Fréttir

Neytendasamtökin stefna innheimtufyrirtæki

Samtökin hafa margoft bent á úrræðaskort neytenda og galskapinn í fyrirkomulagi innheimtueftirlits sem kristallast í málinu sem nú hefur verið tekið fyrir dóm.

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna. Því fleiri félagar, þeim mun öflugri samtök.
Gerast félagi

Þann 25. janúar var í Héraðsdómi Reykjavíkur tekið fyrir mál Neytendasamtakanna nr. E-1999/2021 gegn Almennri innheimtu ehf., Gísla Kristbirni Björnssyni eiganda Almennrar innheimtu og Verði tryggingum hf., tryggingarfélags Gísla.

Að mati samtakanna er hér um að ræða mikilvægt prófmál sem varpar ljósi á vafasama innheimtuhætti, en samtökin telja að Almennri innheimtu hafi mátt vera ljóst að stór hluti smálánakrafna brytu í bága í lög. Innheimta á þessum kröfum geti þar með ekki verið í samræmi við góða innheimtuhætti enda innheimtan gegn betri vitund.

Neytendasamtökin telja að Almennri innheimtu hafi borið að sannreyna lögmæti krafnanna, sem er í takt við nýlegan úrskurð Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í máli innheimtu BPO á samskonar kröfum.

Mál þetta, sem og smálánabaráttan öll, varpar einnig mikilvægu ljósi á eftirlitsskort og úrræðaleysi neytenda, sem ekki eiga í viðskiptasambandi við innheimtuaðila, en er samt gert að greiða þeim á tíðum háar þóknanir.

Neytendasamtökin hafa oftsinnis bent á eftirlitsskortinn, en ólíkt annarri innheimtustarfsemi á Lögmannafélag Íslands að sinna eftirliti með innheimtustarfsemi lögmanna og lögmannsstofa. Að mati samtakanna eru verulegar brotalamir í því fyrirkomulagi, fyrir utan galskapinn í því að félagasamtök eigi að hafa eftirlit með félögum sínum. Meðal annars, virðist sem Almenn innheimta hafi látið hjá líða að tryggja starfsemi sína eins og lög gera ráð fyrir, og Lögmannafélagið ekkert aðhafst. Þá hefur Lögmannafélagið látið innheimtuaðferðirnar óátaldar til fjölda ára, en það tók Fjármálaeftirlitið „einungis“ átta mánuði að úrskurða að BPO hefði brotið lög við innheimtu samskonar krafna.

Þá snýr málið að hróplegum úrræðaskorti neytenda í málum er varða innheimtuaðferðir innheimtuaðila í eigu lögmanna og lögmannsstofa. Úrræði Lögmannafélagsins eru lítil sem engin en neytendum er bent á úrskurðanefnd lögmanna sem hefur reynst skjólstæðingum Neytendasamtakanna tímafrekt, gagnslaust og í raun afar íþyngjandi úrræði. Benda samtökin á nýlegt dæmi þar sem kvartanda var stefnt fyrir dóm og gert að taka til varna og svara fyrir ákvarðanir úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins.

Neytendasamtökin ráða öllum frá því að leita til fyrir úrskurðarnefnd Lögmannafélagsins, komi upp ágreiningur við lögmann um innheimtukostnað. Þá hafa samtökin lengi barist fyrir því að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með allri innheimtustarfsemi og hafa meðal annars sent dómsmálaráðherra ítrekuð erindi þess efnis.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.