Pólýester úr gömlu plasti

Auglýsingaherferðum fataframleiðenda um sjálfbæra tísku er ætlað að fá okkur til að versla með góðri samvisku, en ekki er allt sem sýnist í þessum efnum.

Umhverfisvæn efni á markað

Neytendur eru sífellt að verða upplýstari um neikvæð umhverfisáhrif fataframleiðslu og það kallar á aðgerðir af hálfu seljenda. Alls kyns umhverfisvæn efni eru komin í sviðsljósið, svo sem lífrænt ræktuð bómull, hampur, ananastrefjar og viskós úr pappamassa. Pólýester úr endurunnum flöskum hefur verið hampað sem enn einum valkosti í flóru umhverfisvænna efna. En hversu sjálfbært er það að dæla út ódýrum fatnaði sem er í raun gerður úr plasti, jafnvel þótt það sé endurunnið?

 

Hvað er pólýester?

Pólýester er ódýrt efni sem auðvelt er að meðhöndla og blanda saman við önnur efni og er því mjög vinsælt í fataframleiðslu. Pólýester er slitsterkt, krumpast ekki og hefur litla rakadrægni enda er mest allur íþróttafatnaður úr pólýester eða pólýesterblöndu.

 

Rafmagnsnotkun veigamesti þátturinn

Það er ekki ýkja langt síðan það fóru fyrst að sjást föt úr pólýesterefni endurunnu úr gömlum plastflöskum. Stórir framleiðendur eins og H&M og Lindex hafa gert sér mat úr plastflöskuendurvinnslutískunni. Þannig heitir ein vörulína H&M „Conscious collection“ og er hún gerð úr endurunnum plastflöskum. Lindex auglýsir einnig fatnað sem „sustainable choice“ og fleiri framleiðendur hafa stokkið á þennan vagn. Lífsferilsgreining á fatnaði sem sænskir vísindamenn hafa gert sýnir að framleiðslan á textílnum sjálfum er sá þáttur sem losar mest af gróðurhúsaloftegundum, þ.e. sá þáttur í ferlinu sem snýr að litun textílsins, vefnaði og saumaskap. Það er því nokkuð langt gengið að einblína einungis á efnið í flíkinni og kalla flíkina sjálfbæra. Endurunnið pólýester er ekki endilega umhverfisvænna en pólýester sem unnið er beint úr hráolíu, það skiptir mestu máli hvernig efnið er framleitt.

 

Bjargi heimsins höfum

Í viðleitni sinni við að selja neytendum föt án samviskubits auglýsa seljendur jafnvel að endurvinnsla af þessu tagi bjargi höfum heimsins þar sem verið sé að nýta notað plast sem að öðrum kosti hefði hugsanlega endað á hafi úti. Vissulega væri umhverfisvænt að vinna efni í föt úr plastrusli sem finnst á víðavangi og á strandlengjum, en endurunnið polýester er ekki úr plastrusli heldur úr plastflöskum sem ella hefðu verið endurunnar í nýjar plastflöskur. Eftirspurn eftir plastflöskum til endurvinnslu fyrir pólýesterframleiðslu hefur aukist mikið. Það hefur leitt til þess að nýjar flöskur eru í auknum mæli framleiddar úr hráolíu í stað gamalla flaskna. Það er því verulega hæpið að endurvinnsla á plastflöskum í fatnað hafi nokkuð upp á sig út frá umhverfissjónarmiðum. Reyndar er þekkt að þegar textíll unninn úr plasti er þveginn losna litlar örplastagnir út í skolvatnið og enda úti í lífríkinu. Þessar plastagnir eru taldar ógna lífríkinu enda um aðskotaefni að ræða.

 

Nýtni er góð

Þar sem neytendur verða sífellt meðvitaðri um þá staðreynd að öll neysla er að einhverju leyti óumhverfisvæn þarf ekki að undra að margir vilji leggja sitt af mörkum og velja umhverfisvænsta kostinn hverju sinni. En ekkert er einfalt í þessum efnum og ekki alltaf hægt að treysta fullyrðingum seljenda. Væntanlega er besta ráðið út frá umhverfissjónarmiðum – og einnig með hagsýni í huga – að velja vandaðar flíkur, fara vel með þær og nýta vel og lengi.

 

Birtist í Neytendablaðinu 2. tbl. 2020

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.