Stafræn sóun

Allar athafnir okkar í hinum stafræna heimi, líkt og í raunheimum, hafa ákveðin umhverfisáhrif.

Lesendur eru eflaust búnir að senda nokkra tölvupósta í dag, renna yfir Facebook og vafra á netinu. Eftir því sem líður á daginn bætist í stafræna sarpinn; fróðleik er flett upp á netinu, fjarfundir haldnir, myndir eru settar á samfélagsmiðla og Netflixþættir spændir upp.

Bylting á sviði upplýsingatækni hefur opnað ótal tækifæri og gjarnan eru færð rök fyrir því að mikill umhverfislegur ávinningur felist í þessari þróun. Sem dæmi má nefna að fjarfundir hafa að töluverðu leyti tekið við af hefðbundnum fundum, kvittanir eru sendar í tölvupósti til að spara pappírsnotkun og fólk getur lesið fréttir á netinu í stað þess að kaupa blöð og tímarit. Það er þó þannig að allar athafnir okkar í hinum stafræna heimi – líkt og í raunheimum – hafa ákveðin umhverfisáhrif.

Gagnaver

Það þarf öflug og orkufrek gagnaver til að varðveita gögn og halda vefsíðum og streymisveitum gangandi. Sífellt fleiri hafa aðgang að alnetinu og flest notum við meira af gögnum í dag en í gær. Það er því ekki að undra að gagnaversiðnaðurinn sé sá orkufreki iðnaður sem vex hvað hraðast í heiminum. Áætlað er að árið 2040 muni geymsla stafrænna gagna valda allt að 14% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Aukin krafa hefur verið um að fyrirtæki knýi gagnaver sín með endurnýjanlegri orku og er þróunin vissulega öll í þá átt en á sama tíma eykst gagnamagnið ár frá ári.

Kolefnisfótspor í stafrænum heimi

Allt sem við gerum á netinu, allt frá því að streyma Netflixþætti að einfaldri „Google-leit“, krefst orkunotkunar og hefur þar af leiðandi kolefnisfótspor. Áætlað er að 2% af losun gróðuhúsalofttegunda í heiminum séu sökum raforkunotkunar alnetsins og gagnageymslu í skýjum. Ef hinn stafræni heimur væri sérstakt land væri það í fimmta sæti yfir þau lönd sem mest losa í heiminum. Gert er ráð fyrir að stafræn losun muni tvöfaldast fyrir árið 2025.

Athafnir okkar í hinum stafræna heimi eiga sér þó ekki stað án tækjanna sem við notum. Ferlið við að framleiða tækin – allt frá námugrefti til förgunar – hefur einnig sitt kolefnisfótspor. Ef kolefnisfótspor tækjanna er tekið með ber hinn stafræni heimur ábyrgð á 4% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, en það er sambærileg losun og vegna allra flugsamgangna.

Bitcoin rafmyntin hefur verið mikið í umræðunni sökum þess hversu mikla orku þarf til að knýja rafmyntina. Samkvæmt greiningu Cambridge-háskóla notar Bitcoin árlega jafn mikla raforku og Svíþjóð eða um 137 teravattstundir.

Tölvupóstar og samskipti

Stafræn neysla hefur mismikil umhverfisáhrif. Til dæmis skilja allir tölvupóstar eftir sig kolefnisfótspor en stærð þess fer eftir gerð tölvupóstsins. Venjulegur tölvupóstur losar 4 g af koldíoxíði (CO2), og tölvupóstur með mynd um 50 g. Að senda 65 tölvupósta losar um það bil jafn mikið og að keyra einn kílómetra á bensínbíl.

Í umfjöllun BBC um stafræna sóun kemur fram að ef allir fullorðnir einstaklingar í Bretlandi fækkuðu tölvupóstum um einn á dag (til dæmis óþarfa „takk fyrir“ skilaboð) væri hægt að spara sem jafngildir losun 3.000 bíla. Frekari leiðir til að draga úr kolefnisfótspori tölvupóstsamskipta eru að skipta viðhengjum út fyrir hlekki og afskrá sig frá ónauðsynlegum tölvupóstlistum. Samkvæmt Cleanfox, fyrirtæki sem aðstoðar neytendur við að eyða ruslpósti, fær meðalnotandi um 2,850 óþarfa tölvupósta ár hvert. Þegar kemur að stafrænum samskiptum er umhverfisvænsti kosturinn að senda SMS. Hver SMS-skilaboð losa um 1,014g CO2. Talið er að skilaboð í gegnum smáforrit eins og Whatsapp eða Facebook Messenger hafi örlítið minni umhverfisáhrif en að senda tölvupóst. Einnar mínútu símtal er orkufrekara en að senda skilaboð en myndbandssímtal eins og Face Time er töluvert orkufrekara en að senda skilaboð.

Það er þó vert að hafa í huga að þegar fjarfundir koma í veg fyrir ferðalög eru þeir töluvert umhverfisvænni. Að sama skapi er umhverfisvænna að lesa fréttirnar á netinu en í dagblaði.

Ráðgjafafyrirtækið Except sýndi hins vegar fram á í rannsókn sinni að undir vissum kringumstæðum getur verið umhverfisvænna að prenta út skjöl  en að lesa þau í tölvunni. Ef notandi ætlar sér einungis að skima yfir skjal er umhverfisvænna að lesa það á netinu. Ef líklegt er talið að skjalið verði lesið oftar en þrisvar eða ef planið er að senda það áfram til annara lesenda getur hins vegar verið umhverfisvænna að prenta það út.

Myndbönd og vefsíður

Samkvæmt frönsku hugveitunni Shift Project bera myndbandsstreymi ein og sér ábyrgð á 1% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og fara um 60% af allri umferð á netinu fram í gegnum streymisveitur eins og Youtube og Netflix.

Þriðjungur af öllum myndbandsstreymum í heiminum eru klámmyndbönd. Kolefnisfótspor þess að streyma klámmyndböndum er svo stórt að það samsvarar kolefnislosun Belgíu. Þriðjungur af kolefnisfótspori myndbandsstreyma er síðan frá streymisveitum eins og Amazon Prime og Netflix, og þá kemur þriðjungur frá Youtube og samfélagsmiðlum eins og Instagram og TikTok.

The Shift Project bendir á að myndveitur séu sérstaklega hannaðar með svo kallaðri fíknihönnun (e. addictive design), með það fyrir augum að erfitt sé að slíta sig frá áhorfi. Til dæmis notar Netflix sjálfvirka spilun (e. autoplay) sem leiðir til þess að lítill sem enginn tími gefst til að hætta áhorfi áður en næsti þáttur byrjar. Samtökin mæla m.a. með því að notendur breyti þessari stillingu til að draga úr kolefnisfótspori myndbandsstreyma.

Í samtali við BBC segir Mike Hazas, prófessor við Uppsalaháskóla, að betra sé að streyma á wifi en 4G. Rannsóknir hafa sýnt að margir nota YouTube sem bakgrunnshljóð við lærdóm eða jafnvel til að sofna. Með því breyta gæðum myndbanda þegar um slíkt „áhorf“ er að ræða eða með því að takmarka slíka óþarfa notkun er hægt að draga úr stafrænu kolefnisfótspori, segir Hazas.

Vefsíður

Samkvæmt Website Carbon losar meðalheimasíða um 1,76 g af koldíoxíði í hvert skipti sem hún er opnuð. Vefsíður eru almennt að verða „þyngri“ sökum aukinnar notkunar á myndum og myndböndum. Þá safna vefsíður í auknum mæli upplýsingum og gögnum um notendur, sem veldur enn stærra kolefnisfótspori. Orkusparneytnara er að fletta upp hlutum í símanum heldur en í tölvu. Jafnframt er mikilvægt að loka gluggum í tölvu sem ekki er verið að nota til að koma í veg fyrir að myndbönd spilist í bakgrunni.

 Það er þannig ýmislegt hægt að gera til að minnka stafræna sóun en þó er vel skiljanlegt að fólki fallist hendur. Það gildir þó í þessu eins og svo mörgu öðru að margt smátt gerir eitt stórt.

Neytendablaðið vor 2022

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.
Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.