Varúð myndbreyting

Í Noregi má ekki eiga við myndir í auglýsingum nema upplýsa neytendur.

Merkileg lagasetning tók gildi í Noregi árið 2022 en lögin gera auglýsendum skylt að taka sérstaklega fram ef myndum hefur verið breytt þannig að fyrirsæturnar líta betur út. Myndvinnslan getur falist í breyttum húðlit, sléttari húð, skyggingum og breyttum líkamshlutföllum svo sem lengri leggjum, stærri brjóstum og mjórra mitti. Málið nær aftur til 2019 þegar norski barna- og fjölskyldumálaráðherrann ákvað að leggja umræddar breytingar til. Rökin voru þau að útlitskröfur hefðu mikil áhrif á börn og ungt fólk og með því að merkja auglýsingar með þessum hætti væru neytendur upplýstir um að auglýsing sýnir ekki raunverulegt útlit fólks – útlit sem er jafnvel er óraunhæft.
Neytendablaðið ákvað að forvitnast um málið, sér í lagi hvaða reynsla væri komin á þessa nýstárlegu lagasetningu. Við náðum tali af Marit Evensen, forstöðumanni hjá norsku neytendastofnuninni Forbrukerrådet, sem fer með eftirlit með lögunum.

 

Marit Evensen forstöðumaður hjá Forbrukerrådet.

Eftirlitið snúið

Marit segir að fyrstu sex mánuðina eftir lagasetinguna hafi mikil vinna verið lögð í að kynna nýju reglurnar. Útbúnar hafi verið ítarlegar leiðbeiningar þannig að seljendur þyrftu ekki að velkjast í vafa um það hvaða kröfur væru gerðar. Ekki er því komin mikil reynsla á það hvort fyrirtæki fylgi almennt reglunum og hafa einungis tvö mál komið til kasta stofnunarinnar. Marit segir áhrifavalda kannski þann hóp sem einna helst sé horft til nú því lögin ná líka yfir þá, svo framarlega sem þeir séu á myndum að markaðsetja vöru eða þjónustu.
Aðspurð hvernig hægt sé að hafa eftirlit með því hvort átt hafi verið við myndir eða ekki segir Marit að það geti verið snúið og stofnunin gæti þurft að leita til sérfræðinga sem geta greint hvort átt hafi verið við myndir. Þá hafi einnig komið til tals að nota þar til gert tölvuforrit.

Kicks hættir myndbreytingum

Marit tekur áhugavert dæmi sem sýnir að lögin hafa nú þegar sannað gildi sitt. Þannig hafi stórt fyrirtæki, Kicks, sem selur snyrtivörur, gefið opinberlega út að það muni alfarið hætta að breyta myndum sem notaðar eru í markaðssetningu. Marit segir að þetta sé ekki síst markmiðið með löggjöfinni, þ.e. að þeim auglýsingum fjölgi þar sem ekki sé búið að eiga við útlitið á fyrirsætunum og  að við sjáum meira af „venjulegu“ fólki.

 

Hér má sjá merkið sem skylt er að setja á auglýsingu hafi verið átt við útlit fyrirsætunnar. Samkvæmt lögunum þarf merkið að fylla út í 7% af heildarfleti myndarinnar.

Almenn sátt um lögin

Marit segist ekki vita til þess að nokkurt annað land hafi enn tekið upp sams konar reglur: „Ég veit heldur ekki til þess að slíkt sé í bígerð nokkurs staðar,“ segir Marit, „en löggjöfin hefur vissulega vakið mikla athygli og almenningur í Noregi er sáttur við lögin.“  Hún bætir við að ljósmyndarar hafi verið sá hópur sem einna helst hafði áhyggjur. Þeir mega eftir sem áður breyta myndum, eða öllu heldur fólkinu á myndunum, en ekki nota slíkar myndir í markaðssetningu. Þá hafi verið umræða um að það væri óréttlátt að ekki mætti til dæmis „fjarlægja“ bólu með myndvinnslu. Ekki var hlustað á þessi rök enda eru bólur eitthvað sem allir upplifa og auglýsendum engin vorkunn að nota bóluhyljara og aðrar leiðir sem venjulegt fólk gerir sér að góðu.

Neytendablaðið vor 2023

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Основна інформація Споживач має право повернути товар та отримати повернення грошових коштів
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.