Fréttir

Neytendamálaráðherra svarar

Eflaust vita fæstir hver er neytendamálaráðherra hverju sinni enda fer mjög lítið fyrir neytendamálunum innan stjórnsýslunnar. Við síðustu stjórnarskipti voru neytendamálin færð úr innanríkisráðuneytinu yfir í ráðuneyti ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunarmála og tók Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir við embætti ráðherra. Neytendablaðið ákvað að fræðast nánar um afstöðu ráðherrans  um þennan mikilvæga málaflokk.

Hver verða fyrstu verkefni þín á sviði neytendamála?
Ég stefni að því að flytja Alþingi skýrslu um stöðu neytendamála nú á vorþingi en þar munu koma fram helstu verkefni sem unnið er að og eru í bígerð á næstunni. Verður þetta í fyrsta skipti sem ráðherra neytendamála flytur Alþingi skýrslu um neytendamál.

Finnst þér stjórnvöld hafa sýnt þessum málaflokki nægilegan skilning í gegnum tíðina?
Auðvitað má alltaf deila um það en ég tel að flutningur málaflokksins milli ráðuneyta innan Stjórnarráðsins á undanförnum árum hafi gert það að verkum að hann hafi að einhverju leyti fengið minna vægi en ella.

Verður málaflokknum gert hærra undir höfði nú þegar hann flyst yfir í annað ráðuneyti?
Það er ákveðin samlegð með neytendamálunum og öðrum málaflokkum míns ráðuneytis en neytendamálin eru á skrifstofu með iðnaðar- og nýsköpunarmálum og með því vona ég að fáist betri yfirsýn og skýrari nálgun.

Telurðu að gefa þurfi neytendamálunum meira vægi en verið hefur?
Já. En ég legg áherslu á að það sé á forsendum neytendanna sjálfra þótt stjórnvöld hafi vitaskuld hlutverk líka. Neytendur sjálfir geta stjórnað því mjög hvaða vægi neytendamál hafa.

Hvernig finnst þér íslenskir neytendur standa sig samanborið við t.d. Norðurlöndin? Erum við nógu upplýst og kröfuhörð?
Við getum staðið okkur betur en það hefur samt átt sér stað breyting á undanförnum misserum þar sem fólk er farið að gera meiri kröfur til t.d. merkinga á vörum. Upplýstir neytendur eru öflugri neytendur. Á Norðurlöndunum eru samtök neytenda mjög virk en ég vil leggja mitt af mörkum til að efla samtök neytenda hér á Íslandi, m.a. með því að fela þeim fleiri verkefni í umboði stjórnvalda.

Hversu mikilvægt finnst þér að neytendur séu upplýstir og virkir?
Það skiptir máli að við öll séum virkir neytendur í okkar daglega lífi en þá skiptir líka máli að við séum upplýst um réttindi okkur og þekkjum t.d. reglur sem gilda um leiðir til að leita réttar okkar í samskiptum við seljendur.

Með hvaða hætti er hægt að efla neytendavernd og neytendavitund Íslendinga?
Það er best gert með fræðslu, með stöðugri umræðu um réttindi og kæruleiðir en einnig með endurskoðun og einföldun á ákveðnu leiðakerfi fyrir neytendur hér á landi varðandi hvert skal leita með ágreiningsefni. Seljendur ættu að gera sér grein fyrir virði þess að hafa ánægða viðskiptavini og neytendur – það þurfa neytendur að sýna seljendum.

Hvernig neytandi er nýr ráðherra neytendamála?
Ætli ég sé ekki bara heldur hefðbundinn neytandi. Ég skoða hvað hlutirnir kosta, allt sem ég kaupi, hvort sem það er matur eða önnur vara. Ég vil vita um uppruna vöru, m.a. þess vegna kaupi ég íslenska matvöru þegar ég hef kost á því. Okkur vantar oft upplýsingar um uppruna matar og aðstæður hjá þeim sem búa til vöru til dæmis. Ég myndi líklega versla með öðrum hætti ef ég hefði betri upplýsingar um þetta.

Á hvaða sviðum ertu góður neytandi og á hvaða sviðum mættirðu taka þig á?
Þar sem ég mætti taka mig á er maðurinn minn reyndar öflugri og öfugt. Svo saman erum við ágætir neytendur á heimilinu, ég í matvöruverslunum til dæmis og hann í tryggingum og öðru.

Neytendablaðið 1. tbl 2017

Fréttir í sama dúr

Smálánabaráttan

Framboð til stjórnar og formanns

Nýtt símkerfi

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.