Fréttir

Sýklalyfjanotkun í landbúnaði áhyggjuefni

Alþjóðadagur neytendaréttar er haldinn þann 15. mars ár hvert. Í ár er vakin athygli á sýklalyfjanotkun í landbúnaði, en ofnotkun sýklalyfja og þróun sýklalyfjaónæmra bakteríustofna er talin ein helsta lýðheilsuógn næstu áratuga.

Staðan á Íslandi er þó gjörólík því sem gengur og gerist, þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði hérlendis er brot af því sem þekkist víða erlendis. Takmarkað eftirlit er hins vegar með  sýklalyfjaleifum og með ónæmum sýklum í innfluttum kjötafurðum.

Mikil notkun sýklalyfja í landbúnaði í Evrópu

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) tók á seinasta ári saman upplýsingar um notkun sýklalyfja í landbúnaði í 26 löndum sem tilheyra EES (Evrópska efnahagssvæðinu). Tölurnar sýna, svo ekki fer á milli mála, að víða er pottur brotinn. Gríðarleg notkun sýklalyfja bendir til að í mörgum tilfellum sé horft framhjá banninu við notkun þeirra í vaxtarörvandi tilgangi.

Mest var sýklalyfjanotkunin á Spáni og Ítalíu, en það vekur athygli að notkunin er einnig mjög há í Þýskalandi, en meira en helmingur þess kjöts sem er innflutt til Íslands kemur þaðan. Þegar Bændablaðið bar saman tölurnar um sýklalyfjanotkun og kom í ljós að notkunin á Spáni er allt að sextíuföld og notkunin í Þýskalandi er meir en þrjátíuföld samanborið við notkunina hérlendis (magn miðað við framleiddar þyngdareiningar).

Íslenskt kjöt ræktað án aðstoðar sýklalyfja

Noregur og Ísland notuðu minnst af sýklalyfjum í landbúnaði af þeim löndum sem könnunin náði til. Í fyrirspurn til Matvælastofnunar fengu Neytendasamtökin staðfest að sýklalyf eru ekki notuð sem fyrirbyggjandi aðgerð í landbúnaði á Íslandi heldur aðeins til meðhöndlunar á sýkingum sem upp koma. Enn fremur er stefnan að halda notkun breiðvirkra sýklalyfja í lágmarki.

Til að tryggja hreinleika íslenskra dýraafurða skimar Matvælastofnun árlega fyrir sýklalyfjaleifum í innlendum afurðum auk þess sem gerðar eru sýklalyfjaþolsprófanir á sýnum úr dýrum og dýraafurðum. Árin 2013 og 2014 voru tekin hátt í 300 sýni úr ýmsum dýraafurðum en ekkert þeirra mældist með sýklalyfjaleifar yfir leyfilegum mörkum. Niðurstöður prófana sýna einnig að tíðni sýklalyfjaónæmra baktería er frekar lág hér á landi.

Takmarkað eftirlit með innfluttu kjöti

Matvælastofnun fer einnig með eftirlit með innfluttum matvælum, með það að markmiði að tryggja að öll innflutt matvæli standist kröfur gildandi reglugerða. Mismunandi reglur gilda um kjöt sem á sér uppruna innan EES og landa utan þess.

Þar sem Ísland er hluti af EES gildir matvælalöggjöf ESB (Evrópusambandsins) á Íslandi. Í matvælalöggjöf ESB er meðal annars kveðið á um sýnatökur vegna lyfjaleifa við kjötskoðun. Eftirlit með lyfjaleifum, þar með talinn sýklalyfjaleifum, fer fram í framleiðslulöndum og því eru ekki tekin sýni af innfluttu kjöti frá EES-löndum hérlendis, nema sérstakt tilefni sé til.

Þegar um er að ræða innflutning frá ríkjum utan EES eru sýni vegna lyfjaleifa tekin við landamæraeftirlit af 20% sendinga eða oftar ef tilefni er til.

Samkvæmt ársskýrslu Matvælastofnunar var heildarinnflutningur á hráum kjötafurðum 3.392 tonn árið 2014 (2.524 tonn 2015 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands). Þess má geta að eingöngu um 2% af innfluttu kjöti kemur frá löndum utan EES. Því má draga þá ályktun að afar takmarkað eftirlit er með innfluttu kjöti hérlendis, einnig þegar kemur að mögulegum sýklalyfjaleifum eða ónæmum sýklum í kjötafurðum.

Neytendasamtökin vilja tryggja öryggi innfluttra kjötafurða

Neytendasamtökin fagna því að hérlendis standi neytendum til boða íslenskt kjöt sem ræktað hefur verið án aðstoðar sýklalyfja. Hvað varðar innflutt kjöt hafa samtökin ítrekað gert kröfu um að innflutt kjöt uppfylli sömu gæðakröfur og innlend framleiðsla.

Það felur meðal annars í sér að tryggja verður að innflutt kjöt sé laust við sýklalyfjaleifar á sama hátt og það íslenska og að skimað verði fyrir ónæmum sýklum í innfluttu kjöti á reglubundinn hátt eins og heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir. Æskilegt væri að stjórnvöld myndu efla eftirlit með innfluttum kjötafurðum svo um munar til að tryggja að innflutta kjötið uppfylli sömu gæðakröfur og það íslenska.

„Það er fagnaðarefni að sýklalyfjaleifar finnist ekki í innlendu kjöti” segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna. “Minnt er á að Neytendasamtökin hafa ávallt krafist þess að ekki séu minni kröfur gerðar til innfluttra landbúnaðarvara og þeirra innlendu. Því þarf Matvælastofnun að fylgjast með að innflutt kjöt sé án sýklalyfjaleifa og einnig að þetta kjöt sé skimað til að tryggja að það innihaldi ekki ónæma sýkla. Það er eðlilegt að gerðar séu sömu kröfur til innflutts kjöts og sem gerðar eru til kjöts framleitt hér á landi” segir Jóhannes.

Fréttir í sama dúr

Smálánabaráttan

Framboð til stjórnar og formanns

Nýtt símkerfi

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.