Stefna

Grunnstefna Neytendasamtakanna

Samþykkt á aðalfundi Neytendasamtakanna 26. október 2019.

Neytendasamtökin

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem standa vörð um og efla réttindi neytenda. Samtökin nálgast neytendamál á breiðum grundvelli sem innifelur meðal annars matvæli, fjármálastarfsemi, stafræn réttindi og sjálfbæra neyslu.

Neytendasamtökin beita sér bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Samtökin eru aðilar að samstarfi norrænna neytendasamtaka, evrópsku neytendasamtökunum BEUC, alþjóðlegu samtökunum Consumers International og ANEC.

Neytendasamtökin voru stofnuð árið 1953 til að vera rödd neytenda, krefjast og hafa eftirlit með góðum viðskiptaháttum og tryggja grunnréttindi neytenda. Samtökin eru sjálfstæð og óháð einstaklingum, félögum, fyrirtækjum, samtökum, stjórnmálaflokkum og opinberum aðilum. Neytendasamtökin hafa frá upphafi gætt hagsmuna neytenda í þjóðfélaginu og talað máli þeirra, séð til þess að neytendur njóti sannmælis í viðskiptum, veitt neytendum upplýsingar um verð og gæði vöru og þjónustu, og aðstoðað félagsmenn við að ná fram rétti sínum ef á hefur þurfa að halda.  

Starf Neytendasamtakanna miðar að því að því að efla neytendur til að taka góðar ákvarðanir, brýna fyrirtæki til betri verka og tryggja hagsmuni neytenda í tengslum við stefnumótun stjórnvalda. Þá eru Neytendasamtökin brjóstvörn neytenda þegar eitthvað fer úrskeiðis. Félagsmenn Neytendasamtakanna geta hringt eða sent ábendingar og fyrirspurnir er varða viðskiptahætti fyrirtækja. 

Vinna Neytendasamtakanna er lausna- og árangursmiðuð, einbeitt og fagleg. Samtökin sinna réttindagæslu einstaklinga jafnt sem almennum neytendamálum. Þau leggja sérstaka áherslu á baráttumál sem geta leitt til kerfisbreytinga og þar með haft jákvæð áhrif til framtíðar á daglegt líf neytenda. Samtökin starfa með öðrum hagsmunasamtökum almennings að því marki sem það stuðlar að bættum réttindum neytenda. Grunnstefna Neytendasamtakanna innifelur sveigjanleika svo samtökin geti mætt ófyrirséðum áskorunum á hverjum tíma fyrir sig.

 

Öflug neytendasamtök

Öflug neytendasamtök eru forsenda þess að neytendur njóti verndar gegn hættulegum vörum, óvönduðum söluaðilum, ósanngjörnum samningum og villandi upplýsingagjöf. Neytendur standa sem einstaklingar höllum fæti gagnvart fyrirtækjum en með samtakamættinum mynda neytendur sterka heild.

Nýting stafrænnar tækni felur í sér tækifæri fyrir neytendur, en jafnframt áskoranir. Ólíkir hópar geta verið útsettir á mismunandi hátt fyrir brotum á almennum réttindum og gjá getur myndast á milli þeirra sem kunna og kunna ekki, hafa og hafa ekki. Stafræn útilokun, ofgnótt upplýsinga, duldar auglýsingar, ágengar söluaðferðir og sala  persónuupplýsinga eru meðal nýrra og breyttra áskorana sem hafa komið fram samfara tæknibreytingum. Stafræna umbreytingin hefur þegar kollvarpað gömlum viðskiptahefðum og skapað ný viðskiptalíkön, skilmála og greiðsluleiðir. Þannig getur oft verið erfitt að átta sig á hvar seljandi vöru eða þjónustu er staðsettur og hvaða lögum og reglum hann þarf að fara eftir. Neytendavernd og öryggi vöru og þjónustu getur þannig verið lakari í umhverfi seljandans, en kaupandans. Öflug og vakandi Neytendasamtök eru forsenda þess að hægt sé að standa vörð um og efla réttindi neytenda samhliða tæknibreytingum. 

Græn neysla og sjálfbær framtíð krefjast ábyrgðar af stjórnvöldum, fyrirtækjum og neytendum. Í sameiningu þurfa þessir aðilar að fjarlægja hindranir og skapa góð og jöfn skilyrði fyrir sjálfbærri og grænni neyslu. Neytendur eiga ávallt að hafa val um sjálfbærar vörur og þjónustu og öflug Neytendasamtök vinna að því að tryggja þessi réttindi.

Þörfin fyrir sameinandi og lýðræðislega rótgróna neytendahreyfingu er mikil, og hlutverk Neytendasamtakanna hefur orðið æ mikilvægara og meira krefjandi eftir því sem árin líða. Öflug Neytendasamtök stuðla að því að neytendur séu sterkir, krefjandi og meðvitaðir og veiti þannig fyrirtækjum og stjórnvöldum aðhald. Neytendasamtökin eru fyrst og fremst almannasamtök sem vinna að hag almennings.

 

Framtíðarsýn

Við erum öll neytendur. Í framtíðarsýn Neytendasamtakanna eru sífellt fleiri meðvitaðir um hlutverk sitt sem neytendur og geta tekið fullan þátt í samfélaginu sem neytendur og borgarar. Sterkir, öruggir og fróðir neytendur eru forsenda fyrir heilbrigðu hagkerfi, öflugu atvinnulífi og sjálfbærri þróun í umhverfislegu, félagslegu og efnahagslegu tilliti. 

Í framtíðarsýn Neytendasamtakanna geta allir nýtt sér krafta sína sem neytendur og tekið meðvitaðar ákvarðanir, óháð aðstæðum og búsetu. Blekkingar og afvegaleiðing heyra sögunni til. Neytendur njóta skjóls laga, eftirlits og eftirfylgni stjórnvalda með réttindum þeirra og vernd. Það er hlustað á rödd neytenda, bæði sem einstaklinga og sem hóps. 

Sjónarhorn og nálgun ákvarðanatöku byggist á þörfum neytenda í daglegu lífi og á öflugum neytendarannsóknum og gögnum um hagi neytenda. Grundvallarkröfur Sameinuðu þjóðanna um réttindi og vernd neytenda eru leiðarljós allrar stefnumótunar, sem og viðskiptahátta.

Hlutverk Neytendasamtakanna er að vera einstakt, sameinandi afl sem hefur áhrif á og tekur slaginn fyrir félagsmenn í  þágu allra neytenda. Gildi samtakanna eru öryggi, sanngirni og heilindi.

 

Grunnkröfur neytenda

Neytendasamtökin vinna í samstarfi norrænna, evrópskra og alþjóðlegra neytendasamtaka. Leiðarvísir og grunnur að starfi Neytendasamtakanna eru átta grunnkröfur neytenda settar fram af Sameinuðu þjóðunum. Allur almenningur, án tillits til tekna eða félagslegrar stöðu, á að njóta lágmarksréttinda sem neytendur í samræmi við eftirfarandi grunnkröfur:

1. Réttur til að fá grunnþörfum mætt
Að hafa aðgang að nauðsynjavörum og þjónustu, en þar falla undir t.d. matvæli, fatnaður, húsnæði, heilbrigðisþjónusta, menntun, vatn og hreinlæti.

2. Réttur til öryggis
Að njóta verndar gagnvart vörum, framleiðsluháttum og þjónustu sem ógna öryggi og lífi neytenda.

3. Réttur til upplýsinga
Að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun og njóta verndar gegn misvísandi og röngum upplýsingum.

4. Réttur til að velja
Að geta valið milli fjölbreytts varnings og þjónustu á samkeppnishæfu verði og af fullnægjandi gæðum.

5. Réttur til áheyrnar
Að hagsmuna neytenda sé gætt við ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum og við þróun á vörum og þjónustu.

6. Réttur til úrlausnar
Að eiga rétt á sanngjarnri úrlausn á réttmætum kröfum, sem og bótakröfum í tengslum við kaup á ófullnægjandi vörum og þjónustu.

7. Réttur til neytendafræðslu
Að eiga rétt á þekkingu og færni til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um val á vörum og þjónustu auk þess að hafa þekkingu á grundvallarréttindum og skyldum neytenda.

8. Réttur til heilbrigðs umhverfis
Að lifa og starfa í umhverfi sem ógnar ekki velferð núlifandi né komandi kynslóða.

Þá bæta Neytendasamtökin við níundu grunnkröfunni í samræmi við kröfur norrænna systursamtaka:

9. Réttur til stafrænnar neytendaverndar
Að jafnt aðgengi allra sé tryggt, að öryggi og heiðarleiki ráði ferð í stafrænum vörum og þjónustu, og að neytendur geti gert sér fulla grein fyrir öllum skilmálum.

Sjálfbærni er sífellt að verða mikilvægari í neytendahreyfingum um heim allan.  Þess vegna líta Neytendasamtökin einnig til hinna 17 heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Markmið Neytendasamtakanna


Sterk og sjálfbær neytendastefna
Miklar breytingar eru að verða í umhverfi neytenda, bæði á landsvísu og alþjóðlega. Neytendasamtökin kalla eftir ábyrgð stjórnvalda og stjórnmálaflokka á að neytendalöggjöf og neytendaumhverfi taki mið af kröfum neytenda og að eftirfylgni og eftirlit verði þannig að tryggt sé að neytendalöggjöf sé fylgt í hvívetna.  Markmið samtakanna er að stjórnmálaflokkar, sem og stjórnvöld hverju sinni, setji sér skýra stefnu í neytendamálum, þar með talið til langtímafjármögnunar hreyfingarinnar. Neytendasamtökin skrifa umsagnir um þingmál sem snerta neytendur. Þá koma samtökin breytingartillögum á framfæri við stjórnvöld þegar lög sem snerta neytendur ná ekki markmiðum sínum eða ganga í berhögg við grunnkröfur neytenda.

Meðvitaðir og gagnrýnir neytendur
Grundvallarforsenda sjálfbærrar þróunar í umhverfislegu, félagslegu og efnahagslegu tilliti, er að neytendur eigi auðvelt með að taka sjálfbærar ákvarðanir og að valið sé öllum aðgengilegt. Neytendasamtökin vinna að því að neytendur geti búið yfir nauðsynlegri þekkingu og gagnrýnni hugsun til að geta tekið upplýstar ákvarðanir.

Neytendasamtökin – þekkt og virt samtök
Neytendasamtökin eru sýnileg í fjölmiðlum og leggja sig fram um að veita rökfast og málefnalegt  innlegg í alla almannaumræðu sem snýr að hagsmunamálum neytenda.

Neytendarannsóknir
Til þess að taka megi góðar ákvarðanir til framtíðar verða að liggja fyrir gögn um afstöðu og hegðun neytenda í dag. Neytendasamtökin beita sér fyrir öflugum neytendarannsóknum, þar á meðal víðtækri neytendarannsókn þar sem rannsakað er þekking á og viðhorf til helstu áherslumála neytenda, svo sem réttinda, sjálfbærni, löggjafar, eftirlits auk neyslu og breytinga þar á.

Aðferðir
Til að ná markmiðum samtakanna, neytendum til góða til skemmri og lengri tíma nota Neytendasamtökin viðeigandi árangursríkar aðferðir.

Hagsmunagæsla
Neytendasamtökin gæta hagsmuna neytenda með því að funda reglulega með stjórnvöldum, bæði í ráðuneytum og á Alþingi, og nefndum á vegum þeirra.

Samtal við fyrirtæki
Neytendasamtökin vinna með helstu hagsmunasamtökum fyrirtækja, en einnig einstökum  fyrirtækjum, með það fyrir augum að ná fram breytingum og endurbótum fyrir neytendur.

Skoðanamyndandi áhrif
Neytendasamtökin taka þátt í almennri umræðu til að vekja athygli á neytendamálum og hafa þannig áhrif á ákvarðanatöku neytenda með það að markmiði að koma á breytingum í samræmi við grunnstefnu samtakanna.

Þjónusta við neytendur
Neytendasamtökin eru til staðar fyrir neytendur og upplýsa um réttindi þeirra gagnvart fyrirtækjum og hinu opinbera, með það fyrir augum að hjálpa þeim að taka meðvitaðar ákvarðanir. Neytendasamtökin annast milligöngu fyrir félagsmenn til að ná fram þeim rétti og vinna þannig að því að hafa bein áhrif á fyrirtæki og stjórnvöld.

Fræðsla og umræða
Neytendasamtökin skipuleggja og taka þátt í ráðstefnum, fyrirlestrum, og almennri kennslu til að efla neytendur og koma sjónarmiðum neytenda á framfæri, stuðla að umræðu meðal félagsmanna og annarra neytenda.

Forgangsröðun
Verkefni Neytendasamtakanna eru víðfeðm. Þegar forgangsröðun er nauðsynleg notast Neytendasamtökin við eftirfarandi spurningar:
– Er  málið neytendamál?
– Hafa Neytendasamtökin tækifæri til að hafa áhrif og ná árangri?
– Snertir málið fleiri en einn?
– Er málið á stefnu samtakanna?
– Eru aðrir hagsmunaaðilar að vinna að málinu?
– Er neytandi félagsmaður?

Notkun grunnstefnunnar
Grunnstefna Neytendasamtakanna er eitt mikilvægasta stýritæki samtakanna á eftir lögum félagsins og varðar starf þeirra og skipulagningu. Grunnstefnan er lesin og nýtist af mörgum hópum. Meðal þeirra mikilvægustu eru:

Félagsmenn – til að félagsmenn sjái ávinning af aðild sinni og geti metið árangur samtakanna.

Starfsmenn og stjórnendur
 – svo þau geti skipulagt, unnið og fylgst með daglegu starfi og tengt það beint við grunnstefnuna.

Ráðandi öfl í stjórnmálum og viðskiptum
 – svo þau skilji hlutverk Neytendasamtakanna, markmið þeirra og mikilvægi fyrir efnahag og umhverfi svo þau geti unnið með þeim að markmiðunum.