Lágt hlutfall af plasti sem er skilað í endurvinnslustöðvar nýtist þó til endurvinnsluMjög lágt hlutfall af plasti sem er skilað í endurvinnslustöðvar nýtist þó til endurvinnslu, þ.e. í nýjar plastumbúðir eða plastvörur, eða einungis þriðjungur. Restin er ekki af nógu miklum gæðum til endurvinnslu og er því brennd og nýtt til upphitunar.
Það eru ýmsar ástæður fyrir því að svo lágt hlutfall af því plasti sem þó er skilað nýtist ekki betur. Það er einfaldlega flókið að flokka plast og þótt tæknin sé nýtt til hins ýtrasta þá geta leyseisnemarnir til dæmis ekki lesið upplýsingar um plastflokk ef umbúðir eru svartar. Flokkunin fer fram á færiböndum þar sem plastið er flokkað eftir stærð, þyngd og mýkt. Seglar grípa málmbita sem flækst hafa með áður en kemur að næsta stigi ferilsins þar sem leysisnemar flokka plastið eftir tegund. Það plast sem er brúklegt til endurvinnslu er síðan þvegið og brætt áður en það er selt áfram.
Í Svíþjóð er talið að einungis einn þriðji af plastumbúðum frá neytendum skili sér í endurvinnslustöðvar. Staðan er verri hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er magn umbúðaplastsúrgangs um það bil 40 kíló á hvern íbúa árlega. Endurvinnsla á drykkjarumbúðum með skilagjaldi og á heyrúlluplasti er um 80–85% en á öðrum umbúðum er hlutfallið einungis 10–15%. Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að hlutfall almennra plastumbúða sé allt of lágt á Íslandi og að það muni reynast erfitt að uppfylla markmið Evrópusambandsins um 50% endurvinnsluhlutfall plastumbúða árið 2025. „Við þurfum að gera betur þegar kemur að endurvinnslu umbúða annarra en þeirra sem eru inni í skilagjaldskerfinu og heyrúlluplasts,” segir Birgitta. „Þrátt fyrir aukna umhverfisvitund og mjög mikla umræðu um skaðsemi plasts á lífríki sjávar hefur endurvinnsluhlutfallið breyst mjög hægt.“ Að sögn Birgittu vantar ennþá hvata til að ýta undir meiri flokkun á öðru umbúðaplasti auk þess sem auðvelt þurfi að vera fyrir heimili og fyrirtæki að skila flokkuðu plasti. Þá sé mikilvægt að undirstrika að plastvandinn sé fyrst og fremst magnvandi. „Við þurfum fyrst og fremst að taka á því plastmagni sem er að falla til.“
Ein ástæða þess hversu lítið er um umbúðir eða aðrar vörur úr endurunnu plasti er sú að það er ódýrara fyrir framleiðendur að kaupa nýtt plast en endurunnið. Hvatinn til endurvinnslu er því ekki mikill en því á að breyta. Samkvæmt áherslum Evrópusambandsins í úrgangsmálum eiga 50% af plastumbúðum að endurvinnast árið 2025 og 55% árið 2030. Til að auka endurvinnsluhlutfall er ekki síst mikilvægt að hanna umbúðir þannig að þær séu eins endurvinnanlegar og hægt er. Plastumbúðir eru merktar með þríhyrningi og tölu sem segja til um það hverrar gerðar plastið er. Flokkur 1, 2, 4 og 5 henta vel til endurvinnslu en flokkur 3 (PVC, sem er t.d. notað í plastfilmur og regnföt) og flokkur 6 (frauðplast) eru ekki endurvinnanlegir. Upplýsingar um plastflokka má sjá á ust.is undir grænn lífstíll.
Heimild: Råd og Rön 8/2019 og ust.is
Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.
Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.