Umræðan um skaðleg efni í neysluvörum hefur ekki verið mjög hávær á Íslandi en það er að breytast. Una Emilsdóttir læknir stundar sérnám í umhverfislæknisfræði í Danmörku. Þar er áherslan á eiturefni í nærumhverfinu, matvælum, snyrtivörum o.fl., enda geta slík efni haft veruleg áhrif á heilsu fólks. Una hefur rætt þessi mál víða enda hefur hún það meginmarkmið að upplýsa neytendur um skaðleg efni og tengingu þeirra við langvinna sjúkdóma.
Aðspurð segir Una ekki alveg ljóst hvers vegna hún beindist inn á þessa braut en hún hafi alltaf haft áhuga á öllu sem tengist heilsu og langlífi. Una segir röð tilviljana hafa lagt nokkra „brauðmola“ á slóð hennar. „Þar má nefna morgunerindi sem ég heyrði á barnadeild eitt sinn þar sem innkirtlasérfræðingur fór yfir hugsanlegar orsakir aukinnar tíðni fæðingargalla í kynfærum drengja. Orsökin var meðal annars talin vera sú að drengbörn verða í auknum mæli fyrir hormónaraskandi áhrifum í gegnum neyslu og snyrtivörunotkun mæðra sinna á meðgöngu. Þarna kviknaði á einhverri peru hjá mér – ég vildi vita allt um fósturskaðleg efni og mér fannst að allar konur í heiminum þyrftu að fá þessar upplýsingar með einhverjum hætti.“
Nú hafa rannsóknir staðfest að fólk sem vinnur með skaðleg efni er í aukinni áhættu gagnvart ýmsum sjúkdómum. Hvers vegna ætli þessi mál séu ekki tekin fastari tökum? Una segir ástæðurnar geta verið margar. „Fyrst eru það efnahagslegir hagsmunir þeirra sem framleiða og nota þessi efni. Þetta eru oft öflugar og vel tengdar atvinnugreinar sem hafa hagsmuni af því að gera lítið úr hættunni.“ Önnur skýring gæti verið skortur á almennri vitundarvakningu. Margir séu einfaldlega ekki meðvitaðir um hættuna sem stafar af skaðlegum efnum, eða trúa því að áhættan sé ýkt. „Þar að auki getur raunveruleg áhætta verið flókin og illskiljanleg, líka fyrir fagfólk og vísindamenn. Það getur tekið ár eða jafnvel áratugi þar til áhrif efnanna koma í ljós. Það er því erfitt að sanna að tiltekið efni sé ábyrgt fyrir tilteknu heilsufarsvandamáli og því ólíklegra að stjórnvöld og fyrirtæki grípi til aðgerða.“ Í þriðja lagi segir Una að það skorti pólitískan vilja. Stjórnvöld séu einfaldlega treg til að grípa til aðgerða sem gætu á einhvern hátt haft neikvæð áhrif á hagkerfið.
Þrátt fyrir þessar áskoranir segist Una sjá aukinn áhuga og vilja til að takast á við vandamálið. Meðvitund almennings eykst og stjórnvöld eru farin að grípa til aðgerða og mörg dæmi eru um að skaðleg efni séu bönnuð eða notkun þeirra takmörkuð. Hins vegar er enn mikið verk óunnið. Sem dæmi leyfa mörg lönd enn ákveðin skaðleg efni í neysluvörum þótt öruggari kostir séu í boði. Una hvetur neytendur, og ekki síst þungaðar konur, að huga að þessum málum. „Því hreinna umhverfi og mataræði, því betra og best er að velja lítið unnin mat. Hvað snyrtivörur varðar þá gildir að minna er meira.“ Una bendir á að smáforrit eins og ThinkDirty og Kemiluppen geti gagnast vel. Þá er Una á sama máli og Alden Wicker um að fataiðnaðurinn innihaldi skuggalega mikið af skaðlegum efnum og rétt sé að forðast bæði gerviefni og hraðtískuföt.
En er almennt viðurkennt að rekja megi aukna tíðni ýmissa sjúkdóma eins og krabbameins og sjálfsónæmissjúkdóma til skaðlegra efna í umhverfinu? „Þeir læknar og vísindamenn sem eru sérhæfðir í þessu og skoða þessi mál sérstaklega telja það, já – að minnsta kosti sem mikilvægur meðvirkandi þáttur í aukningu á tíðni ýmissa sjúkdóma.“ Una segir marga þætti og samspil þeirra hafa áhrif á heilsu fólks, svo sem erfðir, umhverfisáhrif, aukaverkun lyfja, mataræði, svefn, lífsstíl/hreyfingarleysi, skort á útiveru og fleira. „Það er afar flókið að rekja sjúkdóma að einhverri einni rót – púslin eru mörg – en skaðleg umhverfisáhrif fjölda efna í umhverfi okkar, sem byrja að hafa áhrif á okkur strax í móðurkviði, eru eitt RISA púsluspil í þeirri mynd,“ segir Una að lokum.
Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.
Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.