Fréttir

Ályktun aðalfundar Neytendasamtakanna 2022

iStock.com/ Elena Ivanova

Aðalfundur Neytendasamtakanna hvetur stjórnvöld og atvinnulíf til að hafa hagsmuni og sjónarmið neytenda í fyrirrúmi í baráttunni við aukna verðbólgu og forðast allar aðgerðir sem hækka vísitölu neysluverðs. Neytendasamtökin krefjast þess að neytendur njóti góðs af kostnaðarlækkunum og hagræðingu í rekstri fyrirtækja.

Forsvarsmenn fyrirtækja verða að sýna samfélagslega ábyrgð og tryggja neytendum sanngjarnt verð í stað þess að notfæra sér aðstæður, hækka álagningu og hagnast, á meðan almenningur ber skarðan hlut frá borði!
Stórfyrirtæki sem selja vörur og þjónustu sem teljast til nauðsynja bera mikla ábyrgð og hafa með álagningu sinni mjög mikil áhrif á neytendur og lífskjör. Það er með öllu ólíðandi að fyrirtæki skýli sér á bak við innrás Rússa í Úkraínu og kórónuveirufaraldurinn til að viðhalda háu vöruverði. Í þessu samhengi ber sérstaklega að minnast á olíufélög sem og matvörukeðjur.

Aðalfundur Neytendasamtakanna minnir á að við erum öll neytendur og barátta fyrir bættum rétti neytenda er barátta fyrir bættum lífskjörum okkar allra.

Til að bæta stöðu neytenda telur aðalfundur Neytendasamtakanna eftirfarandi sérlega brýnt:

-Virk samkeppni hefur jákvæð áhrif á verð, gæði og nýsköpun og tilraunir til að koma í veg fyrir virka samkeppni eru aðför að neytendum. Ráðast þarf í víðtækar aðgerðir sem ýta undir og efla samkeppni og auðvelda þarf neytendum að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota með innleiðingu Evrópusambandstilskipunar 104/2014.

-Setja þarf hámark á innheimtukostnað og færa eftirlit með allri innheimtustarfsemi til Fjármálaeftirlits Seðlabankans. En dæmi er um nærri fjórföldun upphæðar á sex vikum við innheimtu á tiltölulega lágri kröfu. Það jafngildir rúmlega 2.400% vöxtum á ársgrundvelli.

-Endurskoða þarf lög um meðferð einkamála og skýra betur heimildir fyrir almannaheillasamtök að efna til hópmálsókna, en dómaframkvæmd hefur verið neytendum þung og Neytendasamtökunum verið gert erfitt fyrir að fara í dómsmál fyrir hönd margra skjólstæðinga.

Fréttir í sama dúr

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Staðan í Vaxtamálinu

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.