Fréttir

Sjálfbær neysla

Alþjóðadagur neytendaréttar
Alþjóðadagur neytendaréttar er haldinn hátíðlegur þann 15. mars á hverju ári. Upphaf hans má rekja til John F. Kennedy Bandaríkjaforseta sem, þann 15. mars árið 1962, varð fyrstur þjóðarleiðtoga til að lýsa því formlega yfir að neytendur hefðu grundvallarréttindi. Síðan þá hefur dagurinn verið helgaður baráttunnni fyrir bættum neytendarétti og markmið dagsins ekki síst að vekja stjórnvöld og almenning til umhugsunar um neytendarétt og neytendamál yfir höfuð.

Neysluóhóf
Ef allir jarðarbúar hefðu sama lífsstíl og meðalmanneskja í Vestur-Evrópu dygði ein pláneta skammt. Þær þyrftu að vera þrjár. Á sama tíma býr um milljarður manna í sárri fátækt og hefur ekki aðgang að lágmarksgæðum til að tryggja mannsæmandi lífsskilyrði.

Til þess að vernda jörðina og tryggja sambærileg lífsgæði fyrir komandi kynslóðir þarf að endurhugsa hvernig við neytum. Mikilvægt er að val um sjálfbæra neyslu sé hið auðvelda val. Nauðsynlegt er að vinna stöðugt að því að minnka misskilning um sjálfbæra neyslu með því að tryggja að framleiðendur, seljendur og stjórnmálamenn geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi og endingu á vörum.   

Hvað geta neytendur gert?
Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað á undanförnum árum og neytendur gera sér orðið grein fyrir því að þeir leika lykilhlutverk í því að stuðla að breytingum. Neytendur geta haft áhrif allt eftir því hvaða vörur og þjónustu þeir velja, hvernig þeir neyta þeirra og hvernig þeir velja að losa sig við vörur þegar líftíma þeirra er lokið ásamt því að þrýsta á um breytingar í regluverki sem hefur áhrif á framleiðsluhætti.

Eftirspurn eftir sjálfbærum vörum fer vaxandi – sér í lagi meðal ungra neytenda. Samkvæmt könnun frá markaðsrannsóknafyrirtækinu Nielsen kváðust 66% svarenda vera viljug til að greiða hærra verð fyrir vörur sem væru sjálfbærar, eða umhverfisvænni en ella. Þrátt fyrir það sýna aðrar kannanir að raunverulegt hlutfall kaupa á sjálfbærum vörum er á milli 20%-30% af heildarkaupum.

Almennt séð er sjálfbært val ekki auðvelt fyrir neytendur og það krefst nokkurrar rannsóknarvinnu af þeirra hálfu að finna út hvaða kaup eru hagstæðust með sjálfbærni í huga. Neytendur hafa þó mikil áhrif og geta stuðlað að sjálfbærari lausnum. Þannig hafa Alþjóðasamtök neytenda t.d. bent á að ef neytendur kaupa margnota vatnsflöskur ættu þeir að þrýsta á stjórnvöld og fara fram á frítt vatn til að fylla á flöskurnar. Þegar fleiri staðir fara að bjóða upp á endurgjaldslaust vatn munu fleiri neytendur kaupa margnota vatnsflöskur.

Orka og matur
Aðgangur að orku er mikilvægur fyrir neytendur en orkuframleiðsla veldur stærstum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda. Í vanþróaðri löndum heimsins hefur fjöldi fólks engan aðgang að orku. Í Afríku hafa einungis um 40% aðgang að orku og um þrír milljarðar manna á heimsvísu treysta á heilsuspillandi orkugjafa.

Þróunin hefur þó verið á þann veg að endurnýjanleg orka fer vaxandi í heiminum og nú er um þriðjungur orku framleiddur af endurnýjanlegum orkugjöfum.

Neytendur þurfa að hafa auðvelt aðgengi að öruggri, sjálfbærri og ódýrri orku, auk upplýsinga um það hvernig þeir geta dregið úr orkunotkun sinni.

Matvælaiðnaðurinn losar 37% af öllum gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Matvælaframleiðsla, sér í lagi kjötframleiðsla, er mjög orkufrek, veldur skógeyðingu, losar mikið magn gróðurhúsaloftegunda og krefst mikillar vatnsnotkunar. Nútíma landbúnaður og búfjárrækt hefur víða haft neikvæð áhrif á fjölbreytileika lífríkis. Af þeim 6.000 plöntutegundum sem ræktaðar eru til matar standa aðeins níu tegundir undir 66% af heildaruppskeru í heiminum.

Neytendur geta stuðlað að aukinni sjálfbærni með því að kaupa mat úr nærumhverfinu, minnka neyslu á dýraafurðum og þrýsta á framleiðendur að notast við sjálfbærari framleiðsluaðferðir.

Úrgangur eykst
Að meðaltali framleiðir hver manneskja 0,74 kg af úrgangi á degi hverjum. Gert er ráð fyrir að úrgangur á heimsvísu muni tvöfaldast fyrir árið 2050 og verði þá um 3,4 milljarða tonna á ári. Þá er talið að 30%–40% af öllum matvælum sé hent eða sóað. Á heimsvísu hafa einungis 9% af öllu plasti verið endurunnin, 79% hafa farið í urðun, á ruslahauga eða endað í umhverfinu og 12% hafa endað í brennslu.

Fræðimenn hafa áhyggjur af plasti í raftækjaúrgangi (e-waste), en á hverju ári falla til um 50 milljónir tonna af raftækjaúrgangi. Gert er ráð fyrir að þessar tölur muni hækka í allt að 120 milljónir tonna fyrir árið 2050. Gömlum raftækjum fylgir mikið magn eiturefna sem losnar úr tækjum og spillir jarðvegi á urðunarstað og skapar hættu fyrir fólk sem þarf að meðhöndla úrganginn. Rannsókn ein leiddi í ljós að á svæði þar sem unnið er með raftækjaúrgang í Afríkulandinu Ghana var magn skaðlegra efna í eggjum margfalt það sem talið er viðunandi. Ábyrg endurvinnsla á raftækjum er því nauðsynleg til að minnka mengun í umhverfi urðunarstaða en einnig er mikilvægt að endurvinna verðmæti eins og þungmálma sem notuð eru í raftækjum.

Ítölsku neytendasamtökin Altroconsumo gerðu tilraun með 200 neytendum, þar sem samtökin settu GPS staðsetningartæki á raftæki sem neytendurnir ætluðu að losa sig við. Í ljós kom að þrátt fyrir að neytendur töldu sig vera að losa sig við tækin á ábyrgan hátt var 40% af tækjunum sem fylgst var með ekki skilað í réttan endurvinnslufarveg. Þessi rannsókn staðfesti að þörf er á betri úrræðum og fræðslu varðandi förgun á raftækjum. Í kjölfarið funduðu ítölsku neytendasamtökin með ítalska umhverfisráðuneytinu um bætta og skilvirkari endurvinnslu á raftækjum.

Kallað eftir breytingum
Samkvæmt könnun sem gerð var af Nielsen segjast 73% neytenda vilja breyta neyslu sinni og venjum til að takmarka umhverfisáhrif. Þó eru til staðar hindranir á slíkum neyslubreytingum – hátt verð, aðgangur og ruglingslegar upplýsingar. Til þess að neytendur geti tekið upp umhverfisvænni neysluhegðun þurfa þeir aðgang að sjálfbærari lausnum og betri upplýsingum. Þá þurfa innviðir að styðja við breytta neysluhegðun neytenda. Framleiðendur, smásalar og stjórnvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að eins öruggar, endingargóðar og umhverfisvænar vörur og hugsast getur séu í boði. Val um sjálfbæra neyslu þarf að vera hið augljósa og einfalda val neytenda.

Fréttir í sama dúr

Neytendur upplýstir um vöruskerðingu- ný lög í Frakklandi

Ósanngjarnar kröfur Isavia vegna Base Parking

Arðsemisþak á raforku til heimila

Bannað að auglýsa dýr lán

Þetta þarftu að vita um Temu

Tímamótadómur EFTA-dómstólsins

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.