Ályktanir

Hér má nálgast ályktanir stjórnar og aðalfunda Neytendasamtakanna.

2024

Á aðalfundi Neytendasamtakanna þann 22. október 2024 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024 krefst þess að stjórnvöld setji arðsemisþak á sölu rafmagns til heimila. Raforka er ein forsenda búsetu á Íslandi og afar ólík vörum á frjálsum markaði. Heimilin neyðast nú til að keppa við stórfyrirtæki um rafmagn, sem meðal annars hefur leitt til 13% verðhækkunar síðustu tólf mánuði.

Heimilin nota aðeins 4,6% af allri framleiddri raforku á Íslandi og stjórnvöld verða að tryggja þeim ekki bara afhendingaröryggi heldur einnig verðöryggi.

Með arðsemisþaki á sölu rafmagns til heimila væri raforka sett undir sama hatt og kalt og heitt vatn og flutningur á raforku, þar sem nú þegar er þak á arðsemi.

Aðalfundur Neytendasamtakanna krefst þess að stórir raforkuframleiðendur verði skyldaðir til að veita 5% af framleiðslu sinni til heimila og selja með takmarkaðri arðsemi. Ódýrt rafmagn til heimila er réttmætt gjald fyrir nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda og stuðlar að þjóðarsátt um nauðsynlegar virkjanir.

Á aðalfundi Neytendasamtakanna þann 22. október 2024 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Aðalfundur Neytendasamtakanna krefst þess að ráðherra skipi fulltrúa neytenda og fulltrúa umhverfis- og náttúruverndar í stjórn Úrvinnslusjóðs.

Úrvinnslusjóður er í eigu ríkisins, fjármagnaður af neytendum, og gegnir mikilvægu hlutverki við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Það skýtur skökku við að fulltrúar atvinnulífsins skipi meirihluta stjórnar en að hvorki fulltrúar neytenda né fulltrúar umhverfis- og náttúruverndar eigi þar sæti.

Aðalfundur Neytendasamtakanna gerir alvarlegar athugasemdir við að starfshópur um endurskoðun laga um Úrvinnslusjóð, sem á að skila tillögum til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eigi síðar en 15. nóvember 2024, hafi enn ekki fundað með Neytendasamtökunum, sem eru þó fulltrúi eins stærsta hagaðilans, neytenda og heimila. Aðalfundurinn krefst þess að starfshópurinn fundi með Neytendasamtökunum og taki tillit til athugasemda þeirra við vinnslu tillagna til ráðherra.

Þá gerir aðalfundur athugasemd við að skipaður formaður starfshópsins sé jafnframt stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs. 

2023

Stjórn Neytendasamtakanna samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 12. desember:

Núverandi áform stjórnvalda og háværar kröfur einstakra markaðsaðila um breytingar á lögum um raforku fela í sér verulega hættu á verðhækkunum til heimila. Lög skylda sveitarfélög til að afhenda heimilum landsins vatn á viðráðanlegu verði og með afar hóflegri arðsemi. Hið sama á að gilda um raforku. Ríkið hefur þegar skuldbundið sig til þess, sbr. Evróputilskipun 2009/72/ESB.

Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að þingmenn tryggi að þak verði sett á arðsemi raforku til heimila.

Stjórn Neytendasamtakanna samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 12. desember:

Stjórn Neytendasamtakanna krefst þess að þingmenn tryggi fjárframlög til eftirlits á neytendamarkaði. Framlög til Samkeppniseftirlitsins hafa lækkað um tugi prósenta á föstu verðlagi á sama tíma og verkefnin þess hafa aukist.
Nýleg dæmi um alvarleg og langvarandi samkeppnislagabrot sýna fram á mikilvægi þess að Samkeppniseftirlitið fái starfað sem skyldi og réttara væri að spýta í lófana fremur en að draga mátt úr því. Nái tillögur um áframhaldandi niðurskurð fram að ganga mun ábati neytenda og fyrirtækja af samkeppniseftirliti skerðast verulega.
Rétt er að minna á að virk samkeppni þarfnast virks eftirlits!

28. október 2023

Arðsemi banka

Aðalfundur Neytendasamtakanna skorar á bankana að lækka álögur sínar og færa í sama horf og tíðkast erlendis. Fundurinn fagnar nýlegri skýrslu um gjaldtöku og arðsemi hérlendra banka, og þeim áformum að henni verði fylgt eftir með raunverulegum aðgerðum til að ná kostnaði neytenda niður.  Skýrslan sýnir svart á hvítu að betri afkoma bankanna skilar sér ekki í betri kjörum til neytenda, og að óljósar og flóknar verðskrár gera neytendum ókleift að gera verðsamanburð og veita nauðsynlegt aðhald. Vaxtamunur bankanna er allt að þrisvar sinnum hærri en sambærilegra banka erlendis og arðsemi heildareigna helmingi meiri.

Vaxtastig

Aðalfundur Neytendasamtakanna krefst þess að gerð verði raunveruleg úttekt á því hvað veldur háu vaxtastigi á Íslandi. Skorar fundurinn á stjórnvöld og verkalýðshreyfinguna að taka höndum saman um að láta gera úttekt á því hvað veldur því að vaxtakostnaður er margfalt hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum.

Reiðufjárhöft

Í nýjasta Stöðuleikariti Seðlabankans bendir Seðlabankinn á að íslensk lög banni seljendum ekki að hafna viðtöku reiðufjár. Þessi framsetning Seðlabankans ýtir undir að söluaðilar hafni viðtöku reiðufjár, þannig að neytendur geti eingöngu greitt með greiðslukortum. Slík reiðufjárhöft skylda  neytendur beinlínis til viðskipta við banka. Reiðufjárhöft koma sérlega hart niður á jaðarsettum hópum, sem hafa ekki alltaf aðgang að greiðslukortum. Standi vilji til að koma á reiðufjárhöftum verður hið opinbera að tryggja aðgengi allra að rafrænni greiðslumiðlun. Aðalfundur Neytendasamtakanna áréttar að allar ákvarðanir um reiðufjárhöft eru í eðli sínu pólitískar, og krefst þess að umræða og ákvörðun um reiðufjárhöft sé tekin á vettvangi stjórnmálanna.

Dýrtíð

Afkomutölur margra fyrirtækja sýna mun meiri arðsemi en meira að segja þau sjálf gerðu ráð fyrir. Við þessar aðstæður fer aðalfundur Neytendasamtakanna fer fram á það við eigendur fyrirtækjanna að þeir skili hagnaðaraukanum til til neytenda. Í raunverulegu samkeppnisumhverfi myndi slík umframarðsemi skila sér í lægra verði vöru og þjónustu. Aðalfundur Neytendasamtakanna minnir á að við erum öll neytendur. Barátta fyrir bættum rétti neytenda er barátta fyrir bættum lífskjörum alls almennings.

Verðmerkingar

Nákvæmar upplýsingar á opnum og virkum markaði stuðla að neytendavernd og heilbrigðri samkeppni. Skýrar og nákvæmar verðmerkingar eru mikilvægar upplýsingar fyrir neytendur og gera þeim kleift að vera virkir þátttakendur á markaði. Þannig eru einingarverð mikilvægar upplýsingar sem auðvelda neytendum að velja milli vara og gera verðsamanburð.  ESB-tilskipunin frá 1998 um neytendavernd að því er varðar upplýsingar um verð á vöru sem er boðin neytendum (98/6/EB) var mikilvæg réttarbót fyrir neytendur á öllu EES-svæðinu. Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki lokið við að innleiða tilskipunina. Neytendasamtökin skora á stjórnvöld að innleiða tilskipunina að fullu sem fyrst og fella niður þær undantekningar í reglugerð nr. 536/2011 um verðmerkingar og einingarverð sem ekki eiga sér stoð í tilskipuninni.

23. ágúst 2023

Stjórn Neytendasamtakanna harmar nýjustu stýrivaxtahækkun Seðlabankans og telur að hún muni koma harðast niður á þeim sem síst skyldi. Telur stjórnin ótækt að umsvif í atvinnulífinu og góð afkoma fyrirtækja bitni á neytendum í formi hárra stýrivaxta, sem eru nú tvöfalt hærri en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Vissulega þarf að ná verðbólgunni niður en stýrivextir hafa lítið að segja í baráttu við verðbólgu sem á rætur sínar að rekja til arðsemiskrafna fyrirtækja og aðgerðarleysis stjórnvalda. Stjórnvöld hafa fjölmörg önnur tæki og tól til að takast á við verðbólguna en hafa kosið að sitja hjá.

Fjölmargir hafa haft samband við Neytendasamtökin vegna kostnaðarhækkana frá því verðbólgan fór að láta á sér kræla. Neytendasamtökin hafa þó að undanförnu orðið vör við að nýr hópur skjólstæðinga, launþegar á besta aldri, leiti til samtakanna vegna kostnaðarkreppunnar. Róðurinn er að þyngjast hjá neytendum. Stjórn Neytendasamtakanna bendir á að ruðningsáhrif vaxtahækkananna reynast venjulegu fólki verri en verðbólgan sem stýrivextirnir eigi að taka á. Lækning Seðlabankans er verri en sjúkdómurinn sjálfur.

30. janúar 2023

Stjórn Neytendasamtakanna lýsir yfir gífurlegum vonbrigðum með aðgerðir stjórnvalda sem leiða til þeirrar miklu verðbólgu sem fréttir berast af í dag. Samkvæmt Hagstofunni hækkar verðbólgan um 0,85% milli mánaða og ársverðbólgan fer úr 9,6% í 9,9%. Aldrei þessu vant nær venjubundin lækkun verðbólgu vegna janúarútsala ekki að slá á hækkunina að neinu ráði. Hækkun verðbólgu í janúar er að mestu til komin vegna hækkana á búsi, bílum og búvörum. Þessi kostnaðarliðir eiga það sameiginlegt að hið opinbera stýrir verði þeirra að verulegu leyti með álögum. Því miður virðist það ganga eftir sem stjórn Neytendasamtakanna benti á í umsögn um fjárlagafrumvarpið, að krónutöluhækkanir gjalda ríkisins skila sér beint út í verðbólguna.

Staðan er grafalvarleg og stjórn Neytendasamtakanna skorar á stjórnvöld að ganga á undan með góðu fordæmi og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr verðbólgu.

2022

29. ágúst 2022

Stjórn Neytendasamtakanna gagnrýnir harðlega hvernig staðið er að skipun starfshóps sem skoðar breytingu á stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála á Íslandi. Óásættanlegt er að fulltrúi atvinnulífs fái sæti í nefndinni, en horft sé fram hjá neytendum líkt og samkeppnis og neytendamál komi þeim ekki við. Stjórn Neytendasamtakanna gerir kröfu um sæti við borðið til að tryggja að raddir og sjónarmið neytenda komi fram.

6. maí 2022

Verðbólga á Íslandi er sú mesta í 12 ár og er að stærstum hluta vegna hækkunar matar, drykkjarvara og húsnæðiskostnaðar. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að halda aftur af henni.

Stjórn Neytendasamtakanna beinir því til forsvarsmanna fyrirtækja að leita allra leiða til að halda aftur af hækkunum. Fyrirtæki verða þess í stað að hagræða, lækka álögur og draga úr arðsemiskröfum. Bendir stjórn á að hagnaður banka og margra smásölufyrirtækja var afspyrnugóður í fyrra.

Þá beinir stjórn samtakanna því til stjórnvalda að frysta eða lækka gjaldskrár, og frysta í krónum talið, lækka eða afnema tolla og álögur hið snarasta.

Neytendur þurfa að standa saman, og vera á varðbergi gegn óeðlilegum verðhækkunum.

2021

9. september 2021

Í ljósi frétta undanfarið um að sellerí sé ófáanlegt í verslunum vegna hamlandi og misskilinnar tollverndar ályktar stjórn Neytendasamtakanna eftirfarandi:

Valfrelsi neytenda er grundvallaratriði, en enn og aftur verða neytendur fyrir barðinu á óviturlegu kerfi sem býr til vöruskort. Neytendasamtökin telja mikilvægt að stundaður sé öflugur landbúnaður á Íslandi enda mun innlend framleiðsla alltaf standa undir megin neyslu þjóðarinnar. En tilraunir til neyslustýringar með tollum og önnur verndarhyggja eru hamlandi stuðningur sem leiðir til taps neytenda, og framleiðenda þegar litið er til lengri tíma. Þessi hamlandi stuðningur er hluti af gamalli og hverfandi arfleifð, af hverri bændur hafa hingað til ekki riðið feitum hesti og verður að láta af. Þess í stað þarf að leggja áherslu á styðjandi stuðning, stuðning við nýsköpun og beinan stuðning við bændur. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur hafa sýnt að þeim er heilt yfir treystandi til að framleiða holl og góð matvæli. Matvælaframleiðendur verða að treysta eigin framleiðslu. Treysta verður neytendum til að velja, en leggja til hliðar hamlandi hugmyndir um tollmúra og neyslustýringu.

16. júní 2021

Stjórn Neytendasamtakanna harmar þau alvarlegu brot á samkeppnislögum sem Eimskip og Samskip virðast hafa stundað árum saman og Samkeppnisstofnun hefur nú afhjúpað. Enn á ný er sýnt fram að virk samkeppni þarfnast öflugs og virks eftirlits, en skemmst er að minnast staðfestingu hæstaréttar að alvarlegum samkeppnislagabrotum Mjólkursamsölunnar og grófum brotum Byko fyrr á árinu. Í öllum tilfellum hafa fyrirtækin verið sektuð um hundruð milljóna króna, sem renna í ríkissjóð.

Stjórn samtakanna bendir þó á að þeir sem urðu fyrir brotunum þ.e.a.s. neytendur, bera skarðan hlut frá borði þar sem erfitt er fyrir þá sem verða fyrir samkeppnislagabrotum, þ.e.a.s. neytendur, að fá hlut sinn réttan. Hefði hins vegar tilskipun 2014/104/ESB verið innleidd eða sambærileg lög sett, væri einfalt fyrir brotaþola, að sækja skaðabætur með einföldum hætti.

Stjórn Neytendasamtakanna krefjast þess að stjórnvöld setji tafarlaust af stað vinnu til að bæta úr úrræðaleysi neytenda og breyta lögum. Með því yrðu íslenskir neytendur jafnt settir og neytendur í Evrópu, og jafnframt væri mikill fælingarmáttur í slíkum lögum. Neytendur treysta á virka samkeppni og tilraunir til að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni er aðför að neytendum.

2020

Stjórn Neytendasamtakanna kallar eftir því að hagsmunir neytenda séu í forgrunni í efnahagsaðgerðum stjórnvalda. Aðgerðir stjórnvalda hafa hingað til aðallega snúist um að aðstoða fyrirtæki í erfiðleikum, jafnvel með því að grafa undan réttindum neytenda. Neytendum hefur verið boðið að nýta sinn eigin lífeyrissparnað til fasteignakaupa en ljóst er að sú leið gagnast aðeins fáum og síst þeim sem minnst hafa milli handanna. Neytendasamtökunum hafa borist fyrirspurnir frá fjölmörgum lántakendum sem óttast að geta ekki staðið í skilum vegna tekjumissis. Skuldavandi einstaklinga getur dýpkað kreppuna og gert afleiðingar hennar langvinnari.

Neytendasamtökin skora á íslensk stjórnvöld og lánastofnanir að gera eftirfarandi ráðstafanir, í samræmi við tillögur Evrópsku neytendasamtakanna (BEUC):

  • Lántakendur í fjárhagsvanda eigi skýlausan rétt á greiðslufresti í að minnsta kosti sex mánuði.
  • Réttur til greiðslufrests nái til allra tegunda neytendalána veðtryggðra og óveðtryggðra, þar á meðal húsnæðislána, bílalána, neyslulána, yfirdráttar og greiðslukortalána.
  • Greiðslufrestur nái bæði til afborgana höfuðstóls og vaxta.
  • Á meðan greiðsluhléi stendur berI lán ekki vexti.
  • Skilyrði fyrir greiðslufresti séu ekki of þröng, til að útiloka ekki að neytendur í viðkvæmri stöðu nýti sér þennan rétt. Neytendasamtökin komi að útfærslu skilyrða.
  • Greiðslufrestunarferlið sé hraðvirkt, vandkvæðalaust og ókeypis.
  • Greiðslufrestun hafi ekki neikvæð áhrif á lánshæfismat til framtíðar.
  • Bann sé lagt við framsali krafna til þriðja aðila (innheimtumanna skulda) sem og við nauðungarsölum á meðan COVID-19 kreppan gengur yfir.

Stjórn Neytendasamtakanna óskar eftir samtali Neytendasamtakanna, stjórnvalda, aðilda vinnumarkaðarins og annarra sem hagsmuna eiga að gæta um leiðir til að minnka áhrif kreppunnar á almenning.

Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir því harðlega að velta eigi lausafjárvanda fyrirtækja á herðar neytendum eins og gert er ráð fyrir í efnahagsaðgerðum stjórnvalda, en þar segir meðal annars: „Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.“

Það er ekki í boði að heimilin axli byrðar lausafjárvanda fyrirtækja og inneignarnótur í gjaldþrota fyrirtækjum eru einskis virði. Fjölmargir hafa misst viðurværi sitt og gera ráð fyrir að fá endurgreiðslu eins og lög kveða á um.

Stjórn Neytendasamtakanna minnir á að neytendur eiga skýlausan rétt á endurgreiðslum og með þessu er áhættunni velt yfir á neytendur. Þá er ekki ólíklegt að með því að breyta lögum afturvirkt geti ríkið skapað sér bótaskyldu. Neytendasamtökin hafa margsinnis bent á leiðir sem kæmu bæði fyrirtækjum og neytendum vel og furða sig á að ekki sé á þau hlustað.

Líklega hefur sjaldan verið eins mikilvægt að standa vörð um neytendavernd og telja Neytendasamtökin nær að stjórnvöld tryggðu réttindi neytenda í stað þess að leggja af réttindi sem þeir eiga.

2019

26.11 2019

Sterk samkeppnislög, eftirlit og úrræði sem bíta eru nauðsynleg, sér í lagi í litlu landi eins og á Íslandi þar sem töluverð hætta á, og því miður nokkur reynsla af fákeppni og samráði.

Aðalfundur Neytendasamtakanna telur að fyrirhugaðar breytingar á samkeppnislögum gangi allt of langt í þjónkun við fyrirtæki á kostnað neytenda. Með þeim er aukið enn það valdaójafnvægi sem ríkir milli neytenda og fyrirtækja.

Neytendasamtökin gjalda þannig  mikinn varhug við því að fella brott málshöfðunarrétt Samkeppniseftirlitsins og telja það mikla réttarskerðingu fyrir neytendur.

Þá er ólíðandi að ætla að varpa kostnaði vegna „lífskjarasamninganna“ á herðar neytenda með veikingu samkeppnislaga, eins og lesa má úr greinargerð með frumvarpinu.

Virk samkeppni þarfnast virks eftirlits. Skortur á samkeppni veldur hærra verði sem neytendur greiða á endanum.

21. febrúar 2019

Í kjölfar fjölmargra fyrirspurna og ábendinga sem Neytendasamtökunum hefur borist frá félögum undanfarnar vikur vegna afhjúpunar á háttsemi bílaleigu, ályktar stjórn samtakanna eftirfarandi:

-Stjórn Neytendasamtakanna skorar á stjórnvöld að bregðast við af fullri hörku til varnar neytendum, sem hafa verið freklega blekktir. Það verður einungis gert með rannsókn á því hvort þessi sviksemi einskorðist við eitt fyrirtæki eða hvort það sé víðtækara. Þá þarf að tryggja að nýir bílaleigubílar séu ástandsskoðaðir einu sinni á ári líkt og leigubílar, í stað þess að þeir að þeir séu ástandsskoðaðir fyrst eftir fjögur ár eins og nú er. Jafnframt þarf að tryggja að eftirlit með akstursmælum verði fullnægjandi.

Fyrir aukinni skoðunartíðni liggja ýmis rök. Bílaleigubílum er að jafnaði ekið fjórum sinnum meira árlega en venjulegum bílum og af fjölda misnatinna ökumanna. Hlutfall bílaleigubíla er jafnframt allt að ellefu sinnum hærra hér en á Norðurlöndunum. Þar af leiðir að hlutdeild fyrrverandi bílaleigubíla er ákaflega hátt á almennum markaði fólksbíla. Því er enn meiri nauðsyn að tryggja öryggi þeirra frá upphafi. Stjórn Neytendasamtakanna áréttar að réttur til öryggis er meðal átta lágmarksréttinda neytenda samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna, og felur meðal annars í sér vernd gagnvart vörum, framleiðsluháttum og þjónustu sem ógna öryggi neytenda.

Aðgerðir eins aðila hafa rúið heila atvinnugrein trausti, og traust verður einungis byggt upp á ný með aðgerðum sem hafnar eru yfir minnsta grun um hvítþvott eða undabrögð.

24. janúar 2019

Stjórn Neytendasamtakanna hefur samþykkt svohljóðandi ályktun:

Stjórn Neytendasamtakanna lýsir yfir áhyggjum af stöðu leigjendamála á Íslandi og lýsir yfir furðu á samráðsleysi við samtökin í tengslum við tillögur átakshóps við vanda á húsnæðismarkaði.

Neytendasamtökin hafa um árabil sinnt ráðgjöf og lagalegri aðstoð við leigjendur ásamt almennri hagsmunagæslu. Samtökin hafa frá árinu 2011 gert árlegan samning við velferðarráðuneytið um ákveðna þætti þessarar þjónustu. Nú hefur samningur um leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna runnið úr gildi og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í heilt ár hafa samtökin ekki hlotið áheyrn ráðherra húsnæðismála með það fyrir augum að endurnýja samninginn.

Samtökin hafa þó haldið áfram að aðstoða leigjendur í neyð. Mikil eftirspurn er eftir þjónustunni og er hún vel þekkt meðal fólks á leigumarkaði og leituðu á þriðja þúsund leigjenda til hennar árið 2017, þar af um fimmtungur erlendir ríkisborgarar. Það kom því á óvart að starfshópur stjórnvalda í húsnæðismálum skuli ekki hafa haft samráð við Neytendasamtökin við vinnu skýrslunnar.

Þessi skortur á samráði, ásamt því að ekki hefur verið brugðist við óskum um endurnýjun samnings, eru nöturleg skilaboð til leigjenda á Íslandi.

26.10 2019

Aðalfundur Neytendasamtakanna krefst þess að stjórnvöld stoppi tafarlaust í augljós lagagöt sem gera smálánafyrirtækjum og innheimtufyrirtæki á þeirra vegum kleift að starfa með núverandi hætti. Fyrirtækin notfæra sér neyð fólks sem oft á tíðum getur illa borið hönd fyrir höfuð sér. Sem samfélagi ber okkur að úthýsa smálánastarfsemi og samstarfsfyrirtækjum þeirra.

Aðalfundurinn bendir á 15 tillögur sem Neytendasamtökin hafa unnið með það fyrir augum að vinna bug á ósvinnunni og óréttmætum viðskiptaháttum smálánafyrirtækja.

2018

6. nóvember 2018

Stjórn Neytendasamtakanna hefur samþykkt svohljóðandi ályktun:

Neytendasamtökin beina þeim tilmælum til Samkeppniseftirlitsins að í umfjöllun um hugsanlega sameiningu Wow og Icelandair verði fyrst og fremst tekið mið af hagsmunum neytenda. Tryggja verði virka samkeppni í flugsamgöngum neytendum til hagsbóta. 
Almenningur í landinu á mikið undir því að virk samkeppni ríki í flugsamgöngum. Þá beinir stjórn Neytendasamtakanna þeim tilmælum til stjórnar Icelandair Group að velta ekki kostnaði á herðar neytenda með hækkun farmiðaverðs. Neytendasamtökin munu fylgjast náið með framvindu þessa máls.

25. janúar 2018

Stjórn Neytendasamtakanna furðar sig á og mótmælir fyrirhugaðri línulögn um grannsvæði vatnsbóla allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins. Að setja upp háspennumöstur fylgir afar mikið jarðrask og stórtækar vinnuvélar með tilheyrandi mengunarhættu yrðu að störfum á gljúpu hrauni, aðeins nokkrum metrum ofan við þar sem vatnið rennur á leið í vatnsbólin.

Háspennulínur er hægt að setja í jörð meðfram vegum sem ekki eru á vatnsverndarsvæði. Það hlýtur alltaf að teljast betri kostur en að leggja í hættu mestu auðlind þjóðarinnar í dag og til allrar framtíðar.

Ein dýrmætasta náttúruauðlind okkar er hreint vatn og skal verja það með öllum ráðum.

Réttur hvers íbúa landsins til hreins vatns hlýtur ávallt að vega þyngra en háspennulína (sem þar að auki er óþörf í dag) sem hægt er að leggja annarstaðar (t.d. meðfram núverandi vegum utan vatnasvæða) með mun minni eða engri áhættu fyrir neytendur.

27-28. október 2018

Á þingi Neytendasamtakanna, sem haldið var dagana 27-28. október 2018, var samþykkt með meirihluta atkvæða eftirfarandi tillaga:

,,Þing Neytandasamtakanna skorar á stjórnvöld hér á landi að hlutast til um að íslenskir neytendur búi við sambærileg lánakjör og neytendakjör og neytendur í nágrannalöndum Íslands. Krafa neytanda er að verðtrygging á neytendalánum, þar með talið íbúðalánum neytenda verði afnumin.“

25. nóvember

Stjórn Neytendasamtakanna samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 25 nóvember 2018.

Í ljósi nýlegs dóms Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að bann við innflutningi á ferskri kjötvöru, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurafurðum samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins skorar stjórn samtakanna á nýja ríkisstjórn að gera nauðsynlegar ráðstafanir hið fyrsta til að framfylgja dómnum. Jafnframt skorar stjórn NS á innflutningsaðila og heildsala að tryggja upprunamerkingar og heilnæmi matvara. Þó svo að samkeppni sé af hinu góða má hún ekki bitna á öðrum hagsmunum neytenda.

2017

9. júlí 2017

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hefur öllu starfsfólki Neytendasamtakanna verið sagt upp í ljósi alvarlegrar fjárhagsstöðu samtakanna. Þessi staða er að mestu leyti tilkomin vegns óhóflegra útgjalda sem formaður samtakanna, Ólafur Arnarson, hefur efnt til án aðkomu stjórnar. Þegar stjórn varð ljóst hver staðan var lýsti hún yfir vantrausti á formanninn og skoraði á hann að stíga til hliðar. Þá hefur starfsfólk samtakanna einnig lýst yfir vantrausti á formann og biðlað til hans að segja af sér. Þrátt fyrir að formanni hafi verið gerð grein fyrir alvarleika málsins, sem hann ber að miklu leyti ábyrgð á, situr hann sem fastast.

Ljóst er að fara þarf í aðgerðir til að bjarga samtökunum og er það mat bæði stjórnar og starfsmanna og að slíkt verði ekki gert með formanninn innanborðs. Stjórn hefur nú þegar gripið til aðgerða til að takmarka aðgang formanns að daglegum rekstri. Hann er ekki lengur starfsmaður skrifstofu og hefur ekki heimildir til að skuldbinda samtökin né að efna til nokkurra útgjalda af hálfu þeirra.

Stjórn og starfsfólk vinnur samhent að því að koma Neytendasamtökunum aftur á réttan kjöl enda er mikilvægi þeirra fyrir þjóðfélagið óumdeilt.

10. maí 2017

Stjórn Neytendasamtakanna hefur sent eftirfarandi ályktun til Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra:

Stjórn Neytendasamtakanna skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra að gera breytingar á reglugerð um drykkjarvöruumbúðir, sem taka á gildi þann 1. júní næstkomandi. Í 9. gr. reglugerðarinnar eru sett skilyrði um að strikamerki skuli vera lóðrétt á umbúðum drykkjarvara, en greinin hljóðar svo:

,,Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir skulu strikamerktar á merkimiða á hverri skilaskyldri umbúð fyrir sig og skal strikamerki vera hluti af ISO/IEC 15420 stöðlum. Strikamerki skal vera lóðrétt á drykkjarvöruumbúð. Strikamerki skal vera a.m.k. 80% af skilgreindri grunnstærð strikamerkis samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir úr postulíni eða keramík eru óheimilar.

Fari innflytjendur eða framleiðendur ekki að kröfum skv. 1. og 2. mgr. skal Umhverfisstofnun kæra brot þeirra til lögreglu skv. 10. gr. laga nr. 52/1989, ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.“

Stjórn Neytendasamtakanna telur skilyrði um að strikamerki skuli vera lóðrétt vera til þess fallið að hamla innflutningi á drykkjarvörum og draga úr samkeppni á íslenskum drykkjarvörumarkaði. Vegna smæðar íslenska markaðarins er langsótt að erlendir framleiðendur breyti umbúðum sínum sérstaklega fyrir íslenska markaðinn og því leiðir þetta skilyrði í reglugerðinni til kostnaðarauka fyrir innflytjendur og smásala, sem lendir á neytendum í formi hærra vöruverðs og takmarkar samkeppni. 

Hér er um að ræða viðskiptahindrun á kostnað neytenda og því mótmælir stjórn Neytendasamtakanna og skorar á ráðherra að breyta reglugerðinni áður en hún tekur gildi.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.