Ruslfæðisauglýsingar

Óhófleg koffíndrykkjaneysla og markaðssetning á ruslfæði sem beinist að börnum. Hvað er til ráða?

Börn og ruslfæðisauglýsingar

– mál að linni

Hér í eina tíð náðu auglýsendur helst til barna í gegnum foreldrana, en í dag þarf ekkert að hafa fyrir því. Börn og unglingar hafa meiri fjárráð en áður og eru því eftirsóttur markhópur. Þau hafa líka áhrif á foreldra sína með svokölluðum nölduráhrifum (e. nag factor), sem er þekkt fyrirbæri í markaðsfræðunum. Umræðan um ásókn auglýsenda í börn og unglinga er ekki ný af nálinni. Sérstaklega hefur markaðssetning á ruslfæði verið gagnrýnd og nú hafa sumar þjóðir ákveðið að grípa til aðgerða.

Hér á Íslandi er neysla ungmenna á koffíndrykkjum með því mesta sem þekkist og illa gengur að ráða við vandann. Fyrir liggur að þessi mikla neysla hefur neikvæð áhrif á svefn barna og unglinga eins og kom fram í skýrslu frá 2021 sem Matvælastofnun bað áhættumatsnefnd að vinna fyrir sig. Sjá meira um koffíndrykkjaneyslu hérlendis.

Norðmenn spyrna við fæti

Áhyggjur af mikilli koffíndrykkju barna og unglinga einskorðast ekki við Ísland. Sala á koffíndrykkjum í Noregi hefur tvöfaldast frá árinu 2019 og eru börn og unglingar stór markhópur. Í rannsókn sem norsku neytendasamtökin, Forbrukerrådet, gerðu árið 2021 kom í ljós að nærri helmingur allra unglingsdrengja neytti koffíndrykkja vikulega. Merkja mátti aukningu í neyslu hjá 10–15 ára og meðal stúlkna. Þá sýndi rannsóknin að Monster var vinsælasti koffíndrykkurinn í Noregi og Red Bull sá næst vinsælasti.

Í Noregi íhuga yfirvöld að grípa til aðgerða. Meirihluti norska stórþingsins beindi því til ríkisstjórnarinnar að innleiða bann á markaðssetningu á óhollum mat og drykk til barna yngri en 18 ára. Þetta þýðir að Noregur verður með hvað ströngustu reglurnar á þessu sviði.

Norska stórþingið hefur nú beint því sérstaklega til stjórnvalda að setja 16 ára aldurstakmark á sölu koffíndrykkja. Er vísað til þeirra heilsufarsvandamála sem hlotist geta af of mikilli koffínneyslu og þar á meðal eru neikvæð áhrif á tannheilsu. Þá sýni nýjar rannsóknir að aukna sykurneyslu barna og unglinga megi að hluta skýra með aukinni koffíndrykkjaneyslu.

Forbrukerrådet styður þessa aðgerð og segir Inger Lise Blyverket, formaður samtakanna, að það sé áhyggjuefni hversu mikil og hversdagsleg neyslan sé. Samkvæmt rannsókn Forbrukerrådet drekka 25% barna á aldrinum 10–12 ára koffíndrykki í viku hverri. Það sé ógnvekjandi staðreynd. „Orkudrykkir eru ekki fyrir börn og því ætti ekki að selja þeim þá,“ segir Inger Lise.

Tilkynnt um hertar aðgerðir í Þýskalandi

Í Þýskalandi hefur matvælaráðherrann, Cem Özdemir, tilkynnt um hertar aðgerðir. Valfrjálsar reglur sem matvælaiðnaðurinn setti sér sjálfur hafa ekki virkað og hafa stjórnvöld í hyggju að banna auglýsingar til barna yngri en 14 ára, á mat og drykk sem inniheldur mikið af sykri, fitu og salti. Matvælaráðuneytið áætlar að börn í Þýskalandi sjái að meðaltali 15 ruslfæðisauglýsingar á dag.

Eins og við var að búast brást matvælaiðnaðurinn ókvæða við. Snerist gagnrýni hans ekki síst um að engar áreiðanlegar rannsóknir hafi sýnt fram á áhrif slíks auglýsingabanns á heilsu barna. Þá væri erfitt að meta hvað teljist holllt og hvað óhollt en þýska stjórnin segir að við mat á því hvað teljist óhollt verði notast við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Cem Özdemir matvælaráðherra segir að það sé hlutverk samfélagsins alls, og ekki síst ríkisins, að vernda börn. Hann segir mikinn stuðning við áformin frá samfélaginu öllu. Þá sé seljendum ekkert að vanbúnaði að beina áfram matvælaauglýsingum að börnum svo framarlega sem maturinn sé hollur.

Þess má geta að í Bretlandi hefur staðið til að herða reglur um ruslfæðisauglýsingar sem beint er að börnum en þeim áformum hefur ítrekað verið frestað, nú síðast til 2025. Báru stjórnvöld því við að matvælaiðnaðurinn þyrfti lengri tíma til aðlögunar en ótal samtök sem berjast fyrir bættri lýðheilsu hafa látið megna óánægju í ljós.

Neytendablaðinu er ekki kunnugt um að neinar aðgerðir í þessa veru séu í bígerð hér á landi þótt vissulega sé ekki vanþörf á.

Neytendablaðið haust 2023

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.
Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.