Fréttir

Enn af smálánum

Neytendasamtökin hafa sent erindi á stjórnvöld og krafist þess að böndum verði komið á starfsemi smálánafyrirtækja hið fyrsta. Ítrekað hefur verið staðfest að fyrirtækin brjóta lög um neytendalán og þau úrræði sem fyrir hendi eru virka ekki. Það er með öllu ólíðandi að fyrirtæki sem dæmd hafa verið fyrir lögbrot og sektuð vegna þeirra skuli halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Markaðssetning smálánafyrirtækja er einnig ámælisverð og þá virðist fólk geta sótt um lán í nafni annarra eins og lesa má um hér að neðan.
 

Hæ, langt síðan við höfum heyrt frá þér

Markaðssetning fyrirtækjanna er afar ágeng en þau senda gjarnan ítrekuð smáskilaboð til fólks sem einhvern tíma hefur tekið smálán. Fólk er minnt á að það geti tekið nýtt lán og jafnvel er gengið svo langt að spyrja hvort viðkomandi langi ekki í nýja skó eða aðra flík. Margir falla fyrir slíkum gylliboðum og taka lán í kjölfar slíkra skilaboða.
 

Tók lán án þess að vita af því

Neytendasamtökin hafa fengið á sitt borð mál þar sem maður var beðinn um að millifæra pening á gamlan vin en á einhvern óskiljanlegan hátt endar á að taka smálán. Maðurinn fékk skilaboð seint um nótt þar sem gamall kunningi sagðist vera í vandræðum. Kunninginn segist vera í útlöndum og bíði eftir millifærslu frá kærustunni en vegna einhverra tæknivandamála berist millifærslan ekki. Hann spyr því hvort kærastan megi millifæra 100.000 kr á manninn sem hann síðan millifæri á kunningjann. Maðurinn var heldur tregur til en samþykkti að lokum og gefur upp kennitölu og reikningsnúmer. Smálánið birtist síðan inni á heimabanka einstaklingsins án skýringar í nokkrum færslum og millifærði maðurinn strax  fjárhæðina á kunningjann. Það var síðan daginn eftir sem heimabanki þessa einstaklings fylltist af greiðsluseðlum frá öllum fimm smálánafyrirtækjunum sem starfa hér á landi og honum varð ljóst að þessi gamli kunningi hans hafi tekið smálán í hans nafni og platað hann til þess að millifæra andvirði þess yfir á sig.

Umrætt mál er nú lögreglumál en það er algerlega óásættanlegt að hægt sé að taka smálán í nafni annars aðila og það með einungis kennitölu og reikningsnúmer að vopni. Umræddur einstaklingur samþykkti aldrei skilmála fyrirtækisins og fyrirtækið hafði ekki fyrir því að ganga úr skugga um að réttur einstaklingur væri að taka lánið, t.d. með rafrænum skilríkjum eða annarri aðferð. Vandséð er því að hægt sé að krefjast greiðslu frá þessum aðila, sem raunverulega tók aldrei lán heldur einungis millifærði andvirði þess áfram – grunlaus um svikin sem hann hafði orðið fyrir.

Neytendasamtökin ítreka kröfu sína um að böndum verði komið á þessi fyrirtæki svo fljótt sem auðið er.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.