Fréttir

Smáaletur Hlíðarfjalls skoðað

Nú standa vetrarfrí grunnskólanna sem hæst og bregða margir sér á skíði innanlands þegar ekki er mikið um skíðaferðir utan lands.

Neytendasamtökunum hefur borist fjöldi fyrirspurna um samningsskilmála Hlíðarfjalls sem snýr að óviðráðanlegum atvikum. Á heimasíðu Hlíðarfjalls segir eftirfarandi um miðasölu og hvernig uppgjöri er háttað ef óviðráðanlegar aðstæður koma í veg fyrir að unnt sé að veita keypta þjónustu:

„ÖLL sala lyftumiða fer nú fram á netinu og miðasalan í Hlíðarfjalli sinnir aðeins takmarkaðri þjónustu vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast vegna  covid-19.
ATHUGIÐ að allir sem ætla í fjallið og eru ekki með vetrarkort þurfa að bóka tíma fyrirfram.
Force majeure atvik, svo sem veðurfar og lokanir vegna annarra óviðráðanlegra atvika veita ekki rétt til endurgreiðslu eða afsláttar.“

https://www.hlidarfjall.is/is/lyftumidar/verd

Neytendasamtökin líta svo á að skilmálinn teljist ósanngjarn í skilningi C liðar 36. gr. samningalaga enda leiði hann til verulegs ójafnræðis þegar kemur að réttindum og skyldum samningsaðila, neytendum í óhag. Gera verður þó greinarmun á vetrarkortum eða lengri pössum þar sem ætla má að atvik geti komið upp á tímabilinu sem hindra að þjónustan verði veitt, svo sem sökum veðurs eða bilana. En við kaup á stökum miðum fyrir tiltekinn dag á tilteknum tíma, myndi lokun vegna álíka atvika aftur á móti leiða til þess að kaupandi fær ekkert fyrir sinn snúð. Þar liggur verulegt ójafnræði

Jafnframt vekja samtökin athygli á að miðasala fer alfarið fram á netinu því gilda lög nr. 16/2016 um neytendasamninga, en þar segir að neytendum sé heimilt að falla frá samningi sem gerður er á netinu í allt að 14 daga frá kaupum, sé upphæðin u.þ.b. 8.000 kr. eða hærri.

Ennfremur ber söluaðila að veita upplýsingar um rétt neytenda til að falla frá samningi á skýran,  greinargóðan, og aðgengilegan hátt fyrir neytendur.

Neytendasamtökin hafa sent forsvarsfólki Hlíðarfjalls erindi þar sem farið er fram á að umræddur skilmáli sé tekinn til endurskoðunar og upplýsingagjöf bætt.

Uppfært 22. febrúar. Hlíðarfjall brást vel við erindi samtakanna og hefur nú breytt skilmálum sínum á þá vegu að ef keyptir eru stakir lyftumiðar í fjallið (dagskort eða holl) og óviðráðanlegar aðstæður leiða til lokunar, er neytendum bættur skaðinn.

Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Hægt er að skrá sig hér.

Fréttir í sama dúr

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Staðan í Vaxtamálinu

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.