Tíska á háhraða

Hraðtíska ýtir undir fatasóun. Oft eru fötin af litlum gæðum og lítil hugsun að baki kaupunum.

Shein var stofnað árið 2008 og hét þá SheInside og ku hafa selt brúðarkjóla, en því neita talsmenn fyrirtækisins í dag. Árið 2012 breytti eigandinn, Chris Xu, um kúrs og hóf að selja tískufatnað með áherslu á unglingatísku og breytti síðan nafninu í Shein. Ólíkt Zöru og H&M er Shein ekki með neinar verslanir, salan fer alfarið fram á netinu. Verðið er svo lágt að undrun sætir og hægt að fá kápur og kjóla fyrir nokkur þúsund krónur. Sjónum er einna helst beint að unglingsstúlkum og hin árangursríka markaðssetning er nær alfarið á samfélagsmiðlum eins og TikTok og Instagram. Áherslan er öll á útflutning og er viðskiptavini Shein að finna í yfir 220 löndum. Langstærsti markaður Shein er í Bandaríkjunum en því næst koma Brasilía, Frakkland og Rússland.

Vinsælasta appið

Velta fyrirtæksins hefur aukist ár frá ári og í fyrra var snjallforrit Shein vinsælasta innkaupa-appið í Bandaríkjunum, og skákaði þar með Amazon. Og vinsældirnar eru engin tilviljun. Shein-appið þykir einstaklega vel hannað, úrvalið af fatnaði og fylgihlutum er langtum meira en almennt gerist og nýjar vörur hellast inn á söluvefinn á áður óþekktum hraða. Fjölbreytileikinn er í fyrirrúmi og stærðir eru allt frá XS-5XL og fötin auglýst af fyrirsætum í öllum stærðum. Í stað þess að leggja áherslu á samstarf við frægt fólk og þekkta áhrifavalda reiðir Shein sig á viðskiptavinina til að auglýsa fyrirtækið. Þeir eru hvattir til að setja inn umsagnir um vörurnar og geta einnig fengið ókeypis vörur gegn því að setja umfjöllun á samfélagsmiðla eins og TikTok, Instagram eða Youtube.

Úr hraða í háhraða

Þróunin í tískuvörugeiranum hefur verið hröð undanfarna áratugi og haldist í hendur við aukna alþjóðavæðingu. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar færðist framleiðsla á þekktum vörumerkjum til landa þar sem launakostnaður var lægri en á Vesturlöndum og lítið fór fyrir vinnu- og umhverfislöggjöf. Kína hefur um áratugaskeið verið það land sem bæði framleiðir og flytur út mest af fötum. Það kann að koma á óvart að í dag er Þýskaland í öðru sæti á heimslistanum yfir fataframleiðendur en það kemst þó ekki með tærnar þar sem Kína hefur hælana.

Spænska tískuvörumerkið Zara fór á sínum tíma úr því að hanna árstíðabundnar tískulínur yfir í að bjóða neytendum upp á stöðugan straum af nýjum fatnaði allan ársins hring. Hugmyndir voru fengnar af sýningarpöllum hátískuhúsanna og framleiðsluferlinu hraðað úr mánuðum í nokkrar vikur. Er talið að hugtakið fast fashion, eða hraðtíska, hafi fyrst verið notað yfir þetta nýja viðskiptamódel Zöru, sem fleiri tískuvörukeðjur tóku síðan upp. Hraðinn átti þó eftir að aukast til muna og nú væri nær að tala um háhraðatísku. Shein hefur tekist að stytta framleiðsluferlið í nokkra daga og kaupir varning af nokkur þúsund fataverksmiðjum. Framleidd eru fá eintök af fjölmörgum flíkum og svo er látið reyna á viðbrögðin. Shein setur allt frá 2.000 til 10.000 nýjar flíkur og tískuvarning á Shein-appið á hverjum degi, sem er margfalt meira úrval en hjá tískurisum eins og Zöru og H&M. Ef ákveðin flík slær í gegn getur Shein gert stærri pantanir jafnharðan en sparar jafnframt á því að framleiða ekki flíkur í miklu magni sem síðan seljast illa.

Aukin vitund en meiri sóun

Svíþjóð er eitt fjölmargra landa þar sem Shein-appið trónir í efsta sæti. Í sænska neytendablaðinu Råd och rön er þeirri spurningu velt upp hvers vegna fyrirtæki sem gerir út á einnota tísku nái svo miklum vinsældum á sama tíma og loftslagsmálin og umhverfisvernd fá sífellt meira vægi hjá neytendum. Emma Samsioe, samskiptafræðingur við háskólann í Lundi, segir í samtali við blaðið að með því að nota samskiptamiðla í markaðssetningu skapi Shein freistandi fantasíuheim. Neytendur, í þessu tilfelli unglingar, séu ekki að kaupa föt vegna þess að þau skorti heldur sér til dægrastyttingar. Þá spillir hið mjög svo lága verð ekki fyrir kaupgleðinni.

Hraðinn í fatageiranum snýr ekki bara að framleiðsluferlinu, þ.e. hversu hratt seljendur geta komið nýjustu tísku og straumum til neytenda, heldur líka að því hversu hratt neytendur skipta út fötum. Þessi þróun hefur mikil og alvarleg umhverfisáhrif í för með sér. Fatabransinn er ábyrgur fyrir meiri losun gróðurhúsalofttegunda en allt flug og allar skipasiglingar í heiminum samanlagt. Sóunin á heimsvísu er líka stórbrotin en hún svarar til þess að fullur sorpbíll af fötum endi á ruslahaug á hverri einustu sekúndu.

Þegar háhraðatískufyrirtæki eins og Shein nær viðlíka árangri fylgja önnur fyrirtæki eðlilega á eftir til að verða ekki undir í samkeppninni. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun, segir Samsioe. Vefsíða Shein gefur lítið upp um starfsemina sjálfa, svo sem aðstæður í verksmiðjum, umhverfisstefnu eða samfélagslega ábyrgð. Hraðtíska, svo ekki sé talað um háhraðatísku, getur aldrei talist umhverfisvæn og vinnuaðaðstæður í slíkum iðnaði eru langt frá því sem sanngjarnt má telja.

Varningur frá Shein er af ýmsum gæðum, eins og við má búast, og eins gerist það að sendingar hverfa eða berast seint og illa. Nokkuð hefur verið kvartað til sænsku neytendasamtakanna vegna sendinga sem aldrei berast og erfitt virðist vera að ná á fyrirtækinu með kvartanir. Hér heima hefur lítið borið á kvörtunum – enn sem komið er í það minnsta. Shein hefur þó numið land og allt eins líklegt að fatasendingar frá fjarlægum löndum streymi til landsins sem aldrei fyrr.

Neytendablaðið vor 2022

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Основна інформація Споживач має право повернути товар та отримати повернення грошових коштів
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.