„No-show“ skrópgjald

Neytandi mætir of seint til að ná í bílaleigubíl. Bílaleigan hefur leigt öðrum bílinn en rukkar neytandann þó um fullt gjald. Stenst svona lagað?

Neytendur kannast hugsanlega við svo kallaða mætingaskyldu hjá sumum flugfélögum, sem stundum er kölluð no-show. Þetta þýðir í grófum dráttum að ef farþegi notar bókun sína ekki í „réttri röð“ falla aðrir leggir hennar sjálfkrafa niður. Farþegi fær því ekki nýta flug sem hann hefur þó greitt fyrir.

Bílaleigur eru einnig margar hverjar með no-show skilmála. Þá áskilja bílaleigur sér rétt til þess að leigja bifreiðina til annars aðila, sé ekki mætt á réttum tíma, og neita jafnframt endurgreiðslu. Þessir viðskiptahættir koma neytendum í opna skjöldu enda lúslesa fæstir skilmálana fyrir bókun. Þá virðist engin tilkynning berast neytendum um fyrirhugaðar aðgerðir.

Neytendasamtökin telja þessa skilmála oft og tíðum óeðlilega og jafnframt ósanngjarna. Eru samtökin þeirrar skoðunar að það ætti ekki að reynast bílaleigum íþyngjandi að „leyfa“ bifreið sem þegar hefur verið bókuð og greitt fyrir að standa eilítið lengur á stæði en ella.

Samtökunum barst fyrir nokkru mál frá neytanda sem hafði bókað bifreið á leigu á Spáni. Flugi hans seinkaði um nokkrar klukkustundir og við komu hafði bílaleigunni verið lokað. Þegar neytandinn mætti  á bílaleiguna morguninn eftir var honum tilkynnt að bifreiðin stæði ekki lengur til boða með vísan til no-show skilmála. Var honum þó boðin „önnur“ bifreið gegn álíka gjaldi. Neytandinn taldi það ekki mikið tiltökumál enda hlyti upphaflegt leiguverð að vera endurgreitt. Síðar kom aftur á móti í ljós að svo var ekki og hafði neytandinn greitt fullt verð fyrir báðar bókanirnar. Bein samskipti við bílaleiguna skiluðu litlu og leitaði hann því til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (ECC) og fékkst bílaleigan að endingu til að endurgreiða seinni bókunina.

Í öðru sambærilegu máli hafði erlendur ferðamaður bókað bílaleigubifreið hér á landi. Þetta var um mitt sumar og veðrið lék við landann. Fluginu hafði seinkað eilítið og þegar ferðamaðurinn kom loks að bílaleigunni hafði henni verið lokað snemma þann daginn – mögulega vegna veðurblíðunnar. Hann tók mynd af auglýsingu um opnunartíma bílaleigunnar sem sýndi að hún hefði átt að vera opin. Morguninn eftir mætti ferðalangurinn á bílaleiguna og útskýrði fyrir starfsmanni að hann hefði mætt eilítið of seint deginum áður en að skrifstofunni hefði greinilega verið lokað fyrr en venjulega. Bílaleigan taldi þá staðreynd litlu skipta og tilkynnti að enga bifreið væri að fá. Þrátt fyrir milligöngutilraunir ECC kom umrædd bílaleiga hvorki til móts við neytandann með því að útvega honum aðra bifreið – enda allar í útleigu – né endurgreiddi honum leigugjaldið.

Að mati Neytendasamtakanna eru þessir viðskiptahættir ósanngjarnir í garð neytenda. Í fyrra málinu hafði bílaleigan sambærilega bifreið til umráða og hefði hæglega getað afhent hana án beitingar á skilmálanum og í síðara dæminu hafði bílaleigan þegar leigt bifreiðina út „aftur“ og hefði þar með að mati samtakanna með réttu átt að endurgreiða neytandanum.

Það skal tekið fram að í tilfelli íslensku bílaleigunnar var um að ræða fyrirtækið CC Bílaleigu ehf., sem hefur ítrekað tapað kærumálum fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og neitað að fara eftir úrskurðum. Almennt virðast íslenskar bílaleigur ekki stunda þessa viðskiptahætti en samtökin fygljast grannt með þróun mála.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.
Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.