Í desember 2021 var bönkunum þremur stefnt fyrir dóm. Valin voru fimm mál úr á sjötta þúsund mála sem samtökunum voru send, með það fyrir augum að fá fordæmi á sem víðtækasta sviði. Þau mál sem hafa víðustu skírskotun og áhrif eru líklega mál E-5932/2021 gegn Landsbankanum og mál E-2539/2021 gegn Íslandsbanka, þar sem flestir lántakar eru með slík lán, tekin eftir að Evróputilskipun (2014/17/ESB) voru leidd í lög (118/2016). Ekki hefur reynt á lögin fyrir dómi og því leituðu Héraðsdómar Reykjavíkur (í máli Landsbankans) og Reykjaness (í máli Íslandsbanka) eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins um hvernig túlka bæri nokkur atriði þeirra. Í hálfsársuppgjörum sínum meta bankarnir líklegan kostnað sinn, tapi þeir málunum, á samtals 43,5 milljarða króna, Arion banki á 12 ma.kr., Íslandsbanki á 14 ma.kr. og Landsbankinn á 17,5 ma.kr. Að auki er gæti töluverð vaxtaáhætta fylgt dómsniðurstöðunni. Bankarnir vinna hörðum höndum að því að tefja málin eins og þeir geta, líklega til að sem stærstur hluti fyrnist verði þeir dæmdir til að endurgreiða oftöku sína. Því er afar mikilvægt að lántakar slíti fyrningu (sjá upplýsingar hér). Það er ekki of seint að bregðast við.
–Mál E-5932/2021 gegn Landsbankanum vegna fasteignaláns að fjárhæð 6,5 mkr. tekið 2019 og greitt upp 2021.
-Héraðsdómur óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sem var birt 24. maí 2024.
-Næsta skref er aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. janúar 2025.
–Mál E-5933/2021 gegn Landsbankanum vegna tveggja skuldabréfalána að fjárhæð 2,3 mkr. tekin 2006 og greidd upp 2021.
-Bankinn hlaut sektardóm í héraði 7. feb 2023. Málinu var áfrýjað til Landsréttar.
-Næsta skref er aðalmeðferð í Landsrétti (mál 429/2023) 16. janúar 2025.
–Mál E-5931/2021 gegn Arion banka vegna verðtryggðs fasteignaláns að fjárhæð 5,4 mkr. tekið 2017 og greitt upp 2021.
-Bankinn hlaut sýknudóm í héraði 7. feb 2023. Málinu var áfrýjað til Landsréttar.
-Næsta skref er aðalmeðferð í Landsrétti (mál 333/2023) 16. janúar 2025.
–Mál E-2539/2021 gegn Íslandsbanka vegna verðtryggðs fasteignaláns að fjárhæð 57 mkr. tekið í janúar 2021.
-Héraðsdómur óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sem var birt 24. maí 2024.
-Aðalmeðferð var í Héraðsdómi Reykjaness 15. október 2024. Dóms má vænta um miðjan nóvember 2024.
–Mál E-2537/2021 gegn Íslandsbanka vegna skilmála sem Hæstiréttur hefur þegar lýst ólögmætan með dómi í máli nr. 623/2016. Við teljum bankann hafa brugðist rangt við dóminum og haldið áfram að innheimta upphaflega vexti lánsins, þrátt fyrir að vaxtaskilmáli veðskuldabréfsins hafi verið dæmdur ólögmætur. Lánið var tekið 2007 og greitt upp 2021. Stefnufjárhæðin er 5,9 mkr.
-Bankinn hlaut sýknudóm í héraði 25. maí 2023. Áfrýjað til Landsréttar.
-Næsta skref er aðalmeðferð í Landsrétti (mál 462/2023) 16. janúar 2024.
Dóms er yfirleitt að vænta innan 4 vikna frá aðalmeðferð. Vegna umfangs og mikilvægi verður að líkindum óskað eftir áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar í málum í þeim málum sem enn eru í héraði (og spranga þannig yfir Landsrétt).
Aðalmeðferð „systurmálsins“, Neytendastofu gegn Íslandsbanka (mál nr. 99/2022), sem einnig var vísað til EFTA-dómstólsins og hlaut sömu dómsorð, er á dagskrá Landsréttar 16. janúar 2025. Málinu verður án efa einnig áfrýjað til Hæstaréttar.
Dagsetningar málaferla hafa breyst nokkuð og þeim seinkað. Því er mikilvægt að fylgjast vel með. Nánari upplýsingar eru á www.vaxtamalid.is
(Dagsetningar voru síðast uppfærðar 4. nóvember 2024 miðað við dagskrá Héraðsdómstóla og Landsréttar)
Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.
Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.