Þann 9. febrúar síðastliðinn sendu Neytendasamtökin svohljóðandi fyrirspurn til allra þingmanna sem sæti eiga á Alþingi Íslendinga:
Kæri þingmaður,
Samkvæmt Eurostat er matvælaverð hæst á Íslandi af löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og 66% hærra en meðaltalsverð svæðisins.
Nýleg könnun Verðlagseftirlits ASÍ kemst að svipaðri niðurstöðu.
Því spyr ég alla þingmenn eftirfarandi spurninga og æski svara sem ég áskil mér rétt að birta opinberlega:
- Hver eða hverjar telur þú vera ástæðu eða ástæður þess að matarverð sé svona hátt á Íslandi?
- Hvað telur þú ásættanlegt að verðlag matvöru á Íslandi sé, samanborið við önnur lönd á Evrópska efnahagssvæðinu?
- Hvað ætlar þú að gera á yfirstandandi þingi til að ná verðlagi matvöru niður í ásættanlegt horf?
Með góðri kveðju og von um skjót svör,
Eftirfarandi svör bárust (birt í þeirri tímaröð sem svörin bárust):
—
Smári McCarthy – 9.febrúar
- Ég greini ástæðurnar fyrir háu verðlagi á Íslandi, sérstaklega í matvöru, vera (ásamt grófu mati á hlutfallslegri skýringu ástæðunnar á frávikinu frá Evrópu):a) óstöðugleiki gjaldmiðilsins (12%)
b) hátt skuldaálag þvert í gegnum samfélagið vegna hávaxtastefnu (6%)
c) skortur á samkeppni og beint eða óbeint verðsamráð (20%)
d) íhaldssöm og óskilvirk landbúnaðarstefna (15%)
e) innflutningshöft á landbúnaðarafurðum (10%)
f) takmarkanir og veikleikar á fríverslunarsamningum sem taka til landbúnaðar vegna áðurnefndrar landbúnaðarstefnu (5%)
g) stuttar virðiskeðjur og lítil iðnaðaruppbygging (10%)
h) hlutfallslega há laun miðað við samkeppnislönd í umhverfi þar sem er hlutfallslega lítil framleiðni spilar saman við umhverfi þar sem verð og gjöld eru of há og vinnutími of langur (5%)
i) menningarlegri þættir, m.a. ofuráhersla á „dugnað“ og kerfislæg græðgi (5%)
j) gallar í lögum og regluverki, einkum varðandi rekstrarumhverfi fyrirtækja (10%)
k) annað (2%)Allt eins og áður segir afar gróflega áætlað, miðað við ýmsar forsendur, sumar nákvæmari en aðrar. Giska á skekkjumörk upp á 2-4%.
- Af ýmsum ástæðum (t.d. hátt velferðarstig) kemur Ísland líklega alltaf til með að vera tiltölulega dýrt land, en við eigum samt að geta verið algjörlega samanburðarhæf við önnur Evrópulönd, amk norðurlöndin.
- Ef skoðaðar eru tillögur mínar, ræður, greinar og vinnu í Efnahags og viðskiptanefnd ætti að sjást ummerki um vinnu að því að leysa liði a, b, c, f, g og j að ofan. Ég hef áhuga á því að ráðast á d og e síðar, en vil sjá meiri árangur í hinu fyrst.
Aðrir Píratar hafa unnið að þætti i. Það er auðvitað erfitt að laga þessa hluti, en mikið væri ég til í að sjá samstillt átak í þá átt.
—
Björn Leví Gunnarsson – 9. febrúar
- Margar. Hátt vaxtastig, kennitöluflakk, stærð markaðar, óstöðugleiki almennt í td gjaldmiðli, …2.
Tvíþætt, annars vegar þannig að kaupmáttur lægstu launa dugi fyrir amk húsnæði og mat. Hins vegar afsakar hækkun í hafi mjög lítinn hluta hærra vöruverðs. Það er verið að skipa og fljúga vorum fram og til baka út um allan heim.3.
Mín aðkoma er aðhald í ríkisfjármálum til þess að stuðla að stöðugleika, lægra vaxtastigi og stöðugri gjaldmiðli. Styðja aðgerðir gegn kennitöluflakki.
—
Logi Einarsson – 14. febrúar
Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur sameinast um eftirfarandi svar:
- Ástæðurnar eru margar og flóknar. Landbúnaðarkerfið er líklega ástæðan fyrir 15-30% verðlagsmismunarins, og þá mestmegnis vegna þess pólitíska kerfis sem landbúnaðurinn býr við frekar en vegna ákvarðanna bændanna sjálfra. Íhaldsflokkarnir standa vörð um óbreytt og úrelt landbúnaðarkerfi. Við viljum að vöruverð til neytenda lækki og samkeppni verði aukin með lækkun verndartolla og aukinni nýsköpun í landbúnaði. Þörf er á endurskoðun og breytingum á landbúnaðarkerfinu. Krónan er auk þess ekki til hagsbóta fyrir neytendur. Óstöðugur gjaldmiðill hefur áhrif á verðsveiflur og hefur það sýnt sig að hækkun á verði skilar sér fyrr til neytenda en lækkun á verði vegna gengisbreytinga. Má telja það að einhverju leyti eðlilegt að að vöruverð sé örlítið hærra en til dæmis á meginlandi Evrópu vegna fjarlægðar okkar við helstu markaði sem við skiptum við og vegna þess að byrgjar geta ekki gert jafn góða samninga í innkaupum sökum fámennis og lítils markaðar hér á landi. Hins vegar sýnir könnun ASÍ og gögn frá EUROSTAT að matvælaverð er ennþá óeðlilega hátt og mikill baggi á neytendur.2.
Það er vart hægt að festa hönd á það hvað matvælaverð á nákvæmlega að vera á Íslandi. Við eigum að geta borið okkur saman við Norðurlöndin vegna þess að við erum með sambærileg launakjör og þar eru.
3.
Það þarf að ráðast í grundvallarbreytingar til að ná verðlagi niður – til að íslenskur markaður verði heilbrigðari og skilvirkari. Samfylkingin hefur og mun áfram berjast fyrir því að komið verði á stöðugum gjaldmiðli. Við höfum lagt áherslu á upptöku Evru þar sem hún virðist skynsamlegasta og raunhæfasta lausnin til að koma hér á stöðugleika og ná niður vöxtum.
Við höfum lagt áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og framþróun í matvælaframleiðslu á Íslandi. Samfylkingin telur að hagsmunir bænda og neytenda geti farið mun betur saman. Við teljum nauðsynlegt að endurskoða verndartolla og innflutningshöft til að lækka vöruverð. Við teljum heilbrigða samkeppni hvetja fyrirtæki til þess að selja betri vörur og þjónustu á betra verði – það hefur t.a.m. sýnt sig í innlendri grænmetisframleiðslu. Það er vel hægt, og er æskilegt að styðja við íslenskan landbúnað, án þess að það komi niður á samkeppni og á endanum neytendum. Við munum á þessu þingi fylgjast náið með vinnu ráðherra um þróun íslenskrar matvælastefnu, leggja fram fyrirspurnir um verndartolla og innflutningshöft og leggja fram þingsályktunartillögu um framtíð landbúnaðarkerfisins á þessu þingi.
—
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir – 17.. febrúar
- Nokkrar ástæður eru fyrir háu matvælaverði hér á landi. Í fyrsta lagi skortur á samkeppni en sagan hefur sýnt okkur að samkeppnishindranir eru verstar fyrir neytendur og framleiðendur (bændur). Núverandi landbúnaðarstefna heldur bændum í fjötrum og er þar með beint og óbeint skaðleg fyrir neytendur.
Í öðru lagi eru ákveðnir stjórnmálaflokkar (VG, Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkur) sem viðhalda samkeppnishindrunum eins og á mjólkurmarkaði. Það er skaðlegt fyrir neytendur og skiptir engu þótt einokunarrisinn á markaði skipti yfir í fallegar umbúðir – umhverfið er neytendum sem bændum til tjóns og ýtir ekki undir nýsköpun og sprotastarfsemi sem ellegar myndi vaxa hraðar í frjálsu og opnu umhverfi.
Í þriðja lagi er há tollvernd til tjóns fyrir allt neytenda- og framleiðendaumhverfið en há tollvernd dregur úr hvata til hagræðingar innan greinarinnar og brenglar öll viðmið.
Við vitum að skv. OECD er ekkert aðildarríki sem verndar landbúnað sinn meira en Ísland. Stefna Viðreisnar er að halda áfram að styrkja bændur – og jafnvel auka styrki til þeirra ef við þorum að horfast í augu við þá þætti sem taka þarf á til að efla íslenskan landbúnað í heild sinni. Hluti af því er að auka frelsi og opna markaði líkt og gert var á sínum tíma með grænmetið með góðum árangri. Að okkar mati er núverandi landbúnaðarstefna varðstaða um fjötra í stað þess að losa um kerfið, gera það hagkvæmara, minna fyrir milliliði og afurðastöðvar en meira fyrir bændur sjálfa og neytendur.
- Það er að vissu leyti merkilegt að fylgjast með kjaraviðræðum þessa dagana en þær virðast lítið taka á þeim framtíðarmálum sem á endum skipta íslensk heimili og neytendur hvað mestu máli. Fyrst er það auðvitað íslenska krónan en baráttunni fyrir upptöku nýs gjaldmiðils og lægri vaxtakostnaði fyrir heimilin heldur ótrauð áfram. En jafnframt er ljóst að með því að breyta umhverfi matvælamarkaðar hér á landi og gera hann samanburðarhæfan við Norðurlöndin, bæði í verði og úrvali, hefði það í för með sér raunverulegar kjarabætur fyrir fjölskyldur hér á landi. Þess vegna þarf að auka samkeppni og draga úr tollvernd.
- Með ýmsum málum okkar og málflutningi höfum við í Viðreisn sýnt fram á að hagsmunir neytenda, lækkun matvælaverðs og betra umhverfi fyrir bændur eru ofarlega á blaði.
Eitt stærsta mál okkar er afnám undanþágu mjólkuriðnaðarins og niðurlagning verðlagsnefndar búvara en við mæltum fyrir því í október sl. Bæði atriðin eru til þess fallin að vinna gegn háu matarverði á landinu. Málið hefur hins vegar ekki fengist rætt né afgreitt í Atvinnuveganefnd þingsins enda skýrt að Sjálfstæðisflokkur, VG, Framsókn og Miðflokkur eru á móti málinu og vilja viðhalda einokun og sérreglum á mjólkurmarkaði.
Við höfum einnig lagt fram tillögu til þingsályktunar sem felur forsætisráðherra að vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Staðreyndin er sú að verðhækkanir á vörum og þjónustu sem virk samkeppni ríkir um hafa verið mun minni en verðhækkanir á vörum og þjónustu sem seldar eru á einokun eða ríkisstýrðum mörkuðum eða með undanþágum frá samkeppnislögum.
Við höfum sett fram margar fyrirspurnir er tengjast neytendum og varðstöðu um óbreytt kerfi. Við fengum þau svör að kostnaður íslenska ríkisins vegna banns við innflutningi á fersku kjöti hlypi á tugum milljóna og er þá ekki verið að reikna beinan og óbeinan kostnaði neytenda.
Einnig höfum við samhliða þessum málum bent á önnur svið og markaði þar sem aukin samkeppni yrði neytendum til hagsbóta. Má hér nefna leigubílamarkaðinn og smásölu áfengis.
—
Steinunn Þóra Árnadóttir – 18. febrúar
Ísland er almennt dýrt land og kaupmáttur mikill. Hér er flest dýrt í samanburði við önnur lönd, nema helst raforka og húshitun. Þá hefur áhrif að Ísland er eyja, sem leiðir til þess að flutnings kostnaður á aðföngum er hár og markaðurinn lítill. Brýnt er að kanna vel hvort fákeppni í heild- og smásölu á matvælum kunni að hleypa upp verðlaginu.
Þetta finnst mér einungis hægt að skoða í tengslum við kaupmátt og bera þá saman kaupmátt og útgjaldahlutföll í öðrum löndum. Samkvæmt tölum hagstofunnar fer hærra hlutfall hjá tekjulágum heimilum á Íslandi í matvöru en hjá þeim tekjuhærri. Þá eru útgjöldin einnig hlutfallslega hærri hjá barnafjölskyldum á Íslandi. Þar þurfa breytingar að verða. Ljóst er að eitthvert mesta lífskjaramál almennings tengist matarinnkaupum, þar sem horfa verður til verðs en einnig til gæða. Fjölbreytt úrval af hollri og góðri fæðu er jafnframt gríðarlega mikilvægt lýðheilsumál.
Að auka kaupmátt þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Þá þarf að skoða hvort verðlagshækkanir sem verði á matvöru sem framleidd er á Íslandi skili sér til framleiðenda. Þriðjungur matvæla er hent og það blasir við að aðgerðir til að draga úr matarsóun, bæði hjá versluninni og heimilum myndu hafa áhrif á útgjöld til matarinnkaupa og vera liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Lengi hefur verið rætt um mikilvægi þess að búa til matvælastefnu fyrir Ísland, en slík stefna hlyti að taka m.a. til framangreindra þátta.
—
Rósa Björk Brynjólfsdóttir – 18. febrúar
- Að mínu mati stafar hátt matarverð á Íslandi af fákeppni, háum verndartollum, litlum gjaldmiðli og háum flutningskostnaði hingað til Íslands sem helgast af landfræðilegri fjarlægð. Það má líka velta því fyrir sér hvort matarverð væri hærra eða lægra ef Ísland væri í sterkara efnahagssambandi við önnur Evrópulönd en nú er, þegar haft er í huga að matarverð í Evrópu er hæst í Noregi, Sviss og á Íslandi – EFTA-löndunum – …
- Ég tel að neytendur á Íslandi eigi ekki að sætta sig við lægra matarverð en það sem tíðkast í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.
- Ég viðurkenni að ég hef ekki haft þetta í forgangi í mínum þingstörfum að undanförnu, eina málið sem ég hef verið að vinna að sem tengist matvælum er þingmál sem ég hef verið að vinna að sem snýst um kolefnismerkingum matvæla, en hef áhuga á því að beita mér fyrir því að finna leiðir til að lækka matvælaverð. En ég tel að það sem hægt er að gera almennt sé að bæta kjör þeirra sem minnst hafa á milli handanna til að auka kaupmætt lægstu launa, svo skilst mér að það sé einhver tollahópur í gangi sem Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stýrir en ég þekki ekki alveg um hvaða tillögur er verið að vinna með þar eða hvenær er von á þeim.
—
Línek Anna Sævarsdóttur – 19. febrúar
Hér kemur svar Þingflokks Framsóknarflokksins við spurningum þínum frá 9. febrúar 2019:
Samkeppnisaðstæður og lögmál framboðs og eftirspurnar ráða miklu um verðmyndun. Þess vegna er nauðsynlegt að setja slíkan samanburð í samhengi við kaupmátt og lífskjör.
Við samanburð á verði milli landa er mikilvægt að bera saman kaupmátt, því hann setur laun og vöruverð í samhengi.
Hagtölur frá Eurostat segja okkur einnig að við Íslendingar notum 10,6% ráðstöfunartekna til matarkaupa og erum þar í 6. sæti af 32 löndum í Evrópu skv. nýjustu tölum. Þar koma öll hin Norðurlöndin verr út. Verð er almennt hærra þar sem laun eru hærri. Í þeim löndum þar sem verðlag á matvöru er hvað hæst fer lægra hlutfall af útgjöldum neytenda til matvörukaupa en í þeim löndum þar sem verðlag er lægst. Á Íslandi er hlutfallið 10,6% en tæp 30% í Rúmeníu, þar sem verðlag er með því lægsta í Evrópu. Að auki eru skýr merki þess að þar sem samkeppnin er mest verja neytendur lægra hlutfalli útgjalda sinna til matvörukaupa.
Aðhald neytenda við aðstæður fullkominnar samkeppni er öflugasta tækið. Fákeppnisaðstæður gerir neytendum erfiðara um vik að veita nauðsynlegt aðhald.
Eftir því sem samkeppni á matvörumarkaði er meiri, bæði í vinnslu, dreifingu og smásölu, því lægra verði má búast við til neytenda. Innan Evrópu er mest samkeppni í smásölu á matvöru í Þýskalandi og þar er framlegð í matvöruverslun sú lægsta í Evrópu. Greining á matvörumarkaði á Íslandi hefur sýnt skýr merki um fákeppni þar sem arðsemi eigin fjár stærstu fyrirtækjanna er 35–40%, samanborið við 11-13% í Bandaríkjunum og Evrópu.
Þá er ekki hægt að líta framhjá smæð markaðarins og því að kostnaður við verslun hér er hár í samanburði við önnur lönd, s.s. vegna launa-, flutnings-, húsnæðis- og fjármagnskostnaður.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkistjórnar segir : „Frjáls og opin alþjóðaviðskipti eru til hagsbóta fyrir lítil opin hagkerfi og auka velsæld þeirra. Leggja skal áherslu á að fjölga fríverslunarsamningum, bæði tvíhliða og í samvinnu við önnur EFTA-ríki, og að afnema viðskiptahindranir. Við gerð slíkra samninga skal sérstaklega horft til þess að efla umhverfissjónarmið og mannréttindi, þ.m.t. réttindi kvenna.“
Ekki er vafamál að alþjóðaviðskipti skila okkur fram á veginn í betri kjörum fyrir neytendur. Jafnframt verður að tryggja matvælaöryggi landsins og að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða, loftlagsmála, vinnuverndar og heilnæmis matvæla.
Á síðustu árum hefur Framsóknarflokkurinn tekið þátt í ákvörðunum um verulega lækkun vörugjalda og tolla án þess að það hafi í öllum tilfellum skilað lægra vöruverði.
Hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja efnahagslegan stöðugleika, vinna að lækkun fjármagnskostnaðar, stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi m.a. með virku samkeppniseftirliti og stuðningi við virkt neytendaeftirlit.
Fyrir þessu munu þingmenn Framsóknarflokksins beita sér.
—
Ásmundur Friðriksson – 20. febrúar
- 1.
Launa- og framleiðslukostnaður er hár á Íslandi en þrátt fyrir háan kostnað tekur það íslenska launamenn álíka tíma eða jafnvel styttri að vinna fyrir sambærilegri matarkörfu og margar nágranaþjóðir okkar á norðurlöndum þrátt fyrir að karfan sé dýrari á Íslandi.
Fjölmargar landbúnaðarafurðir eru fluttar inn til landsins án vörugjalda og verndartolla. Mér er ekki kunnugt um að þeir hundruð vöruflokka sem þannig eru fluttir til landsins án vörugjalda og tolla séu á sambærilegu verði hér og erlendis. Væri það ekki athugunar virði að skoða það og hvar mismunurinn á verði lendir fyrst neytendur njóta ekki jafnræðisins í kaupum á vörum og nágrannar okkar í Evrópu?
Eru einhverjar líkur á því ef við gæfum allan innflutning á kjöti og dýraafurðum fullkomlega frjálsan að við, neytendur mundum njóta þess í sambærilegum verðum hér á Íslandi og í nágranalöndunum miðað við aðrar landbúnaðarafurðir sem þegar eru fluttar hingað til lands án allra tolla og vörugjalda? Því til viðbótar verðum við að gera sömu kröfur til aðbúnaðar dýra og starfsmanna, launa, heilsu og heilbrigði og við gerum hér á Íslandi svo samanburðurinn verði raunhæfur áður en við tökum bara kostnaðinn á hverju kílói út fyrir sviga.
2.
Það verður seint sem íslenskir framleiðiendur geti keppt við milljóna-þjóða framleiðiendur þar sem einn framleiðandi getur verið stærri en allir íslenskir framleiðendur til samans. Slíkur samanburður verður okkur aldrei jafn og er þá ekki tekið til veðurfars og ódýrari húsakostnaður þess vegna. Okkar framleiðsla þarf að vinna á gæðum, hreinleika og heilnæmi. Ef tekið væri mið af kolefnisspori vörunnar sem mikið er í tísku þá væri stað innlendrar framleiðslu sterkari. Við gerum miklar kröfur á innlenda framleiðslu og setjum strangar reglur um eftirlit og aðbúnað dýra, stærð bása og fjölda dýra á fermetri í húsum, í samkeppni og samanburð við erlenda aðila þarf sú staða að vera jöfn.
Þá verður að gæta að því að Evrópusambandið kaupir upp umframframleiðslu bænda í aðildarríkjunum og selur á afsláttarmörkuðum langt undir framleiðslukostnaði oft á tíðum. Við þann markað, margniðurgreitt vöruverð keppir enginn íslenskur bóndi en gjarnan er það verið sem miðað er við.
Ég hef unnið að því að styðja við bakið á bændastéttinni sem á undir högg að sækja í samfélaginu. Á henni dynur oft á tíðum ranglátur samanburður við verð á erlendum landbúnaðarafurðum. Greinin þarf að búa við meiri og ríkari kröfur um aðbúnað dýra en önnur lönd sem við berum okkur saman við, það mismunar. Afkoma bænda er í engu sambærileg við þær atvinnugreinar sem kaupa afurðir til slátrunar, dreifingaraðila og verslunin sem virðast ganga mjög vel en allur sá ávinningur skilar sér ekki ef marka má afkomutölur til frumframleiðslunnar í sveitum landsins.
Það þarf að efla nýsköpun í landbúnaði, nýtingu aukaafurða og gefa framleiðendum aukin tækifæri til að vinna saman í atvinnugrein sem aldrei mun keppa á heimsmarkaði um lægstu verð heldur bestu gæði sem eru auðævi samfélagsin alls.
Frá því ég settist á þing 2013 hafa vörugjöld og tollar verið afnumin á á þúsundum vöruflokka til að jafna aðstöðu verslunarinnar í landinu við erlenda verslun. Hvernig hefur það gengið og hvað hefur mikið af þeim milljörðum sem ríkið lækkaði vöruverð til landsins skilað sér í vasa neytenda. Líklega svarið er að það hafi farið í innlendan kostnað, hærri laun, dýrara húsnæði og meira eftirlit en erlendis. Í endann er það neytandinn sem greiðir en hvernig er kökunni skipt, er það ekki málið sem þarf að skoða?
Hvað með vöruflokka eins og skó og fatnað, varahluti í bifreiðar svo nokkuð sé nefnt, þar eru engar niðurgreiðslur að trufla vöruverðið en hver er munurinn á þeim vöruflokkum í Evrópu, USA eða Íslandi, svari þeir sem það eiga að vita.
ÉG tel reyndar að auknu fé til stuðnings neytendasamtökunum og rannsóknum á verðmyndun vara á Íslandi væri vel varið ef það skilaði sér til neytenda í lægra vöruverði.
—
Þorsteinn Víglundsson – 22. febrúar
Takk fyrir spurningarnar og fyrirgefðu hvað svarið berst seint. Það er mjög ánægjulegt að sjá Neytendasamtökin láta sig þetta mikilvæga mál varða. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að ef frá er talið hátt vaxtastig þá sé hátt matvælaverð hér á landi eitt okkar helsta böl en um leið okkar besta tækifæri til bóta. Hér eru svörin mín við spurningum þínum.
- Hátt matvælaverð má að mínu mati helst rekja til mikillar verndar innlends landbúnaðar og skorts á samkeppni í greininni og algers viljaleysis íslenskra stjórnvalda og helstu hagsmunaaðilda til að breytinga á því. Samkvæmt OECD er ekkert aðildarríki sem verndar landbúnað sinn meira en Ísland. Að auki undanskiljum við greinina að hluta samkeppnislögum. Há tollvernd dregur verulega úr hvata til hagræðingar innan greinarinnar. Það hversu hátt hlutfall verndarinnar snýr að iðnaðarframleiðslu á borð við kjúklinga- og svínarækt sem á í raun lítið skylt við hefðbundinn íslenskan landbúnað, gerir þennan alþjóðlega samanburð enn verri. Vafalítið má skýra einhvern verðmun með smæð markaðar en hafa verður í huga að innflutt matvara kemur mun betur út í slíkum samanburði en innlend landbúnaðarvara. Hið sama má segja um innlendar vörur í alþjóðlegri samkeppni sem ekki njóta tollverndar, svo sem grænmeti og drykkjarvörur (utan áfengis). Farsímar eru hér á svipuðu verði og í nágrannalöndum okkar. Fatnaður hefur ekki hækkað hér neitt í líkingu við almennt verðlag eða laun, m.a. vegna aukinnar samkeppni frá netverslun og svo mætti áfram telja. Skortur á samkeppni með innlendar landbúnaðarvörur og mikil tollvernd er því án efa veigamikill þáttur.
- Verðlag ætti hér hæglega að geta verið svipað og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við á borð við Norðurlöndin. Það ætti að vera markmið stjórnvalda að örva hér samkeppni og draga úr tollvernd til að tryggja að svo verði. Miðað við vægi matarkörfunnar í útgjöldum heimilanna er hér eitt stærsta tækifæri til kaupmáttaraukningar sem við eigum.
- Hagsmunir neytenda og lækkun matarverðs til samræmis við nágrannalönd okkar eru í forgrunni í störfum Viðreisnar. Eitt stærsta mál okkar á yfirstandandi þing er afnám á undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem Þorgerður Katrin mælti fyrir í október sl., og samhliða því niðurlagning verðlagsnefndar búvara. Hvort tveggja er til þess fallið að vinna gegn hinu háa matarverði á Íslandi með því að afnema miðstýrða verðlagningu og koma á samkeppni þar sem hana hefur sárlega skort.
Þingflokkurinn lagði einnig fram tillögu til þingsályktunar, sem Þorsteinn Víglundsson er fyrsti flutningsmaður fyrir, sem felur forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Kveikjan að þeirri þingsályktunartillögu var meðal annars sú staðreynd að verðhækkanir á vörum og þjónustu sem virk samkeppni ríkir um hafa verið mun minni en verðhækkanir á vörum og þjónustu sem seldar eru á einokun eða ríkisstýrðum mörkuðum, eða með undanþágum frá samkeppnislögum. Þingflokkurinn hefur einnig barist fyrir bættri hagstjórn og upptöku stöðugri myntar til þess að stuðla að betra vaxtaumhverfi og auknum fyrirsjáanleika í innflutningi á erlendri vöru. Sú barátta mun halda áfram af fullum krafti.
Þá bar Jón Steindór Valdimarsson í nóvember fram fyrirspurn um kostnað íslenska ríkisins vegna banns við innflutningi á fersku kjöti og fékk þau svör að kostnaðurinn hlypi á hátt í fimmta tug milljóna fyrir ríkið og er þá ótalinn kostnaðurinn sem neytendur greiða fyrir hið viðvarandi ástand.
Auk þeirra mála sem hér hafa verið nefnd og snúa með beinum hætti að verðlagi matvöru þá hefur þingflokkur Viðreisnar einnig lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur sem eru til þess fallin að auka samkeppni á öðrum mörkuðum, neytendum til hagsbóta, og varða m.a. smásölu áfengis og frelsi á leigubifreiðamarkaði.
—
Jón Steindór Valdimarsson – 23. febrúar
1
Ástæður þess að matvælaverð er hátt á Íslandi eru margvíslegar. Fyrst blasir við að greinin nýtur mikillar verndar og almenn lögmál samkeppni gilda ekki um landbúnaðinn.
Tollvernd og takamarkanir á innflutningi leiða til þess að nýsköpun, þróun og hagræðing er takmörkuð innan greinarinnar sem aftur leiðir til þess að verð er hátt. Þrátt fyrir að landbúnaðurinn njóti mikilla styrkja og niðurgreiðslna, auk tollverndarinnar, skilar það sér ekki út í verðlagið né til viðunandi afkomu margra bænda.
2.
Íslenskir neytendur hljóta að gera þá kröfu að verð matvæla sé sambærilegt hér á landi og það er t.d. á Norðurlöndunum. Lægra matvöruverð kemur öllum til góða, ekki síst þeim sem lægstar hafa tekjurnar.
3.
Hagsmunir neytenda og lækkun matarverðs til samræmis við nágrannalönd okkar eru í forgrunni í störfum Viðreisnar. Eitt stærsta mál okkar á yfirstandandi þing er afnám á undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem Þorgerður Katrin mælti fyrir í október sl., og samhliða því niðurlagning verðlagsnefndar búvara. Hvort tveggja er til þess fallið að vinna gegn hinu háa matarverði á Íslandi með því að afnema miðstýrða verðlagningu og koma á samkeppni þar sem hana hefur sárlega skort.
Þingflokkurinn lagði einnig fram tillögu til þingsályktunar, sem Þorsteinn Víglundsson er fyrsti flutningsmaður fyrir, sem felur forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Kveikjan að þeirri þingsályktunartillögu var meðal annars sú staðreynd að verðhækkanir á vörum og þjónustu sem virk samkeppni ríkir um hafa verið mun minni en verðhækkanir á vörum og þjónustu sem seldar eru á einokun eða ríkisstýrðum mörkuðum, eða með undanþágum frá samkeppnislögum. Þingflokkurinn hefur einnig barist fyrir bættri hagstjórn og upptöku stöðugri myntar til þess að stuðla að betra vaxtaumhverfi og auknum fyrirsjáanleika í innflutningi á erlendri vöru. Sú barátta mun halda áfram af fullum krafti.
Þá bar ég fram fyrirspurn í nóvember um kostnað íslenska ríkisins vegna banns við innflutningi á fersku kjöti og fékk þau svör að kostnaðurinn hlypi á hátt í fimmta tug milljóna fyrir ríkið og er þá ótalinn kostnaðurinn sem neytendur greiða fyrir hið viðvarandi ástand.