Netkaup – góð ráð

Þegar vörur eru keyptar á netinu er réttur neytanda jafnan meiri en ef vara er keypt úti í búð.

Þegar vörur eru keyptar á netinu er neytendaréttur að jafnaði nokkuð rýmri en þegar vara er keypt í verslun – sér í lagi réttur neytenda til að skila vöru. Það er því mikilvægt að bæði neytendur og seljendur þekki þær reglur sem gilda. Sjá lög um neytendasamninga.

Hér er yfirlit yfir reglurnar í hnotskurn, en mun ítarlegri upplýsingar má finna hér.

Þú mátt skila vöru sem er keypt á netinu

Ef þú kaupir vöru á netinu sem þér líkar ekki máttu skila henni og fá endurgreitt. Þetta gildir líka þótt varan sé á útsölu eða á tilboði. Almennt er seljendum ekki skylt að taka við ógölluðum vörum og endurgreiða. Við kaup á netinu er hins vegar tekið tillit til þess að þú hefur ekki haft tækifæri til að skoða vöruna með eigin augum, prófa hana eða máta.

Sendingarkostnaður, þegar vöru er skilað, fellur alla jafna á neytandann og ef um er að ræða innflutta vöru er líklegt að neytandinn hafi greitt virðisaukaskatt af vörunni. Það á að vera hægt að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan ef sýnt er fram á að varan sé send aftur til seljanda.

Ekki alltaf hægt að hætta við

Þessi ríki réttur til að skila ógallaðri vöru gildir þó ekki um öll kaup og má þar nefna flugmiða, pakkaferðir, mat, bílaleigur, sérpantanir og vörur þar sem innsigli hefur verið rofið. Þá gildir hann ekki ef verð vörunnar er lægra en 7.000 kr.

Ekkert hangs

Þú hefur 14 daga til að láta seljanda vita að þú viljir hætta við kaupin. Þér ber engin skylda til að taka við inneignarnótu þegar þú skilar vöru sem keypt er á netinu. Þér ber að sanna að þú hafir tilkynnt seljanda um að hætta við kaupin og því er best að gera það með skriflegum hætti, t.d. í tölvupósti.

Seljandi á að upplýsa

Seljandi hefur ríka skyldu til að upplýsa þig um flest allt sem máli skiptir, svo sem um eiginleika vörunnar, heildarverð, rétt til að skila vörunni, afhendingartíma og hvar og hvernig þú getur kvartað. Seljandi á að gefa upp nafn fyrirtækis, netfang, símanúmer og heimilisfang. Seljandi á einnig að upplýsa þig um 14 daga skilaréttinn og ef hann gerir það ekki lengist skilarétturinn um heilt ár. Ef þú ert ekki viss hvort sölusíðu sé treystandi geta vefsíður eins og Scamadvisor og Trustpilot verið mjög gagnlegar.

 Viðbótarkostnaður

Þegar vörur eru keyptar frá útlöndum getur bæst við töluverður kostnaður, svo sem sendingarkostnaður, umsýslugjald og virðisaukaskattur. Sumir seljendur setja þennan kostnað inn strax við kaup en á því er allur gangur. Hægt er að sjá hvaða kostnaður leggst á erlendar sendingar á vef Íslandspósts og Skattsins.

Gott er að hafa í huga að ýmiss viðbótarkostnaður getur bæst ofan á sendingar frá útlöndum.

 

Varasamt að millifæra pening

Kreditkort eru öruggur greiðslumáti svo framarlega sem greiðslusíður eru dulkóðaðar. Greiðslusíðan er þá á slóðinni „https“ og þá má sjá mynd af læstum lás við vefslóðina. Ekki er ráðlagt að vista kortaupplýsingar á vefsíðum eins og oft er boðið upp á. Öruggara er að slá upplýsingarnar inn hverju sinni þótt það sé tímafrekara. Þá ættu viðvörunarbjöllur að hringja ef seljandi fer fram á millifærslu í stað viðurkenndrar greiðslu eins og kreditkorts eða PayPal.

Hvað ef fyrirtæki virðir ekki lögin?

Neytendastofa er eftirlitsaðili með lögunum og getur beitt ákveðnum viðurlögum og því er rétt að beina ábendingum þangað ef upp koma álitamál. Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið upplýsingar og aðstoð ef þeir verða þess áskynja að fyrirtæki virða ekki þennan rétt

Erlend netverslun

Sömu lög gilda um netverslun á öllu evrópska efnahagssvæðinu (EES). Það þýðir að þú átt sama rétt hvort sem þú kaupir í gegnum íslenskan söluvef eða evrópskan. Ef þú lendir í deilum við seljanda innan EES, hvort sem kaupin voru í gegnum netið eða ekki, getur þú leitað til Neytendasamtakanna. Þau hýsa Evrópsku neytendaaðstoðina www.ecc.is.

 

Myndir: Halldór Baldursson

.................................................

Ítarlegar upplýsingar um réttindi við netkaup eða aðra fjarsölu

Seljanda ber að veita upplýsingar

Seljandi hefur ríka skyldu til að upplýsa neytandann á sölusíðu um flest allt sem máli skiptir, svo sem um eiginleika vörunnar en einnig um rétt neytanda til að skila vörunni. Seljandi verður að gefa upp nafn fyrirtækis, netfang, símanúmer og heimilisfang. Vanti þessar upplýsingar ætti neytandi að forðast viðskipti við viðkomandi.

 • Eftirfarandi eru upplýsingar sem neytandi á rétt á:
 • Helstu eiginleikar vöru eða þjónustu sem samningur fjallar um.
 • Nafn seljanda og heimilisfang, ásamt símanúmeri, bréfsímanúmeri og netfangi hans, eftir því sem við á, til að neytandi hafi tækifæri til að ná fljótt sambandi við seljanda og eiga samskipti við hann á skilvirkan hátt.
 • Heildarverð vöru eða þjónustu, eða, þegar varan eða þjónustan er þess eðlis að ekki er hægt með góðu móti að reikna verðið út fyrirfram, á hvern hátt verðið er reiknað út.
 • Fyrirkomulag á greiðslum, afhendingu og hvenær hún fer fram og, eftir því sem við á, framkvæmd og meðferð kvartana af hendi seljanda.
 • Skilyrði, tímamörk og tilhögun réttar til að falla frá samningi, ef hann er fyrir hendi.
 • Að neytandi skuli, eftir atvikum, bera kostnað af því að skila vöru ef hann fellur frá samningi og, í tilviki fjarsölusamninga, kostnað við að skila vöru sem ekki er hægt að endursenda í pósti.
 • Kostnaður sem neytandi getur borið ef fallið er frá samningi.
 • Að neytandi hafi ekki rétt til að falla frá samningi ef sá réttur er ekki fyrir hendi.
 • Lögbundin úrræði neytenda vegna galla á söluhlut eða þjónustu.
 • Gildistími samningsins, eftir því sem við á, eða, ef samningurinn er ótímabundinn eða endurnýjast sjálfkrafa, skilyrði fyrir uppsögn hans.
 • Lágmarkstímabil skuldbindinga neytanda samkvæmt samningnum, eftir því sem við á.
 • Hvort fyrir hendi sé kerfi fyrir kvartanir og úrlausn mála utan dómstóla sem seljandi fellur undir og, ef svo er, hvernig aðgangur fæst að því.
Réttur til að skila vöru

Þótt flestar verslanir leyfi fólki að skila og skipta vörum þá er ekkert í lögum sem tryggir neytendum slíkan rétt nema vara sé gölluð. Flestar verslanir gefa fólki þó tækifæri á að skipta og skila gegn inneignarnótu.

Þegar verslað er á netinu er réttur neytandans betur tryggður að þessu leyti því hann rétt á að skila vöru og fá endurgreiðslu. Á því eru þó nokkrar undantekningar, sjá í kaflanum hér að neðan. Þannig kemur fram í lögunum að neytandi hafi fjórtán daga frest til að falla frá samningi sem gerður er við kaup á netinu. Þarna er tekið tillit til þess að neytandinn hefur ekki sjálfur tækifæri til að skoða vöruna með eigin augum, prófa hana eða máta. Sendingarkostnaður, þegar vöru er skilað, fellur alla jafna á neytandann og ef um er að ræða innflutta vöru er líklegt að neytandinn hafi greitt virðisaukaskatt af vörunni. Það á að vera hægt að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan ef sýnt er fram á að varan sé send aftur til seljanda.

Neytandinn þarf að tilkynna ákvörðun sína um að hætta við kaup til seljandans með sannanlegum hætti og áður en fresturinn til að falla frá kaupum rennur út. Það er neytandans að sanna að hann hafi tilkynnt seljanda að hann vilji hætta við kaupin og því er best að gera það með skriflegum hætti, t.d. í tölvupósti.

Ekki alltaf hægt að falla frá kaupunum

Það eru þó dæmi um kaup á netinu, eða annarri fjarsölu, þar sem neytandi á ekki rétt á að falla frá kaupum. Hér eru nokkur dæmi um slíkt:

Réttur til að falla frá samningi tekur EKKI til eftirtalinna tilvika:

 • Afhendingar á vöru eða þjónustu þar sem verðlag er háð sveiflum á fjármálamarkaði og seljandinn hefur ekki stjórn á.
 • Afhending á vöru sem er framleidd samkvæmt forskrift neytandans og ber skýrt auðkenni hans, t.d. sérpöntun af einhverju tagi.
 • Afhendingar á vöru sem líklegt er að rýrni eða úreldist fljótt.
 • Afhendingar á innsiglaðri vöru sem ekki er hægt að skila vegna lýðheilsusjónarmiða eða af hreinlætisástæðum hafi innsigli verið rofið eftir afhendingu.
 • Afhendingar á vöru sem eðlis síns vegna er ekki unnt að aðskilja frá öðrum vörum eftir afhendingu.
 • Afhendingar á innsigluðum hljóð- eða myndupptökum eða tölvuhugbúnaði sem neytandinn hefur rofið innsiglið á eftir afhendingu.
 • Afhendingar á dagblöðum eða tímaritum að undanskildum áskriftarsamningum um afhendingu á slíku efni.
 • Samninga sem eru gerðir á opinberu uppboði.
Viðbótarkostnaður

Rétt er að hafa í huga að þegar vörur eru keyptar frá öðrum löndum getur bæst við töluverður kostnaður, svo sem sendingarkostnaður, umsýslugjald og sendingargjald, og þá getur þurft að greiða virðisaukaskatt af vörunni. Á postur.is, er að finna góða reiknivél sem gefur til kynna hver endanlegur kostnaður er.

Þá er rétt að hafa í huga að margir seljendur hér á landi bjóða ókeypis sendingar, sérstaklega ef keypt er fyrir ákveðna upphæð, en slíkt tilboð gildir þó ekki alltaf um sendingar út á land.

Falla öll kaup á netinu undir lögin?

Lögin gilda í langflestum tilfellum þegar neytendur eiga viðskipti á netinu en þó eru á því undantekningar. Hér eru dæmi um kaup sem falla utan gildissviðs laganna:

 • Happdrætti
 • Samningar um fjármálaþjónustu
 • Tilurð, kaup eða framsal fasteigna eða réttar til fasteigna
 • Smíði nýrra bygginga eða verulegar breytingar á byggingum sem eru til staðar ásamt leigu á húsnæði til íbúðarnota
 • Samningar um pakkaferðir
 • Skiptileigusamningar fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl.
 • Samningar sem gerðir eru með aðstoð sjálfsala eða sjálfvirkra verslana
 • Samningar sem eru gerðir við fjarskiptafyrirtæki um opinbera símasjálfsala eða um eina síma-, net- eða bréfsímatengingu sem neytandi hefur komið á
 • Útvegun matvöru, drykkja eða annarrar vöru til daglegra heimilisnota sem seljandi sendir heim til neytenda, til dvalarstaðar hans eða vinnustaðar með sendlum sem fara tíðar og reglubundnar ferðir
 • Farþegaflutningar
 • Ef greiðsla neytanda fer ekki yfir 7.045 kr.
Hvað gerist ef fallið er frá samningi?

Þegar neytandi fellur frá samningi sem gerður er á netinu, hættir með öðrum orðum við kaupin, þá skal seljandi endurgreiða honum allar greiðslur sem hann innti af hendi, þar á meðal sendingarkostnað. Þetta skal seljandi gera eigi síðar en fjórtán dögum frá því neytandi tilkynnti seljanda um ákvörðun sína að falla frá samningnum. Seljandi þarf þó ekki að endurgreiða viðbótarkostnað ef neytandi hefur óskað sérstaklega eftir öðrum afhendingarmáta en þeim ódýrasta sem seljandi bauð. Neytandi skal að sama skapi endursenda vöru eða afhenda hana seljanda án ástæðulausrar tafar og ekki seinna en fjórtán dögum frá þeim degi sem hann tilkynnti seljanda að hann ætlaði að falla frá samningnum. Neytandinn skal bera beinan kostnað af því að skila vörunni nema seljandi hafi samþykkt að bera kostnaðinn eða ef seljandi hefur ekki upplýst neytanda um að hann skuli bera þennan kostnað.

Hvað á ég að gera ef fyrirtæki virðir ekki lögin?

Neytendastofa er eftirlitsaðili með lögunum og getur beitt ákveðnum viðurlögum og því er rétt að beina ábendingum þangað ef upp koma álitamál. Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við Neytendasamtökin og fengið upplýsingar og aðstoð ef þeir verða þess áskynja að fyrirtæki virða ekki þennan rétt.

Ef vara er keypt af fyrirtæki innan Evrópusambandsins, Noregi eða í Bretlandi þá geta neytendur leitað til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (ECC), sem Neytendasamtökin hýsa. ECC veitir neytendum sem lenda í deilum vegna viðskipta yfir landamæri ráðleggingar og aðstoð ef þeir lenda í vandræðum í samskiptum við erlenda seljendur. Nánari upplýsingar um ECC má finna hér.

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Основна інформація Споживач має право повернути товар та отримати повернення грошових коштів
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.