Avókadó vinsælt sem aldrei fyrr

Avókadó er vinsæl fæða en ræktunin hefur sínar skuggahliðar.

Avókadó þykir bæði hollt og gott enda eykst neyslan á heimsvísu með ári hverju. Í Danmörku hefur avókadóneyslan tvöfaldast á síðustu 10 árum og má ætla að þróunin sé svipuð hér á landi. Árið 2017 var heimsframleiðsla á avókadó rétt um 6 milljónir tonna og Mexíkó langstærsti framleiðandinn. Mikil avókadóræktun er einnig í löndum Suður-Ameríku og reyndar víða um heim. Einnig er töluverð ræktun á Spáni, sem er stærsti avókadóframleiðandi í Evrópu. Kína og Kenýa hafa gert með sér viðskiptasamning sem felur það m.a. í sér að töluverður hluti avókadóframleiðslu Kenýa fer á Kínamarkað.

 

Avókadó er ekki síst vinsælt vegnu hollustunnar. Það inniheldur holla fitu, trefjar og margvísleg vítamín og steinefni. Vinsældir lágkolvetnamataræðis eiga eflaust sinn þátt í auknum vinsældum.

Vatnsfrek ræktun

Aukin ásókn í avókadó hefur sínar skuggahliðar. Það þarf óhemju magn af vatni til að rækta avókadó eða 70 lítra fyrir hvern ávöxt. Til samanburðar þarf 22 lítra til að framleiða eina appelsínu og fimm lítra til að framleiða einn tómat. Vissulega eru hitaeiningarnar í einu avókadó miklu fleiri en í tómat eða appelsínu en þessi mikla vatnsþörf setur mikið álag á vistkerfi þar sem skortur er á vatni. Á síðasta ári bárust fréttir af ófremdarástandi vegna avókadóræktunar í Petorca-héraðinu, sem er eitt stærsta avókadóræktunarsvæði Chile. Þar höfðu ræktendur lagt ólöglegar vatnsleiðslur úr vötnum og ám til að vökva avókadóakrana. Þetta hefur haft í för með sér þurrka og neyðast íbúar í Petorca til að nota mengað vatn sem er flutt til þeirra í tankbíl. Árið 2011 birtu yfirvöld í Chile skýrslu sem byggði á gervitunglamyndum sem sýndu fjölmargar ólöglegar áveitur sem nýttar voru til að vökva ræktunarland í einkaeigu. Í framhaldinu voru nokkur stórfyrirtæki dæmd sek um lögbrot.

Kaupa stuðning samfélagsins

Íbúar sem berjast gegn yfirgangi fyrirtækjanna sem eiga avókadóræktina og mótmæla ástandinu hafa orðið fyrir hótunum og áreiti. Í viðtali við breska blaðið The Guardian sagðist aðgerðarsinninn Rodrigo Mundaca ekki vilja flytja burt en ástandið væri óþolandi. Ekki sé hættulaust að drekka aðflutt vatn þótt það eigi að heita hreinsað og því þurfi íbúar að sjóða vatnið og kaupa vatn á flöskum. Rodrigo segir sum fyrirtækin kaupa stuðning samfélagsins með því að byggja kirkjur, félagsmiðstöðvar og fótboltavelli. Þegar fólk kvartar undan vatnsskorti hóta fyrirtækin að draga úr stuðningi og þá þagnar fólk aftur. Veronica Vilches vinnur hjá vatnsveitu í Petorca og hún er allt annað en sátt við ástandið. Íbúana skorti vatn á meðan tryggt sé að avókadótrén skorti aldrei vatn. Þurrkurinn ógni heilsu fólks og það þurfi að velja og hafna í hvað það noti vatnið á meðan fyrirtækin sem eiga ræktunina græði á tá og fingri.

Þarf að ráðast að rót vandans

Eftir að fréttir af aðstæðum í Petorca birtust í fjölmiðlum fundu seljendur fyrir auknum þrýstingi frá neytendum sem vilja geta keypt sín avókadó með góðri samvisku. Seljendur brugðust við með því að lofa að skoða málið og gera frekari kröfur á sína birgja. Einhverjir notuðu tækifærið og bentu á að fólk sem skipti yfir í grænmetisfæði af umhverfisástæðum væri kannski að gera illt verra. Í breska blaðinu the Independent benti pistlahöfundurinn Amy Booth á að það væri fulleinfalt að kenna neytendum – sérstaklega ungu fólki sem er umhugað um vistspor sitt – um ástandið í Petorca. Þótt það þurfi mikið vatn við framleiðslu á avókadó kemst það þó ekki í hálfkvisti við það vatnsmagn sem þarf í nautakjötsframleiðslu. Neytendum berast í sífellu fréttir um vatnsskort vegna ræktunar á hinum og þessum mat, hvort sem það er aspasrækt í Perú eða sykurreyrræktun á Indlandi. Þótt það geti haft tímabundin jákvæð áhrif að sniðganga einstaka tegundir sé mikilvægt að missa ekki sjónar á undirliggjandi vanda og hann sé ekki neytendum að kenna. Í tilfelli Petorca verður vandamálið fyrst og fremst leyst með því að stjórnvöld í Chile verndi vatnsréttindi íbúa landsins, að ræktendur virði lög og að verslunarkeðjur fylgist með birgjum sínum. Amy Booth vill meina að sniðganga sé ekki endilega besta vopnið því þá gerðu neytendur lítið annað en að elta nýjustu fréttir án þess að ráðist sé að rót vandans.

Viðskiptabann og glæpahringir

Mexíkó ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að avókadórækt. Langmest er ræktað í Michoacán-ríki þar sem aðstæður eru það hagstæðar að avókadótrén vaxa án nokkurrar fyrirhafnar. Þar hafa glæpahringir hins vegar náð að hasla sér völl enda eftir miklu að slægjast. Mest af avókadóuppskerunni frá Michoacán er selt til Bandaríkjanna þar sem avókadóneyslan hefur vaxið mjög hratt. Reyndar er nærri helmingur innflutts grænmetis í Bandaríkjunum frá Mexíkó og um 40% af innfluttum ávöxtum. Það varð því uppi fótur og fit árið 2019 þegar Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseti gaf það út (með tísti) að hann myndi loka fyrir allan innflutning frá Mexíkó ef þarlend yfirvöld stöðvuðu ekki för fólks yfir landamærin. Verð á avókadó rauk upp við þessar fréttir enda talið að avókadóbirgðir í landinu myndu ekki endast nema í 3 vikur ef innflutningur yrði alfarið stöðvaður. Ekkert hefur þó orðið af þessum viðskiptaþvingunum og geta neytendur því andað léttar í bili.

Unnið upp úr grein í Neytendablaðinu  2. tbl. 2019

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.
Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.