Hátísku hent á haugana

Þegar upp komst að tískufyrirtæki brenndu óseldan varning, í stað þess að selja hann, brá mörgum í brún.

Það olli reiði og hneykslan þegar fréttir bárust af því árið 2019 að tískufyrirtækið Burberry hefði brennt óseldar vörur; fatnað, ilmvatnsglös og aukahluti, að andvirði 4 milljarða króna. Umræðan um neikvæð áhrif neyslu á umhverfið hefur aukist mikið á allra síðustu árum og er textíl- og fataframleiðsla þar ekki undanskilin. Sóun af þessu tagi er því illskiljanleg. En hvað veldur?

Eitt af því sem gerir merkjavörur eftirsóttar er hátt verð. Offramleiðsla á dýrum merkjavörum skapar því vanda. Til að halda verðinu uppi eru ónotaðar vörur brenndar, eða þeim fargað, áður en þær flæða út á markaðinn. Burberry viðurkenndi að hafa brennt hluta framleiðslunnar, í stað þess að selja á afslætti, til að vernda vörumerkið. En Burberry er langt í frá eina fyrirtækið sem hefur gerst sekt um slíkt. Þeir sem best þekkja til segja að förgun á offramleiðslu sé viðtekin venja og aðeins hafi verið tímaspursmál hvenær þessir starfshættir kæmu upp á yfirborðið. Leyndarhjúpurinn sem virðist einkenna tískuvöruframleiðslu kemur hins vegar í veg fyrir að hægt sé að meta stærð vandans.

Eftir að 1.100 manns létust í verksmiðju í Bangladesh árið 2013 jókst þrýstingur á vestræn tískufyrirtæki að auka gagnsæi í framleiðslukeðjunni. Mörg fyrirtæki hafa því birt skýrslur árlega þar sem farið er yfir réttindi starfsmanna og umhverfismál. Það var einmitt í slíkri skýrslu sem Burberry upplýsti um förgunina sem varð í framhaldinu fréttaefni. Fyrirtækið er þó meðal þeirra sem veita hvað bestar upplýsingar um framleiðsluhætti.

Listi yfir fyrirtæki sem farga ekki fötum

Dönsku neytendasamtökin Tænk hafa sent fyrirspurn á 85 fyrirtæki sem selja fatnað í Danmörku  og krafist svars við því hvort þeir fargi óseldum fötum, en jafnframt kallað eftir loforði um að slíkt verði ekki gert. Langflest fyrirtækin sögðust ekki farga fötum en þó ekki öll. Hér má sjá listann.

Talið er að fataframleiðsla hafi tvöfaldast á síðustu 15 árum og að hver flík sé notuð minna og henni hent fyrr en nokkru sinni áður. Förgun á óseldum lager er því aðeins hluti vandans. Þessi mikla fataneysla er meðal annars afleiðing þess hversu mikið fer á útsölu af tiltölulega nýjum fötum. Gríðarlegt magn af fötum fer því í nytjabúðir og í endurvinnslu en eftirspurn eftir notuðum fötum fer mjög minnkandi og gæði efnanna eru oft það lítil að endurvinnsla er erfið. Fataframleiðslan á heimsvísu telur nú meiri en 100 milljarða flíkur á ári. Talið er að aðeins um 1% af textíl sé endurunnið, þ.e. nýtt í ný föt. Það er því með þetta eins og annað. Minni neysla og betri nýting eru einkunnarorðin.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.
Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.