Grænt flug – hvít lygi

Kallað eftir rannsókn á grænþvotti flugfélaga. Ekkert til sem heitir sjálfbært flug.

Grænþvottur fyrirtækja fer vaxandi í takt við aukinn áhuga fólks á loftslagsmálum og eru flugfélög þar engin undantekning. Samkvæmt nýrri rannsókn Evrópusambandsins á viðhorfi og þekkingu neytenda telja 77% aðspurðra að þeim beri persónulega að grípa til aðgerða til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Það er því eftir miklu að slægjast fyrir seljendur sem fara stundum hinar ótrúlegustu leiðir til að villa um fyrir neytendum og stilla sér upp sem umhverfisvænum valkosti.

Talað er um grænþvott þegar settar eru fram rangar eða villandi staðhæfingar fyrirtækja eða annarra til að telja neytendum trú um að vara eða þjónusta sé umhverfisvæn.

Flugfélög hafa ekki marga möguleika til að minnka kolefnislosun sína þar sem þau reiða sig nær alfarið á jarðefnaeldsneyti. Í framtíðinni mun sjálfbært flugeldsneyti og rafmagn verða nýtt í meira mæli til að knýja flugvélar, en slík framþróun mun taka mörg ár ef ekki áratugi. Sem dæmi er áætlað að hlutfall sjálfbærs flugeldsneytis verði orðið 50% árið 2045. Spár gera ráð fyrir að flugumferð um heiminn haldi áfram að aukast þannig að þrátt fyrir umhverfisvænni tækni er gert ráð fyrir að árið 2050 losi fluggeirinn þrisvar sinum meira af gróðurhúsalofttegundum en hann gerir í dag. Allt tal um sjálfbærni í flugrekstri er því mjög vafasamt.

Kolefnisjöfnun snúið mál

Flugfélög, líkt og mörg önnur fyrirtæki, nýta svokallaða kolefnisjöfnun (e. carbon offsetting) til að vega upp á móti losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar. Það er til dæmis gert með trjárækt eða öðrum aðgerðum sem binda kolefni. Þessi fræði eru þó alls ekki mjög nákvæm og oft farið frjálslega með staðreyndir. Sem dæmi er farþegum gjarnan boðið að „kolefnisjafna“ flug með kaupum á trjáplöntu en bindingin á sér ekki stað fyrr en tréð er fullvaxta, sem getur tekur fleiri áratugi.

Í skýrslu sem Evrópusamtök neytenda létu vinna kemur fram að fullyrðingar um kolefnisjöfnun séu oft rangar. Því sé stundum haldið fram að umhverfisávinningur af kolefnisjöfnun flugs (offset credits) vegi alfarið upp á móti skaðlegum loftslagsáhrifum flugsins. Það hljóti að vera seljandans að sanna hvort svo sé í raun, þ.e. hvort kolefnislosunin standist vísindalega athugun. Eina raunhæfa leiðin í dag til að minnka losun frá flugi er að fljúga minna.

Ef málið væri svo einfalt að hver farþegi gæti einfaldlega borgað sig út úr losuninni með trjárækt eða öðrum sambærilegum verkefnum væri hægt að hækka fargjaldið sem því nemur og losun vegna flugs heyrði sögunni til.
Fölsk græn hugarró

Grænar fullyrðingar 17 flugfélaga í Evrópu voru skoðaðar og mátti t.d. sjá staðhæfingar um að „grænt fargjald“ stuðli að 20% minni losun. Var þar vísað til notkunar á sjálfbæru flugeldsneyti. Ekki er þó talið að sjálfbært eldsneyti verði tilbúið á markað svo neinu nemur fyrr en árið 2030. Einnig var því haldið fram að með því að greiða hærra verð núna væru farþegar að hjálpa flugfélaginu að verða kolefnishlutlaust árið 2050, sem verður að teljast mjög langsótt. Hjá Evrópusamtökum neytenda eru skilaboðin skýr: Flugumferð veldur umtalsverðri losun góðurhúsalofttegunda og allt tal um kolefnishlutleysi er villandi. Yfirvöld verða að koma í veg fyrir að flugfélög stundi grænþvott og veiti neytendum falska hugarró.

Strangari reglur í bígerð

Það eru ekki bara flugfélög sem freistast til að fegra ímynd sína. Svo rammt kveður að grænþvotti að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram áform um sérstaka lagasetningu gegn grænþvotti. Markmiðið er ekki síst að stöðva athæfi sem grefur undan loftslagsstefnu sambandsins.

Tillögur Framkvæmdaráðsins ganga meðal annars út á:

  • Áður en fyrirtæki setja fram grænar fullyrðingar þurfa þau að rökstyðja þær með vísindalegum gögnum.
  • Stjórnvöld í hverju landi bera ábyrgð á því að reglunum sé fylgt og fyrirtæki sem verða staðin að verki geta átt von á sektum og öðrum viðurlögum.
  • Herða á reglur um umhverfismerki en í dag má finna um 230 mismunandi umhverfismerki innan Evrópusambandsins.

 

Rannsókn sem Framkvæmdaráð Evrópusambandsins lét gera árið 2020 sýndi að 53% allra grænna fullyrðinga voru óljósar og villandi. Í tæplega helmingi tilfella voru fullyrðingarnar órökstuddar, þ.e. fyrirtæki gátu ekki sýnt fram á gögn til að sanna mál sitt.

Frökkum nóg boðið

Í Frakklandi er grænþvottur tekinn sérlega alvarlega. Þar í landi verður, frá árinu 2028, bannað að auglýsa nýja bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fari koldíoxíðlosun yfir ákveðið mark. Framleiðendur munu einnig þurfa að opinbera þau gögn sem liggja til grundvallar umhverfisfullyrðingunum. Herða á viðurlög og meðal annars eru áform um að sekt fyrirtækja sem stunda grænþvott geti numið allt að 80% af kostnaði við auglýsingaherferð/markaðssetningu. Þá verða hin seku fyrirtæki að auglýsa sektina og leiðrétta allar misvísandi fullyrðingar.

Þótt Evrópusambandið boði nú hertar aðgerðir er grænþvottur langt í frá löglegur í dag. Fyrirtæki verða alltaf að geta staðið við fullyrðingar sínar hvaða nöfnum sem þær nefnast. Því miður virðist mikill misbrestur á því og þurfa neytendur því að vera gagnrýnir á grænan fagurgala.

Neytendablaðið haust 2023

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.
Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.