Réttarstaða

Þegar um er að ræða pakkaferð að þá gilda lög nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Ríkari réttur þeirra sem kaupa pakkaferð.

Þegar um er að ræða pakkaferð að þá gilda lög nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Alferð/Pakkaferð er samsettur pakki sem inniheldur alla vega tvö atriði af eftirtöldu: flutningi, gistingu eða annarri þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar. Þá er það skilgreiningaratriði að þjónustan taki til alla vega 24 klukkustunda eða að í henni felist gisting. Dæmigerðar sólarlandaferðir sem keyptar eru í einum pakka (iðulega flug og gisting og jafnvel hálft eða fullt fæði) teljast því t.a.m. vera alferðir. Um alferðir gilda sérstök lög sem Neytendastofa hefur eftirlit með. Alferðalögin byggja á sérstakri Evróputilskipun um pakkaferðir, sem var sett í þeim tilgangi að samræma reglur aðildarríkjanna um pakkaferðir, og má því ætla að réttindi neytenda við kaup á alferð séu sambærileg í öllum aðildarríkjum EES. Alferðalögin kveða m.a. á um ýmis vanefndaúrræði neytenda ef ferðin er ekki eins og um var samið en gott er að hafa í huga að hafi neytendur eitthvað við framkvæmd alferðar að athuga er ákaflega mikilvægt að kvarta strax við fararstjóra eða ferðasala.

Hér að neðan má nálgast upplýsingar um helstu réttindi sem ferðalangar kunna að eiga.

Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að ferðamaður geti afpantað pakkaferð áður en hún hefst gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar. Heimilt er að tilgreina sanngjarna þóknun fyrir afpöntun ferðar sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.

Með öðrum orðum þá geta ferðamenn afpantað ferðir fyrir upphaf pakkaferðar en greiðsla fyrir slíka afpöntun fer eftir skilmálum pakkaferðasamnings.

Í 3. mgr. sömu greinar kemur þó fram að ekki sé heimilt að taka slíka þóknun ef afpöntun er vegna “óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar.

 15. gr. Afpöntun pakkaferðar.
 Ferðamaður getur afpantað pakkaferð áður en ferðin hefst gegn greiðslu sanngjarnrar þóknunar. Í samningi um pakkaferð er heimilt að tilgreina sanngjarna þóknun fyrir afpöntun ferðar sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.
 Sé ekki kveðið á um staðlaða þóknun vegna afpöntunar í samningi um pakkaferð skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.
 Skipuleggjandi eða smásali á ekki rétt á greiðslu þóknunar af hendi ferðamanns ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar, eða verðhækkunar umfram 8%, sbr. 12. gr.
 Ferðamaður á ekki rétt til frekari skaðabóta við aðstæður skv. 3. mgr.
 Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða ferðamanni greiðslur sem honum ber skv. 1.–3. mgr. innan 14 daga frá afpöntun.

Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að pakkaferðarlögum kemur fram í tengslum við 3. mgr. að “ Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geta t.d. verið stríðsástand, útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma, hryðjuverk, pólitískur óstöðugleiki eða aðrar aðstæður sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða.“

Í tengslum við COVID-19 og hvenær aðstæður teljist hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar þá hefur Neytendastofa komið með þrjár ákvarðanir (nr. 6/20207/2020 og 8/2020) þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að aðstæður hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar í eftirfarandi tilvikum:

  • Útgöngubann er á áfangastað.
  • Ferðamenn þurfa að sæta tveggja vikna sóttkví við heimkomu.
  • Áfangastaður er á lista heilbrigðistyfirvalda yfir skilgreind áhættusvæði.

Ef ferðamaður verður var við vanefnd á þjónustu samkvæmt pakkaferð þá ber honum að tilkynna það til ferðaskrifstofunnar án tafar. Ferðaskrifstofan hefur þá færi innan hæfilegs frests til að ráða bót á vanefndinni.

Ef ekki er hægt að ráða bót á vanefndinni, eða þá aðeins með þjónustu sem er lakari að gæðum en tilgreint var í pakkaferðarsamningnum, þá á ferðmaður rétt á afslætti sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem var veitt.

 18. gr. Tilkynning um vanefndir og úrbótaskylda skipuleggjanda.
 Ferðamaður skal tilkynna skipuleggjanda eða smásala án tafar um hverja þá vanefnd er hann verður var við á framkvæmd ferðatengdrar þjónustu sem innifalin er í samningi um pakkaferð.
 Ferðamaður skal veita skipuleggjanda eða smásala hæfilegan frest til að ráða bót á vanefndum sem eru á framkvæmd samnings um pakkaferð, nema það sé ekki hægt eða feli í sér óhóflegan kostnað með tilliti til vanefndarinnar og virðis þeirrar ferðatengdu þjónustu sem um ræðir.
 Ef ekki er hægt að ráða bót á vanefndum nema með þjónustu sem er lakari að gæðum en tilgreint er í samningi um pakkaferð á ferðamaður rétt á afslætti sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem veitt var, sbr. 21. gr.
 Ef skipuleggjandi eða smásali ræður ekki bót á vanefndum innan hæfilegs frests eða neitar að ráða bót á vanefndum getur ferðamaður sjálfur ráðið bót á þeim og krafið skipuleggjanda eða smásala um endurgreiðslu nauðsynlegs kostnaðar vegna þess.
 Ferðamaður getur ekki hafnað úrbótum skipuleggjanda eða smásala nema þær séu lakari að gæðum en það sem um var samið eða ef afsláttur skv. 3. mgr. er ófullnægjandi.

 21. gr. Afsláttur.
 Ferðamaður á rétt á afslætti af verði pakkaferðar fyrir það tímabil sem vanefndir á samningi um pakkaferð eru til staðar nema skipuleggjandi eða smásali geti sýnt fram á að vanefndirnar séu sök ferðamanns.

Ef pakkaferð stenst þannig ekki saming að þá á ferðamaðurinn að kvarta strax (helst skriflega) og veita ferðaskrifstofunni færi á að bæta úr. Ef það ekki er hægt að bæta úr annmörkum að þá getur ferðamaðurinn farið fram á afslátt.

Ef verulegur hluti pakkaferðarsamningsins er ekki veittur eða er verulega ófullnægjandi getur ferðamaður rift samningi um pakkaferð og, eftir því sem við á, krafist afsláttar og skaðabóta. Þannig þarf vanefndin að vera veruleg þannig að hægt sé að beita þessu úrræði. Smávægilegar athugasemdir myndu þannig almennt ekki teljast nægjanlegar til að rifta samningi.

 20. gr. Riftun samnings um pakkaferð.
 Ef verulegur hluti þeirrar ferðatengdu þjónustu, sem samningur um pakkaferð kveður á um, er ekki veittur eða er verulega ófullnægjandi, getur ferðamaður rift samningi um pakkaferð og, eftir því sem við á, krafist afsláttar og skaðabóta, sbr. 21. og 22. gr.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.
Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.