Fréttir

Bannað að auglýsa dýr lán

Dönsk stjórnvöld hafa sett strangar reglur um kostnað og markaðssetningu á dýrum neytendalánum. Neytendasamtökin telja brýnt að sama leið verði farin hér á landi og hafa sent stjórnvöldum erindi þess efnis.

Neytendasamtök um alla Evrópu hafa um þessar mundir miklar áhyggjur af þeirri þróun sem miðar að því að fá fólk til að kaupa strax en greiða síðar (e.buy now, pay later). Slík lán eru dýr og geta auðveldlega leitt til vanskila sem hefur svo aukinn kostnað í för með sér.  

Bæði á Íslandi og í Danmörku eru lög sem segja til um hámarkskostnað neytendalána. Í báðum löndum mega lán að hámarki bera árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) sem nemur 35% auk seðlabankavaxta. ÁHK er reikniformúla sem mælir allan kostnað lána (vexti, lántökukostnað og annan kostnað) á ársgrundvelli. Þess má geta að í Finnlandi mega neytendalán ekki bera hærri ÁHK en 20%.

Hömlur á markaðssetningu

Árið 2020 bönnuðu dönsk stjórnvöld markaðssetningu lána með hærri ÁHK en 25%. Auglýsingabannið var ekki síst til höfuðs smálánum en Danir fóru ekki varhluta af þeirri óáran. Fram að banninu höfðu Danir séð mjög mikla aukningu á fjölda neytendalánaauglýsinga í sjónvarpi, útvarpi og ekki síst á samfélagsmiðlum og með beinum samskiptum eins og sms skilaboðum.

Neytendasamtökin telja þessar dönsku reglur um markaðssetningarhömlur til eftirbreytni, enda megi skilgreina dýr neytendalán/smálán líkt og aðrar vörur sem geta haft skaðleg áhrif á líf fólks. Markaðssetning smálána og annarra dýrra neytendalána er þess utan oft mjög aðgangshörð eins og við þekkjum hér á landi. Samtökin skora á stjórnvöld að fara að dæmi Dana og tryggja ríka neytendavernd á lánamarkaði.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.