Fréttir

Réttur til að afpanta pakkaferðir

Farið er að bera á fyrirspurnum frá þeim sem eiga bókaðar pakkaferðir á næstunni og því er rétt að fara yfir réttindi farþega pakkaferðalanga á tímum kórónuveirunnar, en þau eru nokkuð vel skilgreind í lögum (sjá hér).

Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Stundum getur verið nokkurt álag á símkerfið og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvupóst (ns@ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér

Lögin eiga við ferðir sem innihalda a.m.k. tvær ferðatengdar þjónustur, svo sem flug og hótel, eða flug og viðburð. Í 15. gr. laganna er fjallað um afpöntun pakkaferðar og segir þar eftirfarandi:

Ferðamaður getur afpantað pakkaferð áður en ferðin hefst gegn greiðslu sanngjarnrar þóknunar. Í samningi um pakkaferð er heimilt að tilgreina sanngjarna þóknun fyrir afpöntun ferðar sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.
Sé ekki kveðið á um staðlaða þóknun vegna afpöntunar í samningi um pakkaferð skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.

Skipuleggjandi eða smásali á ekki rétt á greiðslu þóknunar af hendi ferðamanns ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar, eða verðhækkunar umfram 8%, sbr. 12. gr. Ferðamaður á ekki rétt til frekari skaðabóta við aðstæður skv. 3. mgr.

Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða ferðamanni greiðslur sem honum ber skv. 1.–3. mgr. innan 14 daga frá afpöntun.

Ferðalangur getur á grundvelli ákvæðisins að jafnaði afpantað pakkaferð áður en hún hefst, gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar, oft staðfestingargjaldi. Ferðaskrifstofan á aftur á móti ekki rétt á umræddri þóknun ef afpöntun byggist á óvenjulegum aðstæðum sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar. Auk þess er kveðið á um að endurgreiðsla skuli berast innan 14. daga frá afpöntun.

Meta þarf hvert mál fyrir sig hvort að ferðamenn geti afpantað pakkaferðir gegn fullri endurgreiðslu, en þar getur skipt máli með hversu löngum fyrirvara ferðamaður tilkynnir um afbókun, hverjar aðstæður eru í komulandi ásamt því hver staðan er við heimkomu hér á landi (með tilliti til sóttkvíar o.s.frv.).

Nokkur mál hafa komið til kasta Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa þar sem nefndin hefur úrskurðað m.a. um hvort að ferðamenn hafi verið heimilt að afpanta fyrirhugaðar pakkaferðir í fyrra. Má þar t.d. nefna úrskurð í máli sem kveðinn var upp þann 4. september 2020 þar sem fjölskylda átti pantaða pakkaferð til Ítalíu þann 29. febrúar 2020 en með tölvupósti degi fyrir (þann 28. febrúar 2020) lýsti fjölskyldan yfir afpöntun og fór fram á endurgreiðslu á ferðinni. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu með hliðsjón af öllum atvikum málsins að aðstæður á Ítalíu hafi við upphaf ferðarinnar verið óvenjulegar og óviðráðanlegar í skilningi laga um pakkaferðir og því heimilt að afpanta ferðina án greiðslu þóknunar. Héraðsdómur komst að sömu niðurstöðu og var ferðaskrifstofunni gert að endurgreiða ferðina.

Í máli nr. 73/2020 komst nefndin hinsvegar að þeirri niðurstöðu að ferðamenn sem áttu bókaða pakkaferð um miðbik júnímánaðar 2020 en afbókuðu hana með tæplega 3 mánaða fyrirvara ættu ekki rétt á fullri endurgreiðslu. Var þá sérstaklega litið til þess að ferðamaður afpantaði ferðina með svo löngum fyrirvara:

„[…]Sóknaraðili afpantaði ferðina þann 26. mars 2020 þegar tæplega þrír mánuðir eða 84 dagar voru þar til ferðin átti að hefjast þann 18. júní 2020. Þegar langt er í upphafsdag ferðar getur verið erfiðleikum háð að slá því föstu hverjar aðstæður muni raunverulega verða á áætluðum upphafsdegi ferðarinnar enda geta aðstæður breyst án fyrirvara. Ekki er unnt að fallast á það að fyrir hafi legið með óyggjandi hætti, þann 26. mars 2020, að þær óvenjulegu og óviðráðanlegu aðstæður sem höfðu skapast vegna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins, hefðu haft áhrif á framkvæmd pakkaferðarinnar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar tæplega þremur mánuðum síðar[…].“

Neytendasamtökin vilja halda til haga að lítið hefur þó reynt á framangreint ákvæði og þar með óljóst nákvæmlega með hversu löngum fyrirvara unnt er að bera því fyrir sig, þ.e. hvort unnt sé að afpanta ferðir á grundvelli ákvæðisins sem fyrirhugaðar eru eftir mánuð eða viku.

Telji farþegar aðstæður vera þannig að það ætti að heimila afbókun þá vilja Neytendasamtökin benda á mikilvægi þess að hafa samskipti skrifleg, til að draga úr hættu á misskilningi. Hér er dæmi um orðalag erindis sem senda má ferðaskrifstofu, vilji pakkaferðalangur hætta við ferð sína:

Góðan dag.
Ég, (nafn) (kennitala) á bókaða pakkaferð með (ferðaskrifstofu) þann (dagsetning ferðar) til (áfangastaður), bókunarnúmer: (….) Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú er uppi tilkynni ég ykkur hér með um afpöntun á framangreindri ferð á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Ég tel fullljóst að umræddar aðstæður séu óvenjulegar , óviðráðanlegar og hafi veruleg áhrif á framangreinda ferð. Skipuleggjandi ferðar á þar með ekki rétt á greiðslu neinnar þóknunar vegna afpöntunar á grundvelli 3. mgr. 15. gr.  
Full endurgreiðsla skal skv. 5. mgr. 15. gr. sömu laga berast innan 14 daga og óska ég eftir að hún verði greidd inn á eftirfarandi reikning: (Bankaupplýsingar)
Afrit sent Neytendasamtökunum til upplýsingar (ns@ns.is).
Virðingarfyllst,
(nafn)

Vilji svo til að ferðaskrifstofa hafni að endurgreiða á grundvelli framangreinds ákvæðis getur ferðalangur kannað önnur úrræði, svo sem að skjóta málinu til Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.

Eingöngu flugferðir
Um réttindi flugfarþega gildir að ef flugfélag aflýsir flugi vegna ástandsins, á farþegi rétt á fullri endurgreiðslu farmiða, en þó ekki skaðabótum.

Hætti farþegi hættir við flug á eigin forsendum, myndast ekki bótaréttur og ekki réttur á endurgreiðslu farmiða fyrir utan skatta og gjöld. Þá þarf að leita í greiðslukorta- eða heimilistryggingar. Flestar „betri“ tryggingar og kortaskilmálar innihalda klausu sem er eitthvað á borð við að sé komið í veg fyrir ferð vegna hafta sem yfirvöld setja er tjón farþega bætt. Á vefsetrum tryggingafyrirtækja má víðast hvar finna ágætis upplýsingar um kórónutengd mál sem kunna að koma upp og tengjast tryggingum: SjóváTMVÍS og Vörður.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.