga rétt á. Hér er hlekkur á kvörtunarsíðu Play og hér á Icelandair

Neytendasamtökin aðstoða sína félagsmenn ef upp koma vandamál og sjá endurgjaldslaust um milligöngu þegar þess er þörf.

Evrópska neytendaaðstoðin (ECC) aðstoðar neytendur þvert yfir landamæri þeim að kostnaðarlausu. Mörg mál sem koma inn á borð ECC eru einmitt vegna flugs og búa lögfræðingar þjónustunnar yfir mikilli reynslu á þessu sviði.

Samgöngustofa tekur við kvörtunum frá flugfarþegum og leysir úr ágreiningi svo sem vegna seinkana í flugi. Það er neytendum að kostnaðarlausu að senda mál til Samgöngustofu. Hér má sjá eyðublaðið sem fylla þarf út og hér má sjá ítarlegar upplýsingar um réttindi farþega.

Farþegar tapa dómsmáli

Nýlega var kveðinn upp dómur í máli sem varðar skaðabætur vegna seinkunar á flugi.

Tveir farþegar lentu í átta klukkutíma seinkun á flugi frá Ítalíu til Íslands í febrúar 2022. Svo virðist sem farþegarnir hafi strax leitað til lögmanns sem býður aðstoð við að sækja bætur gegn fyrrgreindri þóknun. Lögmaðurinn, sem rekur félagið Flugbætur, sendi í kjölfarið kröfu á flugfélagið og fór fram á að bætur yrðu greiddar inn á fjárvörslureikning lögmannsins. Flugfélagið viðurkenndi strax bótaskyldu en fór fram á að farþegarnir fylltu út staðlað eyðublað svo hægt væri að greiða út bæturnar. Flugfélagið taldi óheimilt að greiða bæturnar inn á reikning þriðja aðila nema hafa til þess skýrt umboð frá farþegunum. Þessi krafa var ítrekuð með tölvupósti en flugfélaginu bárust engin gögn og gerðist því ekkert í málinu fyrr en tæpu ári síðar þegar flugfélaginu var stefnt. Við þinghald málsins í janúar 2024 lögðu farþegarnir lokins fram umboð sitt vegna greiðslu á reikning lögmannsins og voru bæturnar þá greiddar ásamt vöxtum. Farþegarnir kröfðust þess að flugfélagið greiddi einnig dráttarvexti vegna þess dráttar sem orðið hafði á málinu. Flugfélagið taldi að því yrði ekki kennt um dráttinn þar sem það hefði frá upphafi kallað eftir úfylltu stöðluðu eyðublaði eða umboði frá farþegunum. Fór flugfélagið fram á að fá málskostnað greiddan þar sem málið hafi verið höfðað að þarflausu.

Dómari féllst ekki á kröfu farþeganna um dráttarvexti og dæmdi þá til að greiða málskostnað að upphæð 350.000 kr. Algengt er að lögmenn/félög sem sækja flugbætur standi straum af öllum kostnaði vegna málssóknar fyrir hönd sinna umbjóðenda. Ef dæmdur er málskostnaður, eins og í þessu máli, fellur hann á umbjóðendur.

Í ljós kom að farþegarnir höfðu ekki hugmynd um málið hefði farið fyrir dóm. Það var því ekki gert að þeirra ósk sem er með miklum ólíkindum. Þetta mál er að mörgu leyti áhugavert en ekki síst fyrir þær sakir að það virðist algerlega tilhæfulaust. Farþegarnir hefðu verið betur settir að sækja kröfuna sjálfir í stað þess að leita aðstoðar lögmanns.

Fréttir í sama dúr

Frumvarpi um samkeppnisundanþágu afurðastöðva mótmælt

Allt uppi á borðum

Grænþvegnir grísir

Tjón vegna samráðs metið á 62 milljarða króna

Einbeittur síbrotavilji CC bílaleigu ehf.

Bílaleiga lykill bílhurð

Mætingarskylda óheimil

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.