Netsvik- vertu á verði

Mörg dæmi eru um netsvik kosti fólk háar upphæðir. Það er því mikilvægt að vita hvar hætturnar leynast.

Netið hefur umbylt lífi okkar á undraskömmum tíma. Nú höfum við allar heimsins upplýsingar við höndina, eða réttara sagt við fingurgómana, í gegnum alls kyns snjallforrit og vefsíður. Þó þessi bylting sé að mestu leyti jákvæð á hún sér skuggahliðar. Netsvik eru mun algengari en fólk grunar og svikahrapparnir finna sífellt upp nýjar aðferðir. Allir geta orðið fyrir barðinu á netglæpamönnum og því er mikilvægt að geta varist þeim með þekkinguna að vopni.

Ekki smella á hlekki

Mikið er um svikatölvupósta og SMS-skilaboð sem send eru í nafni þekktra fyrirtækja. Þetta geta verið tilkynningar um póstsendingu eða endurnýjun áskriftar, svo sem hjá Netflix. Aldrei ætti að smella á hlekki sem fylgja slíkum skilaboðum. Þeir leiða inn á vefsíður sem hafa verið settar upp í þeim eina tilgangi að blekkja og svíkja. Síðurnar líta út eins og um raunverulegt fyrirtæki sé að ræða en ef grannt er skoðað sést að vefslóðin sjálf er ekki rétt. Öruggast er að fara beint á vefsíður fyrirtækja með því að slá inn lénið – til dæmis www.posturinn.is – skrá sig inn og greiða gjaldið, nú eða hringja í fyrirtækið og spyrjast fyrir. Ef tilkynningin berst með tölvupósti má oft þekkja svikapósta á því að netfangið lítur furðulega út.

Staldraðu við

Það er algengt klækjabragð svikahrappa að reka á eftir fólki og bera við tímapressu. Slíkt ætti alltaf að vekja grunsemdir. Því er til dæmis hótað að sending verði endursend, eða áskrift falli niður, verði tiltekin upphæð ekki greidd undir eins. Það er afar ólíklegt að fyrirtæki hóti viðskiptavinum sínum með þessum hætti. Ef verið er að reka á eftir þér skaltu alltaf staldra við og skoða málið betur.

Fjárfestasvik

Það er mjög ósennilegt að stórgóð viðskiptatækifæri leynist á Facebook eða Instagram en auglýsingar um skjótfenginn gróða geta þó verið mjög trúverðugar. Nafntogaðir einstaklingar eru jafnvel sagðir mæla með frábærum viðskiptatækifærum, svo sem kaupum á rafmynt eða hlutabréfum, sem síðan er enginn fótur fyrir. Ein ástæða þess hversu margir falla í þessa gryfju er að fólk treystir því að glæpamenn komist ekki upp með að auglýsa á miðlum eins og Facebook. En þannig er það nú samt.

Gylliboðin geta einnig borist í tölvupósti, skilaboðum og með símtali, og oft er hart lagt að fólki að taka þátt. Jafnvel eru dæmi um að svikarar – sem gefa sig út fyrir að vera ráðgjafar – fái fólk til að opna á fjaraðgang inn í tölvuna sína og inn í heimabanka. Svikarinn er þar með kominn með stjórn á tölvunni og hafa háar upphæðir tapast með þessum hætti.

 

Ástar- og vináttusvindl

 

Fólk sem verður fyrir barðinu á þessari tegund netglæpa hefur oft samþykkt vinabeiðni á samfélagsmiðlum eða stefnumótasíðum. Samskiptin geta einnig hafist með tölvupóstasamskiptum. Svikin ganga út á að misnota góðmennsku fólks og hafa af því pening Nýi „vinurinn“ gefur sér gjarnan góðan tíma til að byggja upp traust og sýnir ríka umhyggju og áhuga. Það kemur þó að því fyrr en síðar að vinurinn lendir í hremmingum og þarf nauðsynlega á fjárhagsaðstoð að halda. Það gæti verið vegna flugmiða, læknismeðferðar, námsláns eða varnings sem er fastur í tolli. Ein greiðsla dugar aldrei og dæmi eru um að fólk hafi tapað háum upphæðum, jafnvel aleigunni, áður en það áttar sig á svikavefnum. Ef einhver á netinu biður þig um fjárhagsaðstoð eða persónuupplýsingar skaltu bera málið undir einhvern sem þú treystir og er vel að sér í tæknimálum.

Svikaskilaboð á Messenger

Mörg dæmi eru um að svikarar taki yfir aðgang fólks á samfélagsmiðlum, til dæmis á Messenger. Skilaboðin virðast þá koma frá fjölskyldumeðlimi eða raunverulegum vini en í rauninni er þarna svikari á ferð. Þú gætir til dæmis fengið skilaboð um að þú hafir unnið í leik og þurfir að gefa upp símanúmerið þitt til að fá vinninginn afhentan. Í framhaldinu færðu kóða sendan í SMS-skilaboðum sem „vinurinn“ biður þig að senda sér. Aldrei ætti að áframsenda kóða og almennt er góð regla að smella aldrei á grunsamlega hlekki sem birtast í SMS-skilaboðum, tölvupóstum eða Messenger. Ef skilaboð eru hið minnsta grunsamleg er best að taka upp símann og hringja í viðkomandi.

 

Tölvupóst- eða fyrirmælasvindl

 

Fyrirmælasvik beinast helst að fyrirtækjum og félagasamtökum. Starfsmaður fær sendan tölvupóst frá yfirmanni og er beðinn um að millifæra ákveðna upphæð sem allra fyrst. Hér er þó á ferðinni glæpamaður sem hefur brotist inn í tölvukerfið og sendir út falska tölvupósta í nafni yfirmanns. Svikin eru mjög vel útfærð og erfitt að sjá í gegnum þau. Besta vörnin er að hringja í þann sem biður um millifærsluna og fá staðfestingu, því í svona tilfellum eru tölvupóstar ekki öruggir.

Ef þú lendir í netsvikum skaltu tafarlaust hafa samband við bankann þinn og óska eftir hjálp.

Sjá bæklinginn í pdf 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Основна інформація Споживач має право повернути товар та отримати повернення грошових коштів
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.