Fréttir

Dýravelferð – neytendum er ekki sama

RÚV hefur nýverið fjallað um eftirlit Matvælastofnunarinnar þar sem í ljós hefur komið að á mörgum kjúklinga- og svínabúum er reglugerð um velferð dýra brotin og nokkur alvarleg tilvik hafa komið fram í dagsljósið. M.a. kom fram í fréttum í gær að aðbúnaður svína er í sumum tilvikum langt frá því að vera í lagi og talar fulltrúi eftirlitsaðila, Matvælastofnun, um dýraníð í þessu sambandi.

Að mati Neytendasamtakanna er óásættanlegt að ekki komi fram nöfn þeirra framleiðenda sem ástunda þannig búskap. Það er eðlileg krafa neytenda sem eiga rétt á að velja á upplýstan hátt, en einnig eðlilegt gagnvart þeim framleiðendum sem hafa allt sitt á hreinu. Á meðan ekki koma fram upplýsingar um hverjir það eru sem fara ekki að settum reglum liggur öll greinin undir grun. Því krefjast Neytendasamtökin þess að fram komi nöfn þeirra búa þar sem ástundað er dýrníð. Ef ekki er heimilt að veita slíkar upplýsingar vegna gildandi laga þarf að breyta þeim lögum tafarlaust.

Jafnframt gera Neytendasamtökin athugasemd við þau ummæli landbúnaðarráðherra að skoða eigi hvort ekki sé eðlilegt að styrkja þá framleiðendur sem ástunda dýraníð þannig að bú þeirra uppfylli skilyrði laga. Þeim framleiðendum sem fara að settum reglum yrði þannig mismunað með því að þeir myndu ekki fá slíkan styrk. Það er eitthvað mikið að í þessari búgrein ef það þarf að greiða sérstaklega af almannafé bara til að uppfylla lágmarksreglur um dýravelferð.

Loks kalla Neytendasamtökin eftir hörðum viðbrögðum stjórnvalda þegar kemur að framleiðendum sem ástunda dýraníð. Slík brot ber að kæra til lögreglu enda um alvarlegt brot að ræða.

Fréttir í sama dúr

Smálánabaráttan

Framboð til stjórnar og formanns

Nýtt símkerfi

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.