Fréttir

Eru gjafabréf góð gjöf?

Neytendasamtökin fá gjarnan kvartanir vegna gjafabréfa flugfélaga en gildistími þeirra er yfirleitt afar stuttur. Margar kvartanir hafa borist samtökunum vegna gjafabréfa frá WOW air, en samkvæmt skilmálum þeirra er gildistíminn aðeins eitt ár og það sem meira er; ferðin þarf að hafa verið farin innan þessa árs. Gildistíminn hjá Icelandair er tvö ár, sem Neytendasamtökin telja líka of skamman tíma.

Engin sérstök lög gilda um gildistíma gjafabréfa, en almennur fyrningarfrestur á kröfum er fjögur ár og er ekki óeðlilegt að líta á gjafabréf sem kröfu. Þá er í leiðbeinandi reglum um skilarétt einnig talað um fjögurra ára gildistíma á gjafabréfum. Seljendum ber ekki lagaleg skylda til að fara eftir þessum reglum en erfitt er að sjá rök fyrir því að gera það ekki.

Neytendasamtökin telja að skilmálar WOW air séu allt of takmarkandi og að ófært sé hversu margir neytendur lenda í vanda vegna gjafabréfa sem keypt hafa verið af góðum hug. Samtökin sendu því erindi á WOW air núna í janúar og fóru þess á leit á við fyrirtækið að það breytti skilmálum sínum og lengdi gildistíma gjafabréfa úr einu ári í fjögur ár. Gæti fyrirtækið ekki fallist á það ætti í öllu falli að breyta skilmálum þannig að gildistími gjafabréfa væri ekki bundinn við ferðatímabilið sjálft og hann væri lengri en eitt ár.

WOW air þakkaði fyrir erindið og sagði að öll sjónarmið yrðu skoðuð en að fyrirtækið hefði ekki í hyggju að breyta fyrirkomulagi gjafabréfa og að það teldi ennfremur að skilmálar gjafabréfa WOW air væru að öllu leyti í samræmi við lög og reglur. Nú hefur WOW air hins vegar hætt sölu gjafabréfa og er það skref í rétta átt að neytendur þurfi ekki áfram að tapa fjámunum vegna ósanngjarnra skilmála á gjafabréfum flugfélagsins.

Hyggist WOW air hefja aftur sölu á gjafabréfum vilja Neytendasamtökin hvetja fyrirtækið til að hafa fjögurra ára gildistíma. Icelandair ætti einnig að lengja gildistímann úr tveimur árum í fjögur ár en samtökin hafa líka fengið kvartanir vegna gjafabréfa Icelandair. Á meðan gildistíminn er svona stuttur geta Neytendasamtökin ekki mælt með kaupum á gjafabréfum flugfélaga.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.