Innheimta

Á fyrstu skrefum innheimtu eru hömlur settar á innheimtukostnað. Þá eru ákveðnar reglur um tímafresti og annað.

Innheimta

Um innheimtu gilda innheimtulög nr. 95/2008 sem og reglugerð nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl.

Hvað er innheimta?

Er krafa fer í vanskil (er ekki greidd á eindaga) getur kröfuhafi sjálfur hafið innheimtuaðgerðir eða falið innheimtuaðilum það verkefni. Í reglugerð um hámarksfjárhæð segir: „skuldari skal einungis greiða fyrir eina skyldubundna innheimtuviðvörun, valfrjálst milliinnheimtubréf og tvær valfrjálsar ítrekanir á þeim og eitt símtal í milliinnheimtu þar sem samband næst.

Hér að neðan má sjá hvað felst í hverju skrefi.

Fruminnheimta

Við upphaf innheimtuaðgerða ber ávalt að senda eina skriflega innheimtuviðvörun þar sem skuldara er tilkynnt um að sé krafan ekki greidd innan tilskilins frests (að lágmarki 10 dagar) megi vænta frekari aðgerða. Fyrir innheimtuviðvörun má að hámarki krefjast 950 kr. + virðisaukaskatt.

Milliinnheimta

Sé krafa ekki greidd innan þess frests sem tilgreindur er í fruminnheimtubréfi fer innheimtuferlið á næsta stig; svokallaða milliinnheimtu. Hámarkskostnaður sem krefja má skuldara um á þessu stigi eykst og fer það eftir höfuðstól kröfunnar hver hámarkskostnaður milliinnheimtubréfs er hverju sinni.

Á þessu stigi er heimilt að krefja skuldara um kostnað vegna allt að þriggja bréfa og eins símtals.

Komist aðilar að samkomulagi um greiðslu ógreiddrar kröfu, s.s. greiðsludreifingu, má innheimtuaðili rukka skuldara sérstaklega fyrir gerð skriflegs samkomulags. Hámarkskostnaður má þó ekki fara umfram 2.700 kr. + virðisaukaskatt.

Milliinnheimtuferlið er valfrjálst fyrir innheimtuaðila, þ.e. ólíkt hinni skyldubundnu innheimtuviðvörun ber innheimtuaðila ekkert endilega að senda öll valfrjálsu millinnheimtubréfin eða hringja símtalið.

Löginnheimta

Síðasta stig innheimtunnar er svo löginnheimta. Löginnheimta er hugsuð sem undanfari réttarfarsaðgerða, þ.e. lokatilraun áður en farið er í róttækari aðgerðir eins og dómsmál, aðför o.s.frv.

Jafn einkennilega og það kann að hljóma gilda hvorki innheimtulög né reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar um löginnheimtuferlið, heldur byggist hún á ákvæði í lögum um lögmenn. Á þessu stigi getur kostnaður við innheimtuna rokið upp úr öllu valdi enda ekki fastskorðað hámark sem gildir um innheimtu á þessu stigi líkt og á fyrri stigum.

Eftirlit með innheimtustarfsemi

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með innheimtuaðilum og telji fólk að innheimtuaðferðir brjóti í bága við lög er hægt að koma ábendingum til eftirlitsins.

Sú undanþága er þó á innheimtulögum að lögmenn sem stunda innheimtu falla ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Lögmannafélag Íslands fer með eftirlitið í orði kveðnu en í raun felst þetta eftirlit einungis í því að fólk getur sent kæru til úrskurðarnefndar lögmanna og kvartað yfir innheimtuháttum lögmanns telji það innheimtuhætti fara á svig við lög. Nefndin getur áminnt lögmanninn telji hún hann hafa brotið gegn innheimtulögum en hvorki nefndin né lögmannafélagið hefur úrræði til að fylgja málum eftir og tryggja að farið sé eftir úrskurði nefndarinnar. Þá eru dæmi þess að lögmaður sem úrskurðarnefndin áminnir stefni þeim sem lagði fram kvörtun fyrir dóm með það að markmiði að fá áminninguna fellda úr gildi. Neytendasamtökin geta því alls ekki hvatt fólk til að leita með ágreiningsmál fyrir nefndina þar það á þá á hættu málshöfðun líki lögmanni ekki úrskurðurinn.

Neytendasamtökin telja þessa tilhögun, að félag hafi eftirlit með félögum sínum, óásættanlegt og bjóði ótal hættum heim. Hafa Neytendasamtökin sent erindi á stjórnvöld og kallað eftir breytingum.

Hámark á innheimtukostnað

Kostnaður við innheimtu getur orðið mjög óheyrilega hár ef uppphæð láns er tiltölulega lág svo sem í tilfelli smálána og raðgreiðslulána þar sem hver greiðsla fer í innheimtuferli. Þannig þekkja samtökin dæmi þess að fjárkrafa í vanskilum hafi meira en fjórfaldast í innheimtu. Í Danmörku og Svíþjóð hafa verið sett lög um hámarksinnheimtukostnað sem, með öllum öðrum kostnaði, má aldrei vera hærri en lánsupphæðin sjálf. Lán upp á 10.000 kr. getur þannig ekki borið hærri kostnað en 10.000 kr. Neytendasamtök telja afar mikilvægt að samskonar skorður verði settar hér á landi.

Innheimtulögin sem sett voru árið 2008 voru mikil réttarbót á sínum tíma en Neytendasamtökin höfðu um árabil krafist þess að slík lög yrðu sett enda um mikið réttlætismál að ræða. Samtökin telja mjög mikilvægt að endurskoða lögin og þá sérstaklega með það í huga að eftirlit með innheimtustarfssemi sé allt á sömu hendi og að hámark verði sett á innheimtukostnað.

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Основна інформація Споживач має право повернути товар та отримати повернення грошових коштів
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Neytendafréttir í svipuðum dúr

Neytendur upplýstir um vöruskerðingu- ný lög í Frakklandi

Frumvarpi um samkeppnisundanþágu afurðastöðva mótmælt

Allt uppi á borðum

Grænþvegnir grísir

Samkeppni leidd til slátrunar

Samkeppni leidd til slátrunar

Ályktun stjórnar um tilbúinn vöruskort

Vilja fulltrúa neytenda í stjórn Úrvinnslusjóðs

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Основна інформація Споживач має право повернути товар та отримати повернення грошових коштів
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.