Gjaldskyldum bílastæðum fer fjölgandi hvort sem er í borgum og bæjum, eða við helstu ferðamannstaði. Að sama skapi fjölgar öllum þeim ólíku greiðslumátum sem boðið er upp á. Neytendasamtökin hafa fengið mörg bílastæðamál inn á sitt borð á þessu ári. Flest varða þau há vangreiðslugjöld.
Himinhátt vangreiðsluálag
Maður hafði samband við Neytendasamtökin og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hafði, ásamt fjölskyldu, heimsótt Kirkjufell á Snæfellsnesi en tók ekki eftir því að gjaldskylda er á bílastæðið. Þegar maðurinn fékk reikning í heimabanka upp á 5.750 kr. brá honum í brún. Í ljós kom að bílastæðagjaldið er 1.000 kr. en sé það ekki greitt innan sólarhrings bætist við svokallað vangreiðsluálag að upphæð 4.500 kr. auk 250 kr. færslugjalds. Maðurinn taldi ekki eftir sér að greiða sjálft bílastæðagjaldið en refsing að upphæð 4.500 kr. fyrir að greiða ekki innan sólarhrings væri einum of mikið af hinu góða. Hann kvartaði við fyrirtækið Sanna Landvætti sem rekur stæðið og fékk kröfuna lækkaða úr 5.750 kr. í 3.500 kr.
Innheimtustarfsemi eða ekki?
Ekki er óeðlilegt að seljendur vöru og þjónustu fái fjárbætur í formi lögbundinna dráttarvaxta, sé krafa ekki greidd á réttum tíma. Þegar kröfur eru settar í formlegt innheimtuferli þarf þó að fylgja lögum og reglum um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Sem dæmi má innheimtuviðvörun fyrsta innheimtubréfs ekki vera hærri en 950 kr. Það skýtur því skökku við að refsing fyrir að greiða ekki bílastæðagjald innan 24 klukkutíma geti numið fleiri þúsundum króna.
Neytendasamtökin sendu erindi til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands enda brýnt að fá úr því skorið hvort seljendur geti með þessum hætti beitt óhóflegum sektargreiðslum í stað hefðbundinnar innheimtu. Skýr svör hafa ekki borist en Umboðsmaður neytenda í Danmörku leit mjög til þessa í nýlegu áliti sínu sem sjá má hér neðar.
Neytendastofa hefur ekki farið varhluta af bílastæðakvörtunum og er núna með 11 slík mál til meðferðar. Málin eru viðamikil og fjölbreytt og stendur gagnaöflun yfir. Mun meðal annars reyna á hvort upplýsingagjöf sé nægileg og hvort skilmálar standist lög.
Vangreiðslugjöld í raun innheimta – álit umboðsmanns neytenda
Umræða um bílastæðagjöld einskorðast ekki við Ísland. Umboðsmaður neytenda í Danmörku gaf út áhugavert álit nýlega. Fólk sem lagt hafði bíl sínum við Árósaflugvöll kvartaði yfir vangreiðslugjaldi að upphæð 5–6.000 íslenskar krónur sem lagðist ofan á bílastæðagjaldið. Líkt og víða hér á landi var bílnúmer skannað þegar keyrt var inn á og svo aftur út af stæðinu og gefinn 48 tíma frestur til að greiða gjaldið. Í stuttu máli komst Umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að í tilliti laganna væri í raun um innheimtu að ræða. Hámarkskostnaður við innheimtuviðvörun væri mun lægri en vangreiðslugjaldið sem innheimt var. Benti umboðsmaður á að reglur um hámark á innheimtuviðvörunum hefðu það markmið tryggja seljanda sanngjarna þóknun vegna þeirrar vinnu að innheimta kröfu en væru ekki síður ætlaðar til að sporna gegn því að innheimta verði tekjulind í sjálfu sér. Lesendur Neytendablaðsins eru því hvattir til að halda kvittunum vegna vangreiðslugjalda til haga þar til niðurstaða kemst í málin hér á landi, því komist Neytendastofa að svipaðri niðurstöðu og hinn danski Umboðsmaður neytenda gætu þeir átt rétt á að fá ofgreiddar kröfur endurgreiddar.
Ólíkir greislumátar
Margir lesendur muna eflaust eftir gömlu bílastæðamælunum sem voru við hvert bílastæði og tóku eingöngu klink. Mikill hægðarauki hlaust af því þegar hægt að var að nota greiðslukort til að greiða fyrir bílastæði í stað þess að þurfa að hrista fram klink í hvert sinn er bílnum var lagt í gjaldskylt stæði. Nú er svo komið að víðast hvar er greitt í bílastæði í gegnum öpp og einnig er í einhverjum tilfellum hægt að greiða í gegnum vefsíður. Mörg fyrirtæki eru á þessum markaði og því þurfa bílstjórar að passa að vera með rétt app á réttum stað. Á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda, má sjá grein um þá ólíku greiðslumáta sem bjóðast.
Háar upphæðir
Vangreiðslugjöldin eru almennt nokkuð há, en það eru eigendur stæðanna sem ákveða bæði upphæð bílastæðagjalds og vangreiðslugjalds. Algengt er að vangreiðslugjaldið sé 3.500 kr. en það getur þó verið mun hærra. Farist fyrir að greiða fyrir stæði í bílastæðahúsi Hörpu, eða sé bíl lagt of lengi, þarf að greiða vangreiðslugjald að upphæð 7.500 kr. Ef greitt er innan þriggja sólahringa lækkar gjaldið í 6.500 kr.
Nokkuð hefur borið á kvörtunum vegna vangreiðslugjalds Isavia, sem rekur helstu flugvelli landsins og bílastæðin við þá. Vangreiðslugjaldið er 1.490 kr. sé ekki greitt innan 48 klukkustunda frá útkeyrslu. Kvartanir snúa ekki síst að bílastæðagjaldi á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli þar sem frítt er að leggja fyrstu 15 mínúturnar. Fólk telur sig vera innan tímamarka, enda almennt ekki á skeiðklukkunni, en fær sendan reikning ásamt vangreiðslugjaldi í heimabanka. Gjaldið er reyndar kallað þjónustugjald, sem er villandi að mati Neytendablaðsins.
Hafa neytendur á orði að þar sem fyrirkomulag Isavia sé nýtt af nálinni hafi það komið þeim í opna skjöldu, auk þess að búið sé að flækja ferilinn óþarflega. Áður hafi krafa verið send í heimabanka ef bíll var lengur en 15 mínútur á stæðinu og var því hægt að greiða uppsett verð án vangreiðslugjalds. Nú þarf hins vegar að skrá bílinn í gegnum Autopay eða Parka en einnig eru sjálfsafgreiðslustöðvar inni í flugstöðinni. Isavia sendir þó fólki rafrænan reikning í heimabanka samhliða greiðsluseðli, sem allir rekstraraðilar bílastæða ættu að gera.
Að sjá skiltin
Í mörgum tilfellum segist fólk ekki taka eftir upplýsingum um gjaldskyldu og greiðslumáta. Skilti eru misáberandi og ef vel á að vera þarf að lýsa þau upp þegar dimmt er. Þá eru aðstæður ekki alltaf þannig að fólk geti stöðvað bíl við skilti og lesið sér til í rólegheitum. Þar sem gjaldskyldum bílastæðum fjölgar ört er vissara að líta vel í kringum sig eftir skiltum og leiðbeinginum. Það er svo á ábyrgð eiganda bílastæða að tryggja viðunandi upplýsingagjöf.
Greitt fyrir rangt stæði
Sumar kvartanir snúa að því að greitt er fyrir rangt stæði. Gjaldskyld bílastæði á samliggjandi svæðum, eins og til dæmis í bílakjallara Hörpu, geta tilheyrt ólíkum eigendum. Eitt stæðið getur tilheyrt bílastæðasjóði sveitarfélags, en stæðið við hliðina einhverjum allt öðrum, og þá jafnvel haft aðra gjaldskrá og annan greiðslumáta. Þá þekkja eflaust einhver að greiða fyrir rétt stæði í réttu appi en fyrir rangan bíl. Árverkni bílstjóra einskorðast því ekki við aksturinn.
Krafa frá hverjum og fyrir hvað?
Margar kvartanir snúa að því hversu erfitt getur verið að sjá hver er raunverulega á bakvið bílastæðakröfu sem birtist í heimabanka. Ekki liggur alltaf fyrir að um sé að ræða bílastæðakröfu og nafn kröfuhafa hringir jafnvel engum bjöllum. Hafa starfsmenn samtakanna oftar en ekki þurft að leggjast í rannsóknir til að finna netfang eða símanúmer hjá ábyrgðaraðila svo hægt sé að leita skýringa.
Bílastæðagjöld eru eflaust komin til að vera og Neytendasamtökin beina því til þeirra sem reka bílastæði að sýna hófsemi og sanngirni. Það er mikilvægt að greiðsluferli verði einfalt og skýrt og að sem fyrst verði leyst úr þeim álitamálum sem uppi eru.
Neytendablaðið 2 tbl. 2024