Í heyranda hljóði

Er farsíminn að hlera þig? það er harla ólíklegt að mati sérfræðinga.

Það kannast líklega flestir við að hafa verið að tala í símann um eitthvert ákveðið málefni – tökum sem dæmi íþróttaskó – og stuttu seinna dúkkar upp auglýsing á Facebook um íþróttaskó. Það er engu líkara en síminn hleri hvað þú segir og noti síðan upplýsingarnar til að selja þér einmitt það sem þig langar í. En er eitthvað til í þessum staðhæfingum? Er raunverulega hægt að hlera símtöl án þess að fólk viti af því? Bandarísku neytendasamtökin Consumer Reports skoðuðu málið.

Mögulegt en ekki praktískt

Það er tæknilega mögulegt að símar og smáforrit taki upp samtöl fólks að því forspurðu og furðu margir telja reyndar að sú sé raunin. Consumer Reports kannaði viðhorf um eitt þúsund Bandaríkjamanna og í ljós kom að 43% aðspurðra töldu að farsíminn þeirra tæki upp samtöl án þeirra samþykkis. Engar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að þetta geti verið tilfellið.

David Choffnes, prófessor í tölvunarfræðum við Northeastern University, stýrði rannsókn þar sem 17.000 smáforrit fyrir Android-stýrikerfi voru grandskoðuð með aðstoð annarra rannsóknarforrita. Ekki fannst eitt einasta tilfelli sem sýndi fram á að smáforrit virkjaði hljóðnema í símum eða deildi hljóðgögnum.

Það sama má segja um rannsókn öryggisfyrirtækisins Wandera sem einblíndi á vinsæl smáforrit sem þekkt eru fyrir að safna gögnum í miklum mæli, svo sem Amazon, Chrome, Facebook, Instagram og YouTube. Engar vísbendingar fundust um leyniupptökur.

Choffnes segir í samtali við Consumer Reports að þegar öllu sé á botninn hvolft – og miðað við tæknina í dag – sé hljóðupptaka ekki mjög hentug leið til að safna gögnum sem nýta á í markaðslegum tilgangi. Það myndi krefjast mikillar vinnu að breyta hljóðgögnum yfir á textaform svo hægt sé að greina þau, sér í lagi ef um væri að ræða mikið magn slíkra gagna. Ef slíkar njósnir ættu sér stað, og það án þess að skilja eftir sig nokkra slóð, væri viðkomandi líklega að eltast við stærri fiska en hinn almenna neytanda. Til séu langtum betri aðferðir til að safna upplýsingum um neytendur en að hlera símtöl þeirra.

En hvernig stendur þá á því að svo margir telja sig sjá auglýsingar sem rekja megi til einkasamtala?

Upplýsingum safnað með ýmsum ráðum

Michael Covington, framkvæmdastjóri hjá fyrrnefndu fyrirtæki, Wandera, segir að þótt sýnt hafi verið fram á að hleranir eigi sér ekki stað sé enginn skortur á árangursríkum aðferðum til að afla gagna um neytendur.

Staðreyndin er sú að stórfyrirtæki eins og Google, og allt niður í lítil smáfyrirtæki, safna á skipulagðan hátt persónugögnum, svo sem nafni, fæðingardegi og kreditkortaupplýsingum, með því einfaldlega að biðja notendur um þessi gögn. Mörg fyrirtæki rekja einnig staðsetningar fólks með því að nota GPS í símanum eða með nálægð hans við farsímamöstur. Þá fylgist Facebook með hegðun notenda, jafnvel út fyrir Facebook-síðuna sjálfa, með aðstoð vefkóða sem gengur undir nafninu „Facebook Pixel“. Kóðinn hefur verið settur á ýmsar vefsíður á netinu til að fylgjast með því hvaða vefsíður notendur skoða og hvað þeir kaupa í vefverslunum.

Í rannsókn Choffnes kom í ljós að 9.000 Android-smáforrit voru í laumi að taka skjáskot og myndbönd af snjallsímanotkun og áframsenda þessar upplýsingar til þriðja aðila. Í einu tilvikinu tók smáforrit upp myndband af snjallsímanotkuninni og deildi því með fyrirtæki sem sérhæfir sig í gagnagreiningu. Í því tilviki var um að ræða smáforrit sem notað var til matarinnkaupa. Í einu skjáskotinu sást póstnúmer viðkomandi, en hægt er að ímynda sér hættuna ef önnur skjáskot upplýstu um notendanafn, lykilorð eða jafnvel kreditkortaupplýsingar.

Clay Miller, yfirmaður hjá öryggisfyrirtækinu SyncDog, sem sérhæfir sig í öryggi farsíma, segir að þrátt fyrir að sum smáforrit séu hönnuð þannig að þau feli persónuupplýsingar frá öðrum forritum þá geti stýrikerfi símans haft áhrif á þær stillingar. Miller telur líklegustu skýringuna á því að auglýsingar birtist á netinu stuttu eftir að neytendur hafa kynnt sér vöru ekki vera þá að síminn  hleri viðkomandi, heldur sé staðreyndin sú að mörg smáforrit, t.d. frá Google, sameini upplýsingar um notanda og búi til prófíl um hann. Prófíllinn er svo notaður til að birta sérsniðnar auglýsingar út frá því sem notandinn hefur verið að skoða. Sem dæmi; ef fólk leitar að sérstakri tegund af strigaskóm á Google, notar Google Maps til að rata í skóvöruverslun eða skráir sig á póstlista hjá skóverslun á Gmail-reikningi er mjög líklegt að skóauglýsingar birtist í Google Chrome-vafranum hjá viðkomandi. Þar sem Facebook er með hugbúnað sem leitar að gögnum er líklegt að sömu auglýsingarnar birtist einnig á Facebook-fréttaveitunni.

Hvað getur þú gert?

Ef þessi markaðssetning hugnast ekki neytendum geta þeir takmarkað aðgang fyrirtækja að vefsögu sinni með því t.d. að nota ekki sjálfvirkar innskráningarleiðir sem Google og Facebook bjóða, auk þess að nota ekki Chrome-vafrann, segir Miller. Fólk ætti að vera vakandi fyrir því  hvaða aðgangsheimildir það hefur veitt smáforritum í símanum. Ef að telur að t.d. leikjasmáforrit þurfi ekki aðgang að myndavélinni eða hljóðnemanum á símanum ætti að afturkalla hann.

iPhone
Til þess að sjá nákvæmlega hvaða leyfi þú hefur veitt tilteknu smáforriti á iPhone skaltu fara í Settings – Privacy  – og í Camera. Þar má sjá lista yfir þau smáforrit sem hafa aðgang að myndavélinni í símanum ásamt hnapp til að afturkalla þann aðgang. Slíkt hið sama á við um Microphone (hljóðnema).

Android
Í Android-síma ferðu í Stillingar (settings) – Forrit (apps) og flettir niður og velur eitthvað af þeim smáforritum sem þar birtast. Eftir að þú velur smáforritið sérðu hvaða leyfi þú hefur gefið því tiltekna smáforriti og þar er hægt að afturkalla leyfið.

 Þrátt fyrir að margir telji að stórtæk hlerun á snjallsímum eigi sér stað hefur ekki tekist að sýna fram á slíkt með óyggjandi hætti. Seljendur hafa enda mun auðveldari og ódýrari leiðir til að skyggnast inn í hugarheim neytenda. Eins og rakið hefur verið í greininni er það fyrst og fremst hegðun okkar á netinu sem gerir seljendum kleift að beina til okkar sérsniðnum auglýsingum. Eins er líklegt, ef áhugi á tiltekinni vöru eða þjónustu vaknar, að við tökum betur eftir auglýsingum sem við hefðum annars ekki veitt neina athygli. Og síðast en ekki síst skyldi ekki vanmeta tilviljanir. En þótt síminn sé að öllum líkindum ekki að njósna um okkur er ástæða til að gjalda varhug við þeirri stórfelldu upplýsingasöfnun á netinu sem á sér stað og neytendur gera sér oft ekki grein fyrir.

Neytendablaðið vor 2021

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.
Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.