Þegar röskun verður á flugi að þá er fyrsta skrefið að senda skriflega kvörtun á flugfélagið. Allur gangur er á því hvernig farþegar geta sent inn kvartanir, en gjarnan eru flugfélögin með sérstök vefform á heimasíðum sínum sem farþegar geta fyllt inn. Hjá sumum flugfélögum er nauðsynlegt fyrir farþega að skrá sig inn á „mínar síður“ til að fá aðgang að kvörtunarformum. Yfirleitt er mjög einfalt og þægilegt fyrir farþega að sækja bætur sjálfir. Nokkur fyrirtæki sérhæfa sig í að sækja bætur fyrir hönd farþega – en Neytendasamtökin ráðleggja farþegum að reyna frekar sjálfir að sækja um bætur í stað þess að greiða öðrum fyrir það.
Senda kvörtun til Icelandair – hér
Senda kvörtun til Play – hér
Flug keypt í gegnum bókunarsíður
Nokkuð algengt er að farþegar nýti sér þriðja aðila bókunarsíður til að finna og bóka flug. Stundum þýðir það ákveðin flækjustig ef upp koma raskanir.
Margar bókunarsíður virka þannig að þær kaupa miða af flugfélögum með því að nota kreditkort sín og „selja“ svo miðann áfram til farþegans sem greiðir til bókunarsíðunnar. Stundum er það svo að bókunarsíðunnar fá ákveðið bókunarnúmer frá flugfélagi – en búi svo til „nýtt“ bókunarnúmer sem það sendir svo til farþegans. Þannig geta farþegar notað bókunarnúmerið til að innrita sig í flug, en ekki endilega til að innskrá sig á „mínar síður“ hjá flugfélögum eða til að senda inn kvartanir.
Ef upp koma raskanir að þá hafa verið mörg dæmi þess að bókunarsíður vísi farþegum að gera kröfu á flugfélagið – en flugfélagið vísar farþegum að setja sig í samband við bókunarsíðuna. Farþegum er þannig kastað fram og tilbaka á milli þessara aðila.
Hver ber ábyrgð?
Neytendasamtökin eru þeirrar skoðunar að það sé flugfélagið sem ber á endingu ábyrgð gagnvart farþega að staðið sé við réttindi skv. Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega.
Hvað ef flugfélag hafnar kröfu?
Ef flugfélag hafnar kröfu farþega á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega (endurgreiðsla, staðlaðar skaðabætur o.s.frv) að þá tryggir reglugerðin möguleika farþega til að fara lengra með málið. Í öllum löndum EES eru flugmálayfirvöld sem taka við kvörtunum farþega og koma með ákvörðun um bótarétt.
Farþegar þurfa að beina kröfum sínum til yfirvalda þess lands þar sem röskunin átti sér stað. Þannig ef farþegi á t.d. bókað flug frá Spáni til Íslands sem raskast að þá þyrfti hann að beina málinu til spænskra flugmálayfirvalda – óháð því hvort flugfélagið sé spænskt eða ekki.
Hægt er að nálgast upplýsingar um öll eftirlitsstjórnvöld hér.