Fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar

iStock.com/wind-moon

Það er njósnað um þig

Alþjóðadagur neytendaréttar er haldinn hátíðlegur 15. mars á hverju ári. Upphaf hans má rekja til John F. Kennedy Bandaríkjaforseta sem, þann 15. mars árið 1962, varð fyrstur þjóðarleiðtoga til að lýsa því formlega yfir að neytendur hefðu grundvallarréttindi. Síðan þá hefur dagurinn verið helgaður baráttunnni fyrir bættum neytendarétti og markmið dagsins ekki síst að vekja stjórnvöld og almenning til umhugsunar um neytendarétt og neytendamál yfir höfuð. Samhljómur hefur verið um hin átta grunnréttindi neytenda, um að fá grunnþörfum mætt, til öryggis, til upplýsinga til vals, til áheyrnar, til úrlausnar, til neytendafræðslu og til heilbrigðs umhverfis. Upp á síðkastið hefur krafan um stafræna neytendavernd orðið háværari og hafa Neytendasamtökin tekið heilshugar undir hana, en henni felst að jafnt aðgengi allra sé tryggt, að öryggi og heiðarleiki ráði ferð í stafrænum vörum og þjónustu og að neytendur geti gert sér fulla grein fyrir öllum skilmálum. Það er því miður ekki raunin.

Neytendasamtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að tryggja stafræn réttindi neytenda á veraldarvefnum og beita sér á alþjóðavettvangi fyrir banni við netauglýsingum sem byggja á persónusniði og eftirliti með notendum. Nú tröllríða slíkar auglýsingar, og annað efni sem byggir á eftirliti með einstaklingum, netheimum og veldur neytendum margvíslegum skaða – og stofna í verstu tilfellum lýðræðinu í hættu. Á hverjum tíma þurfum við að þola að njósnað sé um okkur á netinu hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þannig er ráðskast með okkur, okkur mismunað og brotið á friðhelgi einkalífsins. Þetta njósnahagkerfi snýr ekki bara að friðhelgi einstaklingsins.

Gífurlegu magni upplýsinga um okkur er safnað, það flokkað og tengt saman án samþykkis. Stór og smá fyrirtæki safna upplýsingum um hvað okkur líkar, hvað við kaupum, andlega og líkamlega heilsu okkar, kynhneigð, staðsetningu og stjórnmálaskoðanir. Að auki heimta sum forrit að fá aðgang að myndunum þínum, myndavélinni, hljóðnemanum, tengiliðalistanum, dagatalinu þínu og svo má lengi telja. Og algrímið veit oft á tíðum meira um okkur en við sjálf. Þúsundum upplýsingabrota er safnað um hvert og eitt okkar og þau lögð saman í heildstæða mynd undir því yfirskyni að sníða efni og auglýsingar að okkur. Þessar persónuupplýsingarnar ganga kaupum og sölum, rétt eins og um hverja aðra markaðsvöru sé að ræða, og hæstbjóðandi fær aðgang að okkur með það fyrir augum að hafa áhrif á val okkar og skoðanir. Þannig geta óprúttnir aðilar keypt aðgang að upplýsingunum neytenda og ýtt að þeim efni til að fá þá til að snúast á þá sveif sem þeir vilja, eins og dæmin því miður sanna. Þannig er allt lýðræðið undir. Neytendasamtökin ásamt á sjötta tug neytenda- og mannréttindasamtaka sendu stjórnvöldum beggja vegna Atlantsála kröfu um bann við þessu persónunjósnahagkerfi á síðasta ári og í ár verður baráttunni haldið áfram, enda ekki vanþörf á.  Neytendur eru hvattir til að gefa þessu máli ríkan gaum.

Gleðilegan alþjóðadag neytendaréttar!

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.