Fréttir

Hægagangur Strætó bs.

(Ath. sjá svar Strætó í viðauka)

Eftir ábendingar félagsmanna óskuðu Neytendasamtökin eftir rökum stjórnenda Strætó bs. fyrir skertri þjónustu, en í rúmar 6 vikur hefur einungis verið ekið eftir laugardagsáætlun almenningssamgöngufyrirtækisins og engar tilkynningar verið gefnar út um að því verði breytt, þrátt fyrir tilslakanir á samgöngubanni sem gegnu í gildi nýverið.

Jafnframt óskuðu samtökin eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig Strætó muni koma til móts við notendur sína vegna skertrar þjónustu, til dæmis í formi afsláttar, endurgreiðslu  eða framlengingar á tímabilskortum.

Engin svör hafa enn borist. Þar til viðhlítandi rök berast er einungis hægt að draga þá ályktun að aðgerðin sé gerð í hagræðingaskyni og farsóttarvarnir sé notuð sem skálkaskjól. Eins og stjórn samtakanna ályktaði 2.apríl sl. kemur hin skerta þjónusta Strætó „hart niður á notendum, meðal annars þeim sem vinna samfélagslega mikilvæg störf og nýta sér almenningssamgöngur í og úr vinnu. Mætti leiða að því rökum að með fækkun ferða ferðist fleiri með hverjum vagni með aukinni smithættu, þvert á rök Strætó um aðgerðir vegna Covid-19.“

Meðfylgjandi mynd tók félagsmaður um fjögurleytið í vikunni og ljóst að hér er undanþága Strætó vegna tveggja metra reglunnar notuð til hins ýtrasta. Félagsmaðurinn taldi a.m.k. 33 farþega, en Strætó er einungis heimilt að ferðast með 30 manns. Vandinn kristallast í því að skortur er á vögnum þar sem mun færri mega ferðast með hverjum og einum þeirra en áður.

Viðauki:
Þann 13. maí barst Neytendasamtökunum eftirfarandi svar frá Strætó:

Efni: Breyting á þjónustu Strætó

Þann 4. maí síðastliðinn barst erindi til Strætó með álytkun stjórnar Neytendasamtakanna frá fundi 2. apríl 2020, þar sem óskað var eftir rökum fyrir skertri þjónustu Strætó frá 30. mars síðastliðinni eða í ríflega 4 vikur.

Þann 16. mars 2020 tóku í gildi samkomu- og fjarlægðartakmarkanir heilbrigðisyfirvalda þar sem að hámarki 20 einstaklingar máttu koma saman og að halda skyldi að lágmarki tveggja metra bili milli manna. Strætó ákvað í framhaldinu að halda óskertri þjónustu áfram en taka stöðuna reglulega með tilliti til þess hve mikil eftirspurn yrði eftir þjónustunni. Ekið var samkvæmt óbreyttri tíðni til 30. mars. Þá var tekin ákvörðun um að minnka þjónustuna í ljósi þess að eftirspurnin hafði minnkað um rúmlega 65% frá upphafi samkomubanns þann 16. mars. Áætlun Strætó var því stillt af miðað við þá eftirspurn og var akstur minnkaður um tæp 40% frá 30. mars.

Fjöldi farþega hefur frá 16. mars nánast haldist sá sami samkvæmt farþegatalningum Strætó og virtist minni akstur ekki hafa þar nein áhrif á. Það var því ljós að fækkun farþega væri komin til að vera miðað við þær takmarkanir sem tóku gildi þann 16. mars. Fylgst var grannt með farþegafjölda og voru aukavagnar hafðir til taks ef farþegafjöldi færi umfram viðmið heilbrigðisyfirvalda. Á tímabili voru um 7 aukavagnar settir á stærstu leiðir og brottfarir. Það þótti ekki réttlætanlegt að keyra tóma vagna sem engin eftirspurn væri eftir og því var framboðið aðlagað að eftirspurninni.

Reglulega er fylgst með fjölda farþega í vögnum Strætó sem og tilslökun þeirra takmarkanna sem heilbrigðisyfirvöld hafa viðhaft. Aukið var við akstur þann 4. maí, þegar ljóst var að ákveðin tilslökun takmarkanna tók gildi. Síðustu daga hefur eftirspurn eftir þjónustu Strætó aukist talsvert á ný og hefur nú verið tekin sú ákvörðun að þann 18. maí næstkomandi færist akstur Strætó í fyrra horf samkvæmt sumaráætlun.

Virðingarfyllst,
Jóhannes  Rúnarsson
Framkvæmdastjóri Strætó.

Fréttir í sama dúr

Ósanngjarnar kröfur Isavia vegna Base Parking

Arðsemisþak á raforku til heimila

Bannað að auglýsa dýr lán

Þetta þarftu að vita um Temu

Tímamótadómur EFTA-dómstólsins

Neytendablaðið komið út

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.