Linsur og baunir – hollur valkostur

Belgjurtir eru tilvalin fæða fyrir þá sem vilja draga úr kjötneyslu eða hætta henni alveg.

Með aukinni umhverfisvitund er viðbúið að neysluvenjur breytist og þegar má sjá merki þess að jurtafæði sé að verða vinsæll kostur. Linsur, ertur og baunir – öðru nafni belgjurtir – eru næringarrík fæða sem getur komið í stað kjöts og fyrr á árinu birtist ítarleg umfjöllun um þennan valkost í danska neytendablaðinu Tænk. Í nýrri rannsókn sem gerð var á viðhorfi Dana til kjötneyslu kom í ljós að 30% aðspurðra sögðust hafa dregið úr kjötneyslu á undanförnum árum af umhverfisástæðum.

Samkvæmt opinberum ráðleggingum á Norðurlöndunum ætti að neyta að hámarki um 70 gramma af rauði kjöti á dag og sérstaklega takmarka neyslu á unnum kjötvörum. Með rauðu kjöti er átt við nauta-, svína- eða lambakjöt. Danir borða hins vegar tvöfalt meira kjöt en ráðlagt er eða 144 grömm á dag að meðaltali. Hér á landi eru ekki til nýjar neyslutölur yfir kjötneyslu þar sem síðasta landskönnun á mataræði var gerð 2010–2011. Þá var neysla á öðru kjöti en fuglakjöti rúm 90 grömm og eru þá unnar kjötvörur meðtaldar.

Prótínskortur ekki vandamál

Víða um heim eru belgjurtir mikilvægur hluti af daglegri fæðu en þær hafa ekki ennþá slegið í gegn á Vesturlöndum. Það kann þó að vera að breytast því belgjurtir eru tilvalin fæða fyrir þá sem vilja draga úr kjötneyslu eða hætta henni alveg. Sérfræðingar á sviði næringar sögðu í samtali við Tænk að baunir geti vel komið í stað kjöts enda eru þær ríkar af prótíni þótt rautt kjöt sé vissulega prótínríkara. Almennt þurfi þó ekki að hafa áhyggjur af prótínskorti enda ekkert sem bendi til þess að fólk fái ekki nægt prótín úr fæðunni. Sá hópur sem þurfi þó að vera á varðbergi með að draga úr, eða hætta, kjötneyslu sé einna helst eldra fólk sem borðar lítið. Fyrir þennan hóp getur kjöt verið mjög mikilvæg fæða.

Belgjurtir eru góður kostur þar sem þær eru trefjaríkar, innihalda lítið af mettaðri fitu og eru ríkar af B-vítamíni og steinefnum. Belgjurtir, heilkornavörur, hnetur og fræ eru góð uppspretta prótína og eru sojabaunir sérstaklega prótínríkar.

Mettar kjöt betur en baunir?

Það er útbreiddur misskilningur að máltíð án kjöts metti ekki eins vel en karlar virðast frekar þessarar skoðunar ef marka má viðhorfskönnun sem verslunarkeðjan COOP lét gera fyrr á árinu. Þetta á þó ekki við rök að styðjast samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var í Kaupmannahafnarháskóla árið 2016. Ungum mönnum voru yfir ákveðið tímabil gefnar máltíðir sem innhéldu ýmist kjöt (svína- eða kálfakjöt) eða baunir og linsur. Tilraunadýrin máttu borða að vild og í stuttu máli var niðurstaðan sú að svengdin var minni eftir baunaréttina en kjötréttina.

Ódýrari en kjöt en þarfnast undirbúnings

Þegar kemur að peningaveskinu hafa baunir vinninginn en þær eru margfalt ódýrari en kjöt og samkvæmt Tænk getur munurinn verið allt að tífaldur. Það þarf hins vegar að leggja flestar baunir í bleyti í marga klukkutíma og síðan sjóða þær í allt að klukkutíma. Það er því gott ráð að undurbúa stærri skammta, jafnvel heilan poka af baunum, og geyma í frysti í mátulegum skömmtum. Það getur verið handhægt að kaupa tilbúnar baunir en umhverfisávinningurinn er þá vissulega eitthvað minni. Kirsten Skaarup hefur skrifað ótal matreiðslubækur og hún segir í samtali við Tænk að hún hafi ávallt notað belgjurtir í uppskriftir sínar. Í nýjustu bókinni notar hún belgjurtir í stað kjöts og breytir þannig dæmigerðum kjötréttum í gómsæta grænmetisrétti. Til að baunir og linsur njóti sín sem best segir hún mikilvægt að nota gott hráefni eins og lauk, hvítlauk, chili, engifer og ferskar kryddjurtir. Þá sé tilvalið að nota góða olíu í baunarétti.

Ekki dregið úr kjötneyslu á heimsvísu

Þrátt fyrir stóraukna umræðu um neikvæð umhverfisáhrif kjötframleiðslu eru ekki vísbendingar um að neyslan fari minnkandi þótt þróunin sé vissulega mismunandi eftir löndum. Á fimmtíu árum (frá 1961–2014) jókst meðalneysla á kjöti úr 23 kílóum á ári á hvern jarðarbúa í 43 kíló. Í sumum löndum er neyslan þó komin að þolmörkum, svo sem í Bretlandi þar sem kjötneysla hefur dregist örlítið saman á undanförnum árum. Í Brasilíu, Kína og mörgum löndum Austur-Asíu hefur kjötneysla hins vegar aukist ár frá ári og því er spáð að sú þróun haldi áfram. Aukin kjötneysla er ekki síst rakin til aukinnar velmegunar. Samkvæmt frétt á vef BBC er kjötneysla mest í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Argentínu þar sem hver íbúi borðar að meðaltali 100 kíló af kjöti árlega. Lönd Evrópu eru ekki langt undan en meðaltalsneyslan þar er í kringum 80–90 kíló á ári. Mun minna er hins vegar neytt af kjöti í Indlandi og í flestum Afríkulöndum. Í Nígeríu er meðaltalsneysla til dæmis einungis 9 kíló á mann á ári.

Álag á auðlindir jarðar

Í rannsókn sem gerð var í háskólanum í Oxford og birtist í vísindatímaritinu Science árið 2018 var því spáð að kjötneysla muni aukast á næstu árum í takt við fjölgun jarðarbúa. Þessi þróun hafi neikvæð umhverfisáhrif bæði með tilliti til útblásturs gróðurhúsalofttegunda og lífræðilegs fjölbreytileika. Segir í greininni að erfitt sé að sjá hvernig jörðin eigi að geta framfleytt 10 milljörðum jarðarbúa ef allir borða kjöt í sama mæli og Vesturlandabúar.

Neytendablaðið hefur fjallað um svokallað jarðheilsufæði eða planetary health diet, en það er mataræði sem er gott fyrir bæði heilsu fólks og jörðina. Það byggir í miklum mæli á fæðu úr jurtaríkinu jafnhliða minni kjötneyslu. Nánari upplýsingar um jarðheilsufæði má nálgast á eatforum.org en þar má til dæmis finna girnilegar uppskriftir.

Neytendablaðið desember 2019

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Основна інформація Споживач має право повернути товар та отримати повернення грошових коштів
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.