Rannsóknir og skýrslur

Á þessari síðu eru birtar ýmsar rannsóknir og skýrslur sem Neytendasamtökin hafa gert eða látið gera. Skýrslurnar og rannsóknirnar fjalla um ýmiss mikilvæg neytendamál eins og vátryggingar, leigjendamál, hugsanlegan ávinning af ESB aðild og gjaldtöku fjármálafyrirtækja svo dæmi séu nefnd.

Kvartanir vegna hækkana á gjöldum og nýrra þjónustugjalda bankanna berast reglulega til Neytendasamtakanna, en samtökin hafa fylgst með verðlagi bankaþjónustu um áraraðir. Nýlega hefur athyglin beinst að nýjum gjöldum fyrir þjónustu í útibúum og tilhneigingu banka til að beina viðskiptamönnum í rafræna sjálfsafgreiðslu. Bankarnir hafa þá spurt hvort allir viðskiptavinir eigi að bera kostnaðinn vegna þeirra sem ekki nýta hagkvæmustu leiðirnar í bankaþjónustu.

Verðskrár bankanna eru margar blaðsíður með gjaldaliðum í hundraðatali þannig að erfitt er fyrir neytendur að átta sig á hvaða viðvik eru gjaldfærð og hver ekki, en ljóst er að fleiri og fleiri viðvik bankans eru orðin að gjaldliðum. Það er svo álitamál hvað er sjálfsögð þjónusta og hvort ekki sé þegar rukkað fyrir hana með vaxtamuni á inn- og útlánum.

Neytendasamtökin hafa því rýnt í verðskrár þriggja banka, Arionbanka, Íslandsbanka og Landsbanka á 7 ára tímabili. Eingöngu voru skoðaðir algengir þjónustuliðir fyrir neytendur og atriði sem mikið hefur verið kvartað til samtakanna vegna, eins og kostnaður vegna geymsluhólfa og gjafakorta.

Á síðustu sjö árum hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp 50% og þar hafði hrunið árið 2008 mikið að segja en vísitalan hækkaði „aðeins“ um 15% á síðustu fjórum árum. Þó einhver gjöld hafi hækkað minna og jafnvel sum staðið í stað, hafa alltof mörg gjöld hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs.

Sjá skýrslu:
gjöld,gjöld,gjöld

FRÉTTATILKYNNING:
Matvæli sem innihalda erfðabreytt efni seldar í verslunum án lögboðinna merkinga

Ný rannsókn sýnir að all margar matvörur sem innihalda erfðabreytt efni eru seldar í verslunum hér á landi án þess að um það sé getið á vörumerkingum. Frá og með síðustu áramótum tók gildi reglugerð sem kveður á um að merkja skuli matvæli sem innihalda erfðabreytt efni.

Neytendasamtökin, Matvæla- og veitingafélag Íslands og Náttúrulækningafélag Íslands könnuðu nýverið úrval amerískra matvæla í helstu matvöruverslunum  höfuðborgarsvæðisins. Valdar voru 12 vörutegundir sem talið var hugsanlegt að innihaldi erfðabreytt efni.  Til þess að ganga úr skugga um hvort svo væri voru sýni send til greiningar í rannsóknarstofu Genetic-ID í Þýskalandi1.

Í ljós kom að níu af þessum 12 vörutegundum reyndust innihalda erfðabreytt efni en ekki er tilgreint um erfðabreytt innihald þeirra á vörumerkingum þrátt fyrir að það sé skylt.  Þessar níu vörutegundir eru: 

Shop Rite Corn Flakes (morgunkorn)
Pop Corners (snakkflögur)
Doritos Cool Ranch Tortilla Chips (snakkflögur)
Maís Hveiti (bökunarmjöl)
EAS Advent (súkkulaðidrykkur ætlaður líkamsræktarfólki)
Mass Muscle Gainer (orkudrykkur ætlaður líkamsræktarfólki)
Zone Perfect (orkubiti)
EAS Advanced Edge (orkubiti)
EAS Lean 15 (orkubiti)

Niðurstöður í töflu:

erfdmerkt

Frá og með  1. janúar 2012 hefur verið skylt að merkja matvæli og fóður sem innihalda erfðabreytt efni. Almannasamtök hafa fengið vísbendingar um að innflytjendur láti hjá líða að uppfylla þessar skyldur, einkum varðandi vörur frá Norður Ameríku. Bandarísk stjórnvöld krefjast ekki merkinga erfðabreyttra matvæla og því þurfa innflytjendur að láta greina allar matvörur þaðan til þess að ganga úr skugga um hvort þau innihaldi erfðabreytt efni. Samtök bandarískra matvælavinnslufyrirtækja (GMA) áætla að allt að 80% unninna matvæla innihaldi erfðabreytt efni. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem soja og maís eru notuð í flest unnin matvæli, en um 90% allrar sojauppskeru og 85% maísuppskeru í Bandaríkjunum eru talin vera erfðabreytt.

Innflytjendur bera ábyrgð á því að tilgreina matvæli og fóður sem innihalda erfðabreytt efni svo að söluaðilar geti komið þeim upplýsingum á framfæri í vörumerkingum. Innflytjendur sem bregðast þessari lagalegu skyldu sinni svipta með því neytendur valfrelsi sínu. Vaxandi fjöldi neytenda velur matvæli á grundvelli heilbrigðis- og hollustusjónarmiða, en heilsufarsáhrif erfðabreyttra matvæla verða æ umdeildari eftir því sem óháðum vísindarannsóknum á þessu sviði fleygir fram.

Matvæla- og veitingafélag Íslands
Náttúrulækningafélag Íslands
Neytendasamtökin

1Genetic-ID er heimsþekkt fyrir greiningar á erfðabreyttum efnum fyrir opinbera aðila og einkafyrirtæki og rekur rannsóknarstofur í Evrópu, Japan og Norður-Ameríku. Genetic-ID á aðild að Global Laboratory Alliance sem tryggir samræmdar hágæða PCR greiningar á erfðabreyttum afurðum
(sjá t.d. 
www.genetic-id.com).  

Kílóverð á fiski er einnig fyrir vatn og umbúðir

Kvartanir neytenda um óeðlilega rýrnun á frystum fiski við afþíðingu og eldun berast reglulega til Neytendasamtakanna. Því ákváðu samtökin í maí sl. að láta gera úttekt á gæðum frosins fisks í stórmörkuðum og var Matís fengið til að sjá um framkvæmdina. Niðurstöður liggja nú fyrir og gefa þær til kynna að víða er pottur brotinn.

Helstu niðurstöður
Þyngd fiskvara: Fyrir þau sýni sem könnuð voru náði nettóþyngd fisks ekki merktri þyngd. Kaupendur eru því að borga fyrir umbúðir, íshúð og hrím í umbúðum á sama kílóverði og fyrir fiskinn.

Íshúð var aðeins til staðar á sumum sýnanna. Íshúðin var í samræmi við upplýsingar á umbúðum tveggja sýnanna en var meiri en gefið er upp á umbúðum á einu sýni.

Raunhæfur verðsamanburður neytenda á þessari vöru er í raun útilokaður þegar frosinn fiskur sem er í boði er ýmist án íshúðar eða með mismikilli íshúð og íshúðin vigtuð með.

Nýting fisksins við suðu var á bilinu 69-79%. Þegar íshúð og vatnstap við afþíðingu var tekið með í reikninginn varð nýtingin 50-79%. Þegar nýtingin er aðeins 50% þýðir það að aðeins helmingurinn af keyptum fiski endar á diski neytandans.

Notkun aukefna og salts: Magn fosfata í frysta fiskinum var undir hámarksgildi sem sett er í reglugerð. Í einu sýni greindist þrífosfat og er það vísbending um að fosfati hafi verið bætt í fiskinn við vinnslu í þeim tilgangi að binda vatn í fiskholdinu. Salt í sjö sýnum var á bilinu 0,1-0,4% og má telja það náttúrulegt salt í fiskholdinu. Í tveimur sýnum var salt á bilinu 0,7-2,0% og bendir allt til að þessi sýni hafi tekið upp salt, t.d. við kælingu í ískrapa með salti. Þegar salt nær 2% er í raun um léttsaltaða vöru að ræða.

Merkingar á geymsluþoli og næringargildi fyrir sumar vörurnar voru ekki í samræmi við reglugerðir um matvæli.

Framkvæmdin
Kannaður var frystur og pakkaður fiskur í frystiborðum stórmarkaða. Farið var í fjóra stórmarkaði; Krónuna, Bónus, Nóatún og Hagkaup. Alls voru 9 sýni keypt í fyrri áfanga (júlí) og 7 sýni af sömu fiskvörum fundust í seinni áfanga úttektarinnar (nóvember). Fjögur sýni voru af ýsu, tvö af þorski og eitt af laxi og lúðu og á einu sýni var fisktegund ekki merkt. Mælingum og aðferðum við rannsóknina er lýst í skýrslunni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið styrkti úttektina að huta.

Geymsluaðferð
Frystur fiskur er framleiddur með tvennum hætti. Fersk flök eru sett í plastumbúðir fyrir frystingu (blokkir) og plastfilman ver fiskinn fyrir þornun. Önnur leið er að lausfrysta flök eða bita og hver biti frystur án umbúða. Eftir lausfrystingu er bitunum rennt í gegnum vatnsbað. Oftast er lausfrystur fiskur íshúðaður en íshúðin sem myndast ver flökin fyrir þornun og er oftast 6-10% af heildarþyngd. Vel íshúðaður fiskur er gæðamerki, það er ekki fyrr en neytandinn er látinn borga fyrir vatnið sem íshúðin fær neikvæða merkingu.

Merkingar
Það er ekki fjallað sérstaklega um íshúð eða hrím í íslenskri löggjöf. Neytendasamtökin telja eðlilegt að íshúð sé skilgreind sem hluti af umbúðum enda er hún nauðsynleg til geymslu á fiski og ver hann gegn þornun og þránun. Að mati samtakanna á nettóþyngd frosins fisks því að vera án íshúðar. Í skýrslu Matís kemur fram að samkvæmt viðurkenndum viðmiðum eigi íshúð ekki að telja með sem hluta af nettóþyngd matvæla.

Næstu skref
Skýrsla Matís sýnir vel að fótur er fyrir þeim ótal mörgu kvörtunum sem Neytendasamtökunum berast. Hins vegar er ekki skýrt í lögunum að íshúð skuli dregin frá þyngd vörunnar því hún flokkist sem umbúðir. Í smíðum er ný reglugerð Evrópusambandsins um merkingar á matvælum þar sem fram mun koma að nettóþyngd vöru skuli vera tilgreind án íshúðar. Innleiðing reglugerðarinnar mun hins vegar taka tíma og því er mikilvægt að gerðar verði breytingar á lögum og/eða reglugerð þannig að skýrt verði að íshúð beri ekki að telja með í nettóþyngd vörunnar. Neytendur eiga rétt á því að fá skýrar upplýsingar um hvað varan er þung og hvað þeir greiða fyrir vöruna í raun og veru.

Sjá skýrslu Matís (PDF)
Svindlað á neytendum?

Neytendasamtökin hafa látið skoða ákveðna þætti varðandi neytendatryggingar, nánar tiltekið skaðatryggingar, út frá þeim vátryggingaerindum sem borist hafa samtökunum. Tilgangur verkefnisins var aðallega að greina vandann og hafa frumkvæði að úrbótum. Í ljós kom að hlutverk og verkaskipting eftirlitsstofnanna varðandi eftirlit með vátryggingaskilmálum og markaðssetningu er töluvert óljós og hefur það sett framkvæmd verkefnisins úr skorðum. Gerð er því grein fyrir dæmum um það sem betur mætti fara í þessari skýrslu, í því skyni að bera svo málin undir þar til bærs aðila þegar eftirlitshlutverkin skýrast. Vandamálin sem bent er á eru dæmi og geta (því miður) komið fyrir hjá fleirum félögum þó svo að einungis eitt sé nefnt.

Skýrslan í heild sinni

Vegna fjölda fyrirspurna, og þess að rík þörf virðist á upplýsingum um húsaleiguverð, hafa Neytendasamtökin gert nýja könnun á leiguverði, en síðast var slík könnun gerð í febrúar 2010.

Í töflunni hér að neðan má sjá meðalverð á þeim íbúðum sem boðnar voru til leigu hinn 26. júlí sl. Einungis var kannað verð á leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu (þ.e. Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Álftanesi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ) en gera má ráð fyrir að leiguíbúðir annars staðar séu heldur ódýrari. Þá er ekki um að ræða tæmandi könnun á markaðnum heldur voru einungis skoðaðar íbúðir sem eru auglýstar til leigu hjá leiga.is, Leigulistanum, á mbl.is og visir.is.  Sumar eignanna eru auglýstar á tveimur eða fleiri stöðum, en gætt var að því að telja aðeins hverja eign einu sinni. Einungis voru kannaðar íbúðir á frjálsum markaði, en ekki tekið tillit til félagslegra íbúða, námsmannaíbúða eða íbúða fyrir eldri borgara. Ekki er tekinn með í reikninginn kostnaður sem kann að skapast vegna rafmagns, hita eða hússjóðs, heldur einungis leiguverðið sjálft. Ekki var heldur tekið tillit til þess hvort einhver húsbúnaður fylgdi með í leigunni. Þá er ekki gerður greinarmunur á því hvort íbúðin er í fjölbýli, raðhúsi eða einbýli heldur er einungis farið eftir herbergjafjölda. Miðað er við ásett verð í auglýsingum, vitaskuld er hugsanlegt að í einhverjum tilvikum sé samið um annað verð, en í verðkönnunum á vöru og þjónustu er  óhjákvæmilegt annað en miða við ásett auglýst verð og reikna með að það sé hið rétta.

Meðalstærð

Meðalverð 
júlí 2010

Meðalverð 
feb. 2010

Hæsta 
verð

Lægsta 
verð

Miðgildisverð

Fjöldi eigna 
í könnun

Meðal fm.verð 
júlí 2010

Meðal fm.verð 
feb. 2010

Stúdíó

37 fm.

75.188

76.014

95.000

35.000

76.500

16

2.032

1.900

2 herb

65 fm.

107.122

100.692

159.000

55.000

109.500

82

1.646

1.678

3 herb

90 fm.

133.138

124.178

220.000

70.000

130.000

94

1.472

1.411

4 herb

120 fm.

158.783

146.603

325.000

120.000

150.000

60

1.325

1.275

5 herb

159 fm.

198.700

173.739

350.000

119.000

185.000

20

1.253

1.066

 

 

 

 

 

 

samtals

272

 

Eins og sjá má af töflunni hefur húsaleiga hækkað frá því síðasta könnun var gerð og á það við um allar stærðir eigna, að stúdíóíbúðum frátöldum. Ef einungis er litið til fermetraverðs hafa tveggja herbergja íbúðir lækkað í verði en hækkun annarra eigna er á bilinu 3,9 til 17,5% og hafa stærstu eignirnar hækkað mest.

Meðal fm.verð 
júlí 2010

Meðal fm.verð 
feb. 2010

Breyting í %

 

stúdíó

2.032

1.900

6,9

Hækkun

2 herb.

1.646

1.678

-1,9

Lækkun

3 herb.

1.472

1.411

4,3

Hækkun

4 herb.

1.325

1.275

3,9

Hækkun

5 herb.

1.253

1.066

17,5

Hækkun

 

Eftirfarandi mynd sýnir svo þróun auglýsts leiguverðs frá þeim tíma sem Neytendasamtökin gerðu fyrst könnun á þessum markaði í apríl 2008:

Af myndinni má sjá að leiguverð hefur hækkað nokkuð þó það hafi ekki náð þeim hæðum sem það var í á vordögum 2008. Hafa þarf þó í huga að yfirleitt er leiguupphæð háð breytingum með tilliti til vísitölu eða annars og því má ætla að þeir sem tóku fasteignir á langtímaleigu vorið 2008 séu nú að borga umtalsvert meira en lesa má úr töflunni.

Til að fá mynd af leigumarkaðnum er einnig gagnlegt að líta til fermetraverðs en t.a.m. eru tveggja og fjögurra herbergja íbúðir sem kannaðar voru nú að meðaltali talsvert stærri en þær sem voru skoðaðar í síðustu könnun. Því segir leiguverðið eitt og sér ekki alla söguna. Af myndinni hér að neðan má sjá að fermetraverð allra eigna, að undanskildum tveggja herbergja, hefur hækkað nokkuð þó það hafi ekki náð því verði sem tíðkaðist vorið 2008. Svo virðist sem lágmarksfermetraverði hafi verið náð vorið 2009 en fari nú aftur hækkandi:

Til gamans má svo sjá hér mun á fermetraverði þriggja og fjögurra herbergja íbúða eftir nokkrum póstnúmerum innan höfuðborgarsvæðisins. Hafa ber í huga að úrtökin eru lítil (4 til 17 eignir eftir póstnúmerum) og gefa því ekki tæmandi mynd af leiguverði innan tiltekins svæðis þó þau kunni að gefa vísbendingar. Ekki voru tekin með í þessari skoðun þau póstnúmer þar sem fáar eignir voru boðnar til leigu, þó vitaskuld séu þær eignir með í leiguverðskönnuninni.

Að endingu er vert að taka fram að Neytendasamtökin, sem þó fá fjölda erinda og fyrirspurna vegna húsaleigumála, eru ekki leigjendasamtök enda sjaldnast um neytendaviðskipti að ræða. Eins og Neytendasamtökin hafa áður bent á er mjög mikilvægt að bæta úr upplýsingagjöf og aðstoð handa leigjendum.

Deildu: