Aðalfundur Neytendasamtakanna, sem var haldinn í dag 26.október, ályktaði svo:
Virk samkeppni, virkt aðhald
Sterk samkeppnislög, eftirlit og úrræði sem bíta eru nauðsynleg, sér í lagi í litlu landi eins og á Íslandi þar sem töluverð hætta á, og því miður nokkur reynsla af fákeppni og samráði.
Aðalfundur Neytendasamtakanna telur að fyrirhugaðar breytingar á samkeppnislögum gangi allt of langt í þjónkun við fyrirtæki á kostnað neytenda. Með þeim er aukið enn það valdaójafnvægi sem ríkir milli neytenda og fyrirtækja.
Neytendasamtökin gjalda þannig mikinn varhug við því að fella brott málshöfðunarrétt Samkeppniseftirlitsins og telja það mikla réttarskerðingu fyrir neytendur.
Þá er ólíðandi að ætla að varpa kostnaði vegna „lífskjarasamninganna“ á herðar neytenda með veikingu samkeppnislaga, eins og lesa má úr greinargerð með frumvarpinu.
Virk samkeppni þarfnast virks eftirlits. Skortur á samkeppni veldur hærra verði sem neytendur greiða á endanum.
Stöðvum ósvinnuna
Aðalfundur Neytendasamtakanna krefst þess að stjórnvöld stoppi tafarlaust í augljós lagagöt sem gera smálánafyrirtækjum og innheimtufyrirtæki á þeirra vegum kleift að starfa með núverandi hætti. Fyrirtækin notfæra sér neyð fólks sem oft á tíðum getur illa borið hönd fyrir höfuð sér. Sem samfélagi ber okkur að úthýsa smálánastarfsemi og samstarfsfyrirtækjum þeirra.
Aðalfundurinn bendir á 15 tillögur sem Neytendasamtökin hafa unnið með það fyrir augum að vinna bug á ósvinnunni og óréttmætum viðskiptaháttum smálánafyrirtækja.